06.03.1957
Sameinað þing: 44. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í D-deild Alþingistíðinda. (2876)

120. mál, álitsgerðir um efnahagsmál

Ólafur Thors:

Herra forseti. Mig langar að vekja athygli að gefnu tilefni á því, að hæstv. ráðherrar munu hafa talað lengur um þetta mál heldur en stjórnarandstaðan. En ég veit, að það kemur ekki þingsköpum við, því að ráðherrar geta talað eins og þeir vilja, en úr því að verið er að finna að því, að við verjum tíma þingsins til lítils, eins og hæstv. menntmrh. gerði, er rétt, að menn átti sig á þessu.

Ég skal svo aðeins láta í ljós vonbrigði mín yfir því, að í raun og veru hefur engu fengizt svarað, sem hér hefur verið um spurt, þótt að öðru leyti hafi margt gagnlegt komið í ljós.

Hæstv. ráðh. hengdi sig nú síðast í það, að hinn mikli sigur núverandi stjórnar lægi í því, að þeir hefðu borið gæfu til að gera ráðstafanir um síðustu áramót, sem leiddu til blessunar og hefðu sameinað þjóðina. Rökin, sem hann færði, voru aðallega þau, að þá hefði allt verið gert í samráði við verkalýðinn. Ég játa það. að enn þá hefur ekki verið lagt neitt bann við, að menn geti farið á hestbak, ef menn eiga hross, og gangandi menn hafa ekki verið stöðvaðir. Í loftinu var hins vegar eitthvað erfitt að komast leiðar sinnar um tíma, bara af vinnufriði! Það er svo sem ekki vandi heldur í bili að fá sig fluttan með farkostinum! Það er líka vinnufriðurinn, svo að eitthvað hefur sannarlega unnizt á! Og hafi hæstv. ráðh. brotið sína samvizku og sína sannfæringu, þá hefur hann þó þessa huggun, hann fékk vinnufriðinn! En við hefðum gjarnan viljað sjá rætast hans óskir og okkar í þeim efnum, en ekki fá bara í því sem öðru gullin loforð, sem svo reynast hjóm, þegar á hólminn kemur, verkföll á verkföll ofan í stað vinnufriðar.

Við höfum hér orðið þess varir, að ráðherrarnir annaðhvort hafa misst hæfnina til að skilja það, sem um er spurt, eða viljann til þess að gefa þær skýringar, sem þeir þó ráða yfir. Ég vil ekki óska þeim, að þeir missi málið, en ég vildi óska, að þeir misstu þá löngunina til að vera að tala, úr því að þeir hafa ekki annað erindi hér heldur en að blekkja.