15.05.1957
Sameinað þing: 57. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í D-deild Alþingistíðinda. (2888)

166. mál, sérleyfi til fólksflutninga með bifreiðum

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég hef nú lengi verið á þingi og í öðru samstarfi við hæstv. fjmrh. Ég hef aldrei heyrt til hans annað eins orðbragð eða slíkan rökstuðning og hann hefur viðhaft hér í dag, og virði ég það honum raunar til vorkunnar og að sumu leyti til lofs, vegna þess að það sýnir, að hann er miður sín og veit undir niðri, að hann hefur gert rangt. Og það, að ráðh. skuli leyfa sér að ávita þm. eins og 1. þm. Rang. fyrir, að hann noti þingmannsrétt sinn til þess að tala um alþjóðlegt málefni, er alveg fáheyrt, og það sýnir, hversu þessum hæstv. ráðh. er brugðið, auk þess sem orðaval hans að öðru leyti var honum með öllu ósæmandi.

Hann byggir sína málsvörn á því, að hinn fyrri sérleyfishafi hafi svikið sína skyldu. Nú er það sannað og ómótmælt af hæstv. ráðh., að þessi sérleyfishafi hafði samráð við sinn eftirlitsmann og yfirmann í þessu efni, þá nefnd, sem um þetta fjallar, og sá aðili hafði beinlínis veitt samþykki sitt til þeirrar aðferðar í málinu, sem við var höfð, og það er auðvitað alveg fráleitt að ætla að leggja honum það til lasts, að hann skuli viðhafa aðferðina, úr því að hann er ekki aðvaraður um, að rangt sé farið að, heldur þvert á móti fær samþykki til þeirrar aðferðar, sem viðhöfð er. Til viðbótar kemur svo það, að yfir þessari nefnd var áður eins og nú ráðh., sem ber ábyrgð á meðferð málsins, þangað til þessi hæstv. ráðh. tók við, og sá ráðh. var flokksbróðir þessa hæstv. ráðh. Og ef einhver hefur svikizt um eitthvað í þessu efni, þá verður fyrst og fremst að beina ásökuninni að þeim hæstv. ráðh. fyrir að fylgjast ekki með því, ef þarna hefur verið um vanrækslu að ræða, og aðvara aðila um, að öðruvísi skyldi að farið. Fram hjá þessum staðreyndum kemst hæstv. ráðh. alls ekki, vegna þess að væntanlega ætlar hann ekki að halda því fram, að flokksbróðir hans hafi verið að leiða sérleyfishafann í gildru til þess síðar að geta níðzt á honum. Slíkt hátterni væri með öllu ósæmilegt.

Hvernig sem á þetta mál er litið, er því alveg augljóst, að sú afsökun, sem hæstv. ráðh. hér færir fram, er ekki frambærileg. Ég efast ekki um, að ráðh. hafi haft heimild að l. til þess að gera það, sem hann gerði, en þau rök, sem hann færir fyrir máli sínu, eru óframbærileg, og framkoma ráðh. hér í ræðustólnum áðan sýnir, að ráðh. finnur þetta inn á sér.