15.05.1957
Sameinað þing: 57. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í D-deild Alþingistíðinda. (2883)

166. mál, sérleyfi til fólksflutninga með bifreiðum

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. sagði, að Verzlunarfélag Skaftfellinga hefði engan rétt átt, vegna þess að það hafi verið búið að afsala sér sérleyfinu til Brands Stefánssonar. Ráðherra veit, að þetta er ekki rétt. Verzlunarfélag Vestur-Skaftfellinga samdi við Brand Stefánsson til bráðabirgða um að rækja þessar ferðir, og þetta var gert með samþykki sérleyfisnefndar. Það var þess vegna ekki um neitt afsal að ræða, enda velt hæstv. ráðh. það, að Verzlunarfélagið greiddi gjöld til sérleyfisnefndarinnar og það var skráð í leiðabókinni ásamt aðalsérleyfishafa. Verzlunarfélagið gerði samning við Brand Stefánsson, en hefur ekki gert samning við Kaupfélag Vestur-Skaftfellinga. Málsvörn hæstv. ráðh. í þessu máli er mjög aum. Hann hefur engin rök fram að bera önnur en þessi, sem ég áðan var að lýsa og eru algerlega röng. Það er þess vegna rétt, sem hv. þm. V-Sk. sagði hér áðan, að hæstv. ráðh. hefur misnotað sitt vald til þess að ná sér niðri á pólitískum andstæðingum. (Gripið fram í.) Félagið er ekki pólitískur andstæðingur, ekki þeir, sem eru í félaginu, en hv. þm. V-Sk. og framkvæmdastjóri Verzlunarfélags Skaftfellinga eru áreiðanlega pólitískir andstæðingar hæstv. ráðh., og ég hygg, að hann hafi ætlað að ná til þeirra með þessu. En hann nær til fleiri, vegna þess að það eru hagsmunir félagsmanna Verzlunarfélags Skaftfellinga, sem krefjast þess, að þessi bíll sé í förum, sem sérleyfið hljóðar á. Það er alkunnugt, að það var náin samvinna á milli Verzlunarfélagsins og Brands Stefánssonar, að Brandur Stefánsson flutti oft og tíðum vörur fyrir Verzlunarfélag Skaftfellinga, þegar lítið var að flytja af fólki. Það getur verið, að Kaupfélag Vestur-Skaftfellinga bjóðist til þess að annast vöruflutninga fyrir Verzlunarfélagið, en mér er ekki kunnugt um, að slíkir samningar hafi átt sér stað þar á milli, og ekki heldur kunnugt um, að það standi til.

Hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að Verzlunarfélagið hafi engan bíl haft til þessara flutninga. Hvers vegna ekki? Það sá ekki ástæðu til að láta byggja yfir bíl, á meðan það hafði enn falið öðrum að annast fólksflutninginn. Eftir að breytingin varð og það sjálft ætlar að annast þessar ferðir, sem það á rétt til að fá, hefur það látið byggja yfir bíl og hefur nú ráð á 12 sæta bíl ásamt vörupalli, eins og ætlazt er til að það fái að láta á þessa leið.

Hæstv. ráðh. hefur misnotað sitt vald á pólitískan hátt, og mér er spurn, eða hver þarf að spyrja að því, hvað hæstv. ráðh. hefði gert, ef hér hefði átt hlut að máli kaupfélag innan SÍS? Hvað hefði hæstv. ráðh. þá gert? Það er svo, að það eru flest samvinnufélögin, sem hafa einhver sérleyfi, og það er ekki eingöngu vegna þess, að það sé fjárhagslegur hagnaður af því að annast þessi leyfi. Það eru þægindi fyrir fólkið, sem í félögunum er. Það eru þægindi fyrir það að geta ferðazt með þessum bílum, að geta fengið böggla og vörur með þessum bílum, sem ganga ekki aðeins á milli Reykjavíkur og félaganna, heldur einnig út um sveitir. Og það er rétt, sem hv. þm. V-Sk. sagði hér áðan, að Skaftfellingar hafa ekki óskað eftir því, að Verzlunarfélagið væri þannig sett hjá. Hæstv. ráðh. mun hljóta fyrirlitningu Skaftfellinga fyrir þetta framferði sitt, og það eru margir, sem eru að bollaleggja það og reyna að gera sér grein fyrir því, hverjum öðrum en Eysteini Jónssyni, hæstv. fjmrh., hefði verið trúandi til að gera þetta. Þegar ég lít hér yfir þennan hv. sal á þá menn, sem hér eru inni, þá kem ég ekki auga á neinn, sem ég fyrir fram tryði til slíkrar smámunasemi og slíkrar pólitískrar misnotkunar og hafði raunar ekki, áður en þetta gerðist, trúað hæstv. fjmrh. heldur. En hann hefur nú sýnt það í verki, að honum er trúandi til að gera ýmislegt það, sem aðrir mundu ekki fást til þess að gera, ef hann heldur, að það geti orðið sínum flokki til framdráttar eða sínum stuðningsmönnum á einhvern hátt. En hér reiknar hæstv. ráðh. dæmið skakkt. Þetta mál mun verða hans flokki og honum sjálfum ekki til framdráttar, heldur til skammar.