15.05.1957
Sameinað þing: 57. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í D-deild Alþingistíðinda. (2885)

166. mál, sérleyfi til fólksflutninga með bifreiðum

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Þessum mönnum dettur vitanlega pólitík ekki í hug, segir hæstv. ráðh., og það er sjálfsagt ekki af pólitískum ástæðum, sem þír eru að tala hér um hag Verzlunarfélags Skaftfellinga. Það sýnir nú, hvað hæstv. ráðh. á erfitt með að verja sitt mál, þegar hann gerir ekki greinarmun á því, hvað hann hefur gert, að hann hefur misnotað sitt vald og níðzt á öðrum aðila, en við erum að fordæma gerðir ráðh. Það getur vel verið, að hæstv. ráðh. finnist eðlilegt, að enginn komi auga á þetta og hann eigi alveg að vera „stikkfrír“ í þessu efni. En hæstv. ráðh. verður að gera sér það að góðu, að þegar hann með þessu eindæma ofstæki á hendur þessa aðila næstum því brýtur lög, þá verður komið auga á það og það verða fleiri en ég og hv. þm. V-Sk., sem tala um þetta. Hæstv. ráðh. kemst ekki hjá því. Og eins og ég sagði áðan, þá mun hann hafa skömm af þessu og hans flokkur gjalda þess.

Ég get nú þakkað hæstv. ráðh. fyrir ráðleggingarnar um að hafa mig hægan, því að ég hafi nóg með mig. En það er hans mat, og ég verð að biðja hæstv. ráðh, afsökunar á því, þótt ég leiti ekki ráða hjá honum, hvenær ég á að hafa mig í frammi og hvenær ég á að sitja í mínu sæti. Við skulum láta það alveg vera. En hæstv. ráðh. talaði um það, hvers vegna Verzlunarfélagið hafi ekki rækt sérleyfið, úr því að það eru hagsmunir fyrir fólkið, að það sé gert. Verzlunarfélagið rækti sérleyfið með því að fela Brandi Stefánssyni að annast þetta fyrir sína hönd, ekki aðeins flutninga hér á milli Reykjavíkur og Víkur og Kirkjubæjarklausturs, heldur einnig út um sveitir, þar sem þessi bíll fór. Og hvers vegna var fækkað ferðum? Hvers vegna féllst sérleyfisnefnd á það að fækka ferðum? Það var vegna þess, eins og hæstv. ráðh. sagði, að flutningamagnið var ekki nógu mikið, eftir að Kaupfélag Vestur-Skaftfellinga hafði fengið leyfi fyrir tveimur bílum. Og hvers vegna var erfitt hjá Brandi Stefánssyni að halda uppi áætluninni? Það var vegna þess, að Kaupfélag Vestur-Skaftfellinga með stuðningi framsóknarmanna var að bola aðalsérleyfishafanum út, og þegar Verzlunarfélagið fékk sitt sérleyfi, þá voru þrír sérleyfishafar í Vík, og það var erfitt að skipta því þannig á milli þessara þriggja aðila, að allir hefðu sæmilegt og að það gæti borið sig fyrir þá alla. Það er þess vegna, sem Verzlunarfélagið samdi við aðra sérleyfishafa, og það var þess vegna, sem sérleyfisnefndin féllst á það, að þetta væri skynsamleg ráðstöfun. En þegar sérleyfishöfunum er fækkað úr þremur niður í tvo, þá kemur allt annað til athugunar. Þá eru það aðeins verzlunarfélögin í Vík, sem um er að ræða, og þá vildi Verzlunarfélagið reka sinn eigin bíl, sem það nú hefur á prjónunum, en ekki að aðeins einn aðili annaðist þetta, eins og hæstv. ráðh. hefur nú gert ráðstafanir til að verði um sinn.

Ég skal ekki orðlengja meira um þetta, enda er minn tími búinn og þess gerist ekki þörf. Það þarf ekki að segja meira um þetta mál. Það liggur skýrt fyrir. Það efast enginn um það í þessum hv. deildarsal, það efast enginn Skaftfellingur um það, að hæstv. ráðh. hefur misnotað sitt vald, að hann hefur enn á ný kynnt sig að því að hafa ekki drepið af sér ýmislegt af því versta, sem í fari hans var á stjórnarárunum 1934–39, að enn þá er gamli framsóknarhugsunarhátturinn til í hans huga.