06.03.1957
Sameinað þing: 44. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í D-deild Alþingistíðinda. (2874)

120. mál, álitsgerðir um efnahagsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er nú orðið eitt aðaládeiluefnið á ríkisstj., að hún hafi sýnt sínum fylgismönnum hér á hinu háa Alþ. forsmán. Út af því þarf hv. stjórnarandstaða ekki að hafa neinar áhyggjur. Samstarf ríkisstj. og hennar stuðningsmanna í sambandi við ráðstafanir, sem hér voru gerðar fyrir áramótin, var ágæt. (Gripið fram í: Ha, má ég heyra aftur?) Var ágæt. (Gripið fram í: Nú, var það ágætt?) Það þurfti ekkert yfir því að klaga, að ekki lægju fyrir alveg fullnægjandi upplýsingar, til þess að hægt væri að taka þær ákvarðanir, sem teknar voru.

En það gerðist núna sem ekki gerðist í fyrra, að ekki var aðeins einhugur mikils meiri hluta alþm., allra stuðningsflokka núverandi ríkisstj., um það, sem gerðist, heldur hlutu ráðstafanirnar einnig stuðning stéttasamtakanna, hinna stóru stéttasamtaka í þjóðfélaginu. Það var nýmæli. Það hafði ekki gerzt áður.

Það sem gerðist um næstsíðustu áramót, var, að þáverandi stjórnarflokkar voru sammála um það, sem gert var, alveg eins og núverandi stjórnarflokkar voru sammála um það, sem gert var núna, en munurinn var sá, að stuðningurinn var miklu víðtækari við það, sem nú var gert, heldur en við það, sem áður var gert, og það gerði gæfumuninn og gerir enn.

Annað atriði var það, sem hv. síðasti ræðumaður nefndi og ég vildi að síðustu gera að umtalsefni í örfáum orðum. Það er það eina, sem er eftir sem ádeiluefni, að hæstv. forsrh. hafi sagt, að í áliti hinna erlendu hagfræðinga hafi falizt staðfesting á því, að hér á landi væri um að ræða helsjúkt atvinnulíf. Það, sem hæstv. forsrh. hefur ábyggilega átt við með þessum orðum sínum, var, að auðvitað hlutu hinir erlendu sérfræðingar að staðfesta, að hér á landi hefur mörg undanfarin ár verið mjög alvarleg verðbólga og að meginviðfangsefnið í efnahagsmálum okkar um síðustu

áramót og enn er að sjálfsögðu að ráða bót á verðbólgunni. Það er orðalag, sem engan þarf að undra á, þó að það efnahagslíf sé kallað helsjúkt, sem er þjáð af mjög alvarlegri verðbólgu. Það hygg ég, að engan þurfi að undra, hvorki hér né annars staðar, um það eru allir sammála, að þar sem alvarleg verðbólga ríkir, er mjög alvarlegur sjúkdómur á ferðinni. Það er auðvitað þetta, sem átt er við. Það gat ekki farið fram hjá hinum erlendu sérfræðingum, eins og það fer ekki fram hjá neinum, sem þetta mál kynnir sér, að helzta vandamál okkar undanfarið hefur verið hin mikla verðbólga, sem þessi ríkisstj. í náinni samvinnu við stéttasamtökin hefur að markmiði að vinna bug á.

Um álit hagfræðinganna er það að öðru leyti að segja — eða þeirra verkefni, réttara sagt af því að einhver ræðumanna kom inn á það, að það var að sjálfsögðu að fá álit þeirra á því, í hverju okkar höfuðefnahagsmálavandi væri fólginn, hverjar væru að þeirra áliti meginorsakir þeirra vandkvæða, sem við væri að etja, og hvaða ráð kæmu þar helzt til greina. — Þessu var öllu mjög skýrt og skilmerkilega svarað.

Hitt er misskilningur, sem kom fram hjá einhverjum ræðumanna áðan, og það var raunar aðalástæða þess, að ég segi þessi orð til að láta því ekki vera ómótmælt, að þeir hafi gert einhverjar ákveðnar tillögur um það, til hvaða ráðstafana skyldi grípa. Þær till. voru ekki í áliti sérfræðinganna. (Gripið fram í: Það sagði forsrh.) Hann hefur aldrei sagt það. (Gripið fram í.) Úrræði er bæði eintöluorð og fleirtöluorð. Þeir bentu auðvitað á þau úrræði, sem til greina koma, og ef hv. stjórnarandstæðingar eru svona langt leiddir, þá vorkenni ég þeim enn þá meir en ég gerði áðan. Það er auðvitað fullkomið samræmi í þessu. Ég sagði, að þeirra verkefni, — ég skal segja það aftur, gangi þeim svona illa að skilja það, verkefni sérfræðinganna var að segja sína skoðun á því, í hverju höfuðvandi okkar í efnahagsmálunum væri fólginn, hver væri að þeirra áliti höfuðorsök þess vanda, sem við væri að etja, og hvaða úrræði það væru, sem til greina kæmu til úrlausnar á málunum, en þau eru að sjálfsögðu mörg. Nú hygg ég, að hv. 9. landsk. þm. þyki nóg um, — ég vil segja kjánaskap flokksbræðra sinna í þessum málum, þegar þeir koma upp um það, að þeir hafi engan skilning á því, að hlutverk hagfræðinga í þessu sambandi sé auðvitað ekki að búa til eina allsherjar forskrift að því, hvað gera eigi undir hverjum kringumstæðum, heldur að benda á öll þau úrræði, sem til greina geta komið við lausn þess vanda, sem við er að etja. Það gerðu þessir menn, alveg eins og hv. 9. landsk. þm. gerði nákvæmlega það sama fyrir rúmlega ári og alveg eins og við tveir höfum oftar en einu sinni tekið að okkur nákvæmlega hliðstætt verkefni, að benda á fleiri en eitt úrræði til lausnar þess vanda, sem við er að etja hverju sinni. Þetta verkefni var hinum erlendu mönnum fengið, og það leystu þeir ágætlega af hendi. En það er misskilningur, að í álitsgerð þeirra sé að finna nokkra eina lausn á þeim vanda, sem við er að etja, því að hún er sannarlega ekki til.