01.02.1957
Efri deild: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í C-deild Alþingistíðinda. (2894)

103. mál, menntun kennara

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er mjög miður farið, að Húsmæðrakennaraskóli Íslands skuli ekki hafa getað starfað á þessum vetri sökum húsnæðisskorts. Ég er alveg sammála hv. 1. þm. N-M., að það væri óafsakanlegt, ef skólanum hefði verið sagt upp því húsnæði, sem hann hefur haft undanfarin ár, og hann látinn vera húsnæðislaus, en húsnæðið síðan látið algerlega ónotað. Þessu er ekki þann veg farið, og vildi ég þegar við þessa 1. umr. að gefnu þessu tilefni upplýsa atriði, sem ég vona að hv. þm. taki til greina, þannig að þessi misskilningur verði ekki langlífur.

Samningar háskólans við húsmæðrakennaraskólann voru í upphafi tímabundnir. Sá tími, sem háskólinn hafði lofað að skjóta skjólshúsi yfir Húsmæðrakennaraskóla Íslands, er löngu liðinn. Síðan var leyfi til húsmæðrakennaraskólans framlengt, og það er þegar orðið alllangt síðan húsmæðrakennaraskólinn var samningslega skuldbundinn til þess að rýma húsnæði, sem hann hefur undanfarin ár haft. Á s.l. vetri varð það að algeru samkomulagi milli stjórnar háskólans og stjórnar húsmæðrakennaraskólans, að húsnæðið skyldi rýmt á s.l. hausti, en báðum aðilum var ljóst, að það hlyti að taka alllangan tíma fyrir húsmæðrakennaraskólann að rýma húsnæðið, það væri margra mánaða verk. Ég hygg, að það verk hafi byrjað í sumar, og því er annaðhvort ekki alveg lokið enn þá eða er að ljúka einmitt þessa dagana. En það er mér kunnugt um, að allt fram að áramótum var að því unnið af starfsmönnum húsmæðrakennaraskólans að rýma húsnæðið. Mér er nær að halda, að verkinu sé ekki fulllokið enn, þannig að störfum húsmæðrakennaraskólans í þessu húsnæði sé enn alls ekki fullkomlega lokið. Það er mikið verk að taka upp öll tæki húsmæðrakennaraskólans, sem þarna hafa verið, og koma þeim fyrir annars staðar. Tíminn hefur verið til þess notaður, og ég hygg ekki, að gengið hafi verið að því með neinum slóðaskap. Það væri mjög ólíkt skólastjóra húsmæðrakennaraskólans að ganga að því verki af slóðaskap fremur en öðrum. Hún er mikil dugnaðarkona, og ég efast ekki um, að hún hafi haft þann hraða á rýmingarframkvæmdum, sem unnt var að hafa, en þeim er annaðhvort ekki fulllokið eða alveg um það bil að ljúka núna. Það er því misskilningur, að húsnæðið hafi verið látið ónotað af háskólans hálfu. Einnig var vitað, að það hlyti að taka nokkurn tíma að gera þær breytingar á innanhússkipan, sem leiðir af fyrirhuguðum notum háskólans á þessu húsnæði fyrir rannsóknarstarfsemi í læknadeildinni. Eftir því sem mér hefur skilizt, mun þó von til þess, að takist að koma húsnæðinu í það horf, sem það þarf að hafa, setja upp nauðsynleg rannsóknartæki og breyta innréttingu, fyrir næsta haust. Það er bráðnauðsynlegt fyrir starfsemi læknadeildarinnar, að húsnæðið verði komið í nauðsynlegt horf fyrir næsta haust. Ef aftur á móti leyfið hefði verið framlengt fyrir húsmæðrakennaraskólann þennan vetur, hefði það þýtt, að ekki hefði verið hægt að taka húsnæðið undir rannsóknarstofur fyrr en einu ári seinna. Sá nýi læknaprófessor, sem á að fá húsnæðið, hefði þá verið algerlega húsnæðislaus á fyrsta starfsvetri sínum, og það hefði ekki verið heppileg skipan á málunum.

Þetta vildi ég aðeins upplýsa á þessu stigi málsins, til þess að menn stæðu ekki í þeirri trú, að háskólinn hefði sýnt húsmæðrakennaraskólanum ósanngirni í viðskiptum. Það er þvert á móti. Milli stofnananna hefur verið mjög góð samvinna, engir árekstrar, meðan á sambýlinu stóð, og háskólinn sýnt ríkisvaldinu og húsmæðrakennaraskólanum þá velvild að hafa stofnunina í sínum húsum miklu lengur en upphaflega var lofað og upphaflega var um samið. — Að öðru leyti mun ég ekki ræða málið við þessa umræðu.