11.03.1957
Efri deild: 67. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í C-deild Alþingistíðinda. (2902)

103. mál, menntun kennara

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það, sem ég kem til með að segja, er að miklu leyti endurtekningar á því, sem ég hef sagt áður á þingi viðvíkjandi þessu máli. Það er mín bjargföst skoðun, að það eigi að líta á hvert mál sem mál framtíðarinnar, en ekki sem mál líðandi stundar. Og þegar ég lít á þetta skólamál þannig, þá er ég ekki í neinum minnsta vafa um það, að hér í Reykjavík verða alltaf til betri kennslukraftar til að kenna við skólann heldur en ef hann er einhvers staðar annars staðar og eins þótt á Akureyri sé. Það er þetta, sem er þungamiðja málsins hjá mér og gerir það að verkum, að ég vil miklu heldur, að það sé beðið eitt ár eða tvö eftír því, að upp komi skóli, sem sé þar, sem bezt er að hafa hann, þar sem beztir kennslukraftar verða alltaf til staðar og þar sem hann getur útskrifað frá sér bezt færar stúlkur í sínu starfi, og það er hér í Reykjavík.

Annars á ég bágt með að skilja það, hvers vegna flm., sem báðir eru Akureyringar, vilja breyta lögunum og láta ráðh. fá þessa heimild, í trausti þess, að skólinn flytjist til Akureyrar.

Frsm. mínni hl., sem var að tala hér áðan, þm. Ak., hélt því fram, að aðsókn að Akureyrarskólanum væri hætt eingöngu af því, að það væru of margir kvennaskólar, — ég kalla þá kvennaskóla einu nafni báða saman, hvort sem þeir bara eru með verklegt nám eða hvort tveggja eða í hvaða sniði sem þeir eru. Þetta fæ ég ekki skilið. Það munu búa á Akureyri í kringum 7500 manns, og ættu þess vegna að vera alls stúlkur á sama árinu á skólaaldri eitthvað á milli 50 og 60. Í Þingeyjarsýslu búa ekki nema 2700 manns. Þingeyingar hafa skóla sams konar og þennan kvennaskóla á Akureyri, nema þeir hafa heimavíst, hann er alltaf fullur, og nemendurnir eru úr Þingeyjarsýslu að þremur fjórðu, sem þar hafa stundað nám undanfarandi ár. Það liggur því alveg opið fyrir, að Akureyrarstúlkurnar hafa ekki áhuga á að fara í þennan skóla, samanborið við þær þingeysku. Í Skagafirði er svipað af fólki og í Þingeyjarsýslunni. Þar er líka kvennaskóli að Löngumýri, hann er líka alltaf fullur, og það er í honum dálitið meira en 1/4 eða jafnvel 1/3 annars staðar að en úr Skagafirði, hitt er allt Skagfirðingar. Þetta bendir ekki á neitt annað en það, að stúlkurnar á Akureyri, sem eru af þeim árgangi eða þeim árgöngum, sem sækja venjulega kvennaskóla, hafa ekki áhuga fyrir að sækja kvennaskóla í sínu heimahéraði. Og ef flm. hefðu aðgætt þessa hlið málsins, þá held ég bara, að þeir hefðu ekki viljað Akureyri svo slæmt að láta alla Akureyringa þurfa að fara á annarra skóla, af því að þeir gætu ekki stundað skólavist heima hjá sér. Ég býst við, að þeir hefðu þá heldur lagt til að reyna að koma skólanum þar í það horf, að hann fengi aðsókn og að stúlkurnar, sem eru á Akureyri og geta notað skólann, þó að það sé ekki í honum heimavíst, notuðu hann. Ég held, að þeir hafi ekki hugsað þetta mál frá þessari hlið. Og ég held, að þeir ættu nú að snúa geiri sínum að því að veita Akureyrarstúlkunum möguleika til þess að fara í skóla í sínum eigin bæ.

Við getum náttúrlega farið út í fleira en þetta með þessa skóla. Ég hef nú nefnt þá, sem liggja beggja vegna við hann, Þingeyjarsýsluskólann að Laugum og skólann í Varmahlið, og það sýnir sig þar, að stúlkur úr héraðinu sækja þá skóla það mikið, að ef Akureyrarstúlkurnar hefðu sams konar löngun til að fara í skóla, þá væri Akureyrarskólinn alltaf fullur og kæmust ekki aðrar að. Þess vegna held ég, að þeir eigi að leggja höfuðið í bleyti um að finna leiðir til þess að endurreisa þennan skóla sinn á Akureyri og skapa þar með Akureyrarmeyjunum möguleika til þess að sækja skóla heima hjá sér og sem beztan skóla heima hjá sér.

Mér þykir fyrir því, að menntmrh. er hér ekki viðstaddur til að svara fsp., sem ég beindi að honum við 1. umr. þessa máls, þegar ég harmaði það, að skólanum hefði verið byggt út úr kjallara háskólans nú. Hann taldi, að það hefði verið nauðsynlegt að gera það til að geta farið að undirbúa húsnæðið fyrir þá vinnu, sem þar á að vera í framtíðinni, sem stendur í sambandi við prófessor Jón Steffensen. Nú er komið fram í marzmánuð, og það er ekki enn þá byrjað á þeirri lagfæringu að neinu leyti, og mér sýnist allt benda til þess, að á henni verði ekki byrjað fyrr en einhvern tíma í sumar. Og ef það reynist rétt, þá harma ég enn meir, að þau mistök skuli hafa átt sér stað, að skólinn hafi ekki fengið að starfa þar í vetur. Mér sýnist allt benda á það, að það hefði verið alveg öllum að meinalausu, þó að hann hefði fengið að starfa þar í vetur.

En svo ætlaði ég líka að fá upplýsingar um annað, en það þýðir nú líklega ekki að spyrja um það, fyrst ráðherrann er ekki við. Það er um það, að nú er mér tjáð og það af mönnum úr læknadeild háskólans, að þeir telji þetta húsnæði í kjallaranum gersamlega óviðunandi og séu farnir að fara fram á það að fá byggt sérstakt hús fyrir þessa starfsemi, sem einu sinni var fyrirhuguð þarna í kjallaranum. Ég hefði gjarnan viljað fá um þetta meiri upplýsingar en ég hef. Ráðh., sem er prófessor við

háskólann, hefði kannske getað svarað fsp. nánara. Það hefur nú víst ekki verið hlustað á þessar kröfur þeirra um byggingu á nýju húsnæði fyrir þá starfsemi, sem var fyrirhuguð þarna í kjallaranum. En mér skilst nú á þeim, sem þar standa nálægt, að þeir haldi henni nokkuð fast fram og telji ekki mögulegt að vera í kjallaranum með þá starfsemi, sem þarna var ætlað að framkvæma.

Í öðru lagi hef ég líka heyrt, og það vildi ég gjarnan fá upplýst frá þm. Ak., að sjúkrahúsið í Akureyrarbæ vantaði tilfinnanlega húsnæði fyrir starfsfólk sitt og væri að tala um að fá opinberan styrk til að byggja það húsnæði. Ef bærinn á þetta húsnæði ónotað, þá langar mig til að spyrja: Er þá ekki hægt að breyta því og komast hjá því að byggja nýtt hús fyrir starfsfólk við spítalann, sem ég heyri sagt að standi alveg fyrir dyrum og væri kannske byrjað á, ef fé hefði verið fyrir hendi ?

En aðalatriðið fyrir mér og það, sem gerir að verkum, að ég er á móti þessu frv., er það, að ég vil hafa skólann áfram í Reykjavík, en hvorki á Akureyri né í neinu öðru húsnæði, sem fáanlegt er víðs vegar um landið. Það standa auð þrjú ágætlega góð, stór íbúðarhús vestur í Sléttuhreppi, og víða annars staðar á landinu er til autt húsnæði, sem hægt er að fá. Ég vil ekki flytja hann í neitt af þeim og ekki leggja á hendur ráðherrans að þurfa að ákveða, í hvert þeirra hann sé fluttur. Ég vil hafa hann hér áfram, af því að hér verða alltaf möguleikar til þess að hafa kennslukraftana bezta. Og það er mergurinn málsins og á að ráða úrslitum um atkvæðagreiðslu um frumvarpið.