15.05.1957
Sameinað þing: 57. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í D-deild Alþingistíðinda. (2879)

166. mál, sérleyfi til fólksflutninga með bifreiðum

Fyrirspyrjandi (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja tvær fsp. á þskj. 494. Ég vil í fáum orðum gera grein fyrir, hvers vegna fsp. eru fram bornar.

Árið 1950 fékk Brandur Stefánsson í Vík aðalsérleyfið á leiðinni Reykjavík—Vík—Kirkjubæjarklaustur. Stóð þannig í tvö ár, 1950 og 1951, að Brandur Stefánsson var eini sérleyfishafinn á þessari leið. En brátt kom að því, að Kaupfélag Skaftfellinga sótti fast á að fá leyfi fyrir hálfkassa á þessari leið, og eitt árið a.m.k. setti það hálfkassa inn á leiðina án leyfis.

Svo var það snemma á árinu 1952, að bæði verzlunarfélögin í Vík, Kaupfélag Skaftfellinga og Verzlunarfélag Vestur-Skaftfellinga, fengu leyfi fyrir sínum hálfkassanum hvort, sex farþega bifreið með vörupalli.

Þetta stóð þó ekki lengi, því að brátt sótti í sama farið, að Kaupfélag Skaftfellinga sótti fast á að fá aukið leyfi.

Þá skeður það, að í júlí 1952 komu til Víkur þrír menn frá skipulagsnefnd ásamt skrifstofustjóra nefndarinnar til þess að ræða þetta mál við aðalsérleyfishafa. Niðurstaða þeirra viðræðna varð sú, að bæði verzlunarfélögin á staðnum fengu aukin sín leyfi, þannig að þau fengu hvort um sig leyfi fyrir 12 farþega bifreið með vörupalli yfir sumarmánuðina, frá 20. júlí til 20. sept. ár hvert.

Með þessu var sérleyfi aðalsérleyfishafa raunverulega rýrt svo mjög, að honum var gert ókleift að reka sérleyfið. En þegar þessi skipan var gerð, ræddi framkvæmdastjóri Verzlunarfélags Vestur-Skaftfellinga það við nefndarmenn skipulagsnefndar, sem voru þarna á staðnum, hvort nefndin hefði nokkuð við það að athuga, að aðalsérleyfishafi annaðist sérleyfisferðir félagsins um óákveðinn tíma.

Nefndarmenn höfðu síður en svo neitt við það að athuga.

Þannig stóð þetta fram á s.l. vetur, en þá varð sú breyting, að aðalsérleyfishafi, Brandur Stefánsson, sagði sérleyfinu lausu, og hann selur Kaupfélagi Skaftfellinga sérleyfisbifreiðar sínar.

Þegar svo úthluta skyldi sérleyfum á s.l. vetri, sótti Kaupfélag Skaftfellinga um aðalsérleyfið á þessari leið og fékk það. Var ekkert við það að athuga.

Verzlunarfélag Vestur-Skaftfellinga sótti einnig um að fá að halda sínu sérleyfi. Skipulagsnefnd mælti einróma með því, að þetta leyfi yrði veitt. En þegar kom til kasta ráðh., synjaði hann.

Verzlunarfélag Vestur-Skaftfellinga taldi, að hér hlyti að vera um misskilning að ræða. Það endurnýjaði því umsókn sína, og til vara sótti félagið um undanþágu, en í lögunum um skipulag á fólksflutningum með bifreiðum segir í 1. gr., að ráðh. geti undanþegið sérleyfisskyldu á vissum leiðum vörubifreiðar, er flytja að staðaldri framleiðsluvörur bænda, en rúma auk þess allt að 8 farþegum, enda fullnægi þær að öðru leyti settum reglum fyrir fólksflutninga. Og enn fór það svo, að skipulagsnefnd mælti einróma með því, að Verzlunarfélaginu yrði veitt umbeðið leyfi. En þegar kom til kasta hæstv. ráðh„ synjar hann.

Þetta er tilefni þess, að ég flyt þessar fsp. Ég æski skýringar hæstv. ráðh. á þessu. Ég æski einnig að fá að vita, hvort þeir eru fleiri en Verzlunarfélag Vestur-Skaftfellinga, sem hafa verið beittir sams konar rangindum, og ef svo er, hverjir það eru.