11.03.1957
Efri deild: 67. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (2906)

103. mál, menntun kennara

Frsm. meiri hl. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Ég skal ekki fara út í mörg af þeim atriðum, sem komið hafa fram hjá þeim, er að minnihlutaálitinu standa og flutningi þessa frv., sé reyndar ekki ástæðu til þess.

Hv. þm. Ak. drap hér á nokkur atriði úr umsögnum þeim, sem fylgja með frv., umsögnum skólanefndar, skólastjóra og nemendasambands. Ég sé mér ekki fært að fara út í neinar kappræður út af því. Honum þykir þær segja heldur mikið þar og ekki geta rökstutt það. Ég gat þess í minni ræðu áðan, að ég teldi mig ekki þann sérfræðing í kvenlegum menntum, að ég vildi ekki taka tillit til þess, sem þessar konur hafa sagt um þessi efni, sem ég veit að þær eru fróðari mér í, og vil ég aðeins drepa á eitt atriði í þessu.

Mér skildist á hv. þm. Ak., að hann bæri þeim það á brýn, — ég vona, að hann leiðrétti mig, ef ég fer með eitthvað rangt, — að þær teldu ekki hægt að reka skólann á Akureyri, vegna þess að þar fengjust ekki viðunandi kennarar. Ég man ekki orðalagið á þessu hjá hv. þm., en mér heyrðist þetta vera eitt af þeim atriðum, er hann taldi ofmælt. Ég man ekki eftir því, að í þessum umsögnum segi þær þetta, eða að þær segi neitt um það, að ekki sé hægt að fá viðunandi kennara á Akureyri. Þær undirstrika eitt, að hér í Rvík sé völ á beztu kennurum í þeim efnum, en ég man ekki eftir, að þær segi hitt, og það er sitt hvað. Þótt þær lofi einn, þá þurfa þær ekki að lasta neinn annan.

Ég hef sagt mína skoðun á því máli, að ég er ekki í neinum vafa um, að það muni vera hægt að fá mjög hæfa kennara á Akureyri úr svo fjölmennum hóp kennara, sem þar er, en ég hef ekki breytt um skoðun á hinu, að aðstaðan til æfingakennslunnar hljóti að verða nokkru erfiðari þar.

Hv. þm. Ak. talaði um, að til væru skólaeldhús á Akureyri, tvö eða þrjú. Ég er ekkert að efast um, að hann segi þetta rétt. En eru þau öll tiltæk á hvaða tíma sem er og skólanum hentug, til þess að hægt sé að nota þau fyrir kennslu í húsmæðrakennaraskólanum? Það er ekki nóg, að þau séu þar til tvö eða þrjú. Þau verða að vera skólanum tiltæk, þegar hann þarf með. (Gripið fram í: Þau þurfa að vera í skólanum sjálfum.) Eru þau útbúin sem skólaeldhús núna? (Gripið fram í: Vitanlega.) Með öllum tækjum? (Gripið fram í: Já.) Nú, það getur vel verið, að svo sé, og það bætir mikið úr skák, að þau eru þar tvö. En hér í bænum eru vitanlega mjög mörg skólaeldhús til í ýmsum skólum, og þar fer kennslan fram. Út af áhöldum, sem skólinn þarf að eiga, gegnir náttúrlega öðru máli. Það er sparnaður, meðan skólinn er hér í Reykjavík, að húsmæðrakennaraskólinn þarf náttúrlega ekki að eiga sömu áhöld og aðrir skólar eiga til sinnar kennslu, ef kennslan fer þar fram. Það eru meðmæli með því að notfæra sér það, sem til er í öðrum skólum, í þessu skyni. Hitt mundi þess vegna vera enn dýrara, ef þyrfti að kaupa allt þetta handa svo fámennum skóla einum.

Ég vil ekki fara ýtarlega út í þá miklu gagnrýni, sem mér fannst koma fram hjá hv. þm. á einu og öðru í þessum umsögnum. Ég vil ekki segja, að hann hafi farið rangt með, en mig skortir þarna sérþekkingu að dæma um hvert einasta atriði i þessu efni. Hann drap á það, að hingað til hefði ekki verið samvinna með húsmæðrakennaraskólanum og Kennaraskóla Íslands, sem talað er um í þessum umsögnum, eða með öðrum skólum, eins og Handíðaskólanum o.s.frv. Það er sjálfsagt rétt, að það hefur ekki verið. En það er sannarlega full ástæða til þess, eins og ég benti á áðan, að taka ýtarlega til athugunar þessar ábendingar skólanefndar, skólastjóra og nemendasambands, hvort eigi ekki nú að koma á miklu nánara samstarfi og sameiningu í kennslu, ekki hjá tveimur skólum aðeins, heldur fjórum skólum, og gera það áður en farið er að byggja yfir þessar stofnanir, sem munu vera húsvilltar að verulegu leyti. Ég veit ekki betur en að kennaraskólinn sé í raun og veru húsnæðislaus, svo að segja. Þetta eldgamla hús er að verða ónýtt, enda ákveðið að byggja yfir hann. Húsmæðrakennaraskólinn er það, og ég hygg, að handíðakennaraskólinn sé það líka, eigi ekki sérstakt húsnæði. Hví ekki að athuga þetta betur, hvort ekki má sameina þarna hvort tveggja, kennslu og byggingar, og vinna mikið með því?

Ég get ekki séð, að það sé nokkurt stórmál, hvorki fyrir Akureyri né Reykjavík, hvort húsmæðrakennaraskólinn út af fyrir sig er fluttur eða ekki fluttur, bara ef starfsskilyrði skólans versna ekki við flutninginn. En það er það, sem ég óttast, að þau kynnu að versna í sumum efnum, sem ég hef drepið á.

Hv. þm. Ak. sagði, að þó að byggð yrði heimavist fyrir húsmæðrakennaraskólann, væri ekki hægt að berg það saman við hitt, að eiga að byggja heimavist fyrir húsmæðraskóla Akureyrar, sem starfaði á sínum tíma, af því að húsið var byggt fyrir 40 nemendur og þyrfti svo stóra heimavist, en húsmæðrakennaraskólinn mundi ekki hafa nema svona 12–15 nemendur. Já, þeir eru nú bara engir 40, þessir nemendur í húsmæðraskóla Akureyrar, það vantar nú eitthvað á það. Það gæti verið, að þeir yrðu nú ekki nema 15 eða 20 og þætti þó ráðlegt að starfrækja hann og væri sannarlega þess vert. En ef einhver verulegur hluti af nemendum húsmæðraskóla Akureyrar er af sjálfri Akureyri, þá þarf ekki heimavist fyrir þá nemendur, svo að ég get ekki betur séð en að það yrði eitthvað svipuð heimavistarstærð, sem gæti dugað í báðum þessum tilfellum. Mér finnst það vera að fara aftan að siðunum að byrja á því að flytja húsmæðrakennaraskólann í heimavist þess skóla, sem varð að hætta, af því að heimavistina skorti.

Þá sagði hv. þm. eða ég skildi hann svo, að það væri nú alls ekki vegna heimavistarinnar, sem húsmæðraskóli Akureyrar hefði verið lagður niður, heldur vegna hins, sem ég nefndi áðan, og það hef ég heyrt fólk tala um, það væru svo margir skólar þarna norðanlands, að þessi gæti ekki þrifizt líka. Þarna vikur hann frá staðhæfingu, sem felst í sjálfri grg. með frv., sem hann flytur, því að þar stendur þetta. Að vísu er sú grg. ekki frá honum, heldur er hún sú sama og var með frv., sem flutt var 1953. Í þeirri grg. er kennt um heimavistarskortinum. En mér skilst á hv. þm., að þessi skortur nemenda við húsmæðraskólann sé frekar fyrir hitt, að svo margir skólar séu orðnir þarna fyrir norðan, og það get ég mjög vel skilið. En um milljónasparnað af því að byggja ekki hér í Reykjavík, en breyta þó húsmæðraskólanum á Akureyri, efast ég um að geti orðið að ræða. Það getur orðið sparnaður, og ég held, að það hljóti nú að verða einhver sparnaður, en ekki ákaflega mikill.

Þá vil ég drepa á atriði, sem hv. 8. landsk. talaði um hér áðan. Hann fór nokkrum orðum um það, að nú væri talað um bæði að kaupa gamalt hús og byggja svo nýtt hús. Ég held, að þetta sé misskilningur hjá honum. Konurnar benda á þann möguleika að kaupa notað hús, — ég er ekki að segja gamalt, ég veit ekki, hvað það er gamalt, það getur vel verið, að það sé alveg nýtt. Þá hugsa þær sér ekki líka að byggja hús, eða ég skil það ekki svo. Þegar þær benda á þann möguleika að kaupa hús fyrir skólann, þá auðvitað meina þær, að þá þurfi ekki að byggja, enda veit ég ekki, til hvers ætti að kaupa húsið, ef líka ætti að byggja. Það getur verið, að þær hugsi sér svo að selja það skólahús. Þá kemur andvirði fyrir það, svo að það er út af fyrir sig ekki neinn fjáraustur. (Gripið fram í: Það verður nú ekki um þetta villzt hérna í grg.) Kannske ég hafi misskilið það. Ég hef skilið það þannig, að ef keypt yrði hús, þá yrði það annaðhvort til þess að vera í því til frambúðar eða meðan verið er að byggja varanlegt skólahús. Verður þá væntanlega hitt selt, þegar nýja skólahúsið er komið upp, en ekki sé því til að dreifa, að skólinn eigi að eiga bæði húsin í framtíðinni.

Þá gat hv. þm. Ak. þess, að í frv. væri ekki sagt, að skólinn skyldi fluttur til Akureyrar. Þetta er alveg rétt. Það er ekkert sagt um það, og mér finnst þetta vera galli á frv. Hví ekki að segja það hreinlega, að skólinn skuli fluttur, skuli starfa á Akureyri, eins og nú stendur í lögunum: „Skólinn skal starfa í Reykjavík“? Það fer ekkert á milli mála, að tilgangurinn með frv., ekki aðeins nú, heldur öll þau ár, sem þetta hefur verið flutt, er sá að flytja hann norður.

Ég kynni betur við, að það hefði staðið í sjálfu frv., hvar skólinn ætti að starfa, og ég sé ekki neinn kost við það að fá ráðh. í hendur þetta ákvörðunarvald frá því, sem er nú hvað þennan skóla snertir, að Alþingi hafi það. Að vísu er það svo um ýmsa skóla, að það er ekki tekið fram í l., hvar þeir skuli starfa.

Hv. 8. landsk. drap hér á ýmis skilyrði fyrir því, að skólar nytu sín, það væri að hafa góða kennara, gott húsnæði, góð skólaáhöld, gott umhverfi o.s.frv. Þetta er alveg rétt hjá honum. Það er þetta, og það er að vísu fleira.

Um góða kennara hef ég rætt og get endurtekið það, að ég vantreysti því ekki, að það verði góðir kennarar á Akureyri. En verða þeir betri? Það veit ég ekki. Ég held það séu ekki skilyrði til þess, að þeir verði betri en í Reykjavík, og þá eru þetta ekki orðin rök fyrir því, að skólinn verði fluttur, þó að kennarar geti orðið eins góðir.

Þá er það gott húsnæði. Það er eina ástæðan fyrir flutningi þessa frv. mér vitanlega, það er húsnæðið. En húsnæðið, sem nú er boðið upp á fyrir norðan, er að vísu gott, að því leyti sem það nægir, en vantar þó þarna verulegan hluta. Það vantar heimavistina. En auðvitað eru þetta meðmæli með því að flytja, af því að skólinn hefur ekkert húsnæði eins og er. En hins vegar hef ég bent á, að það sé ekki líklegt, að svo þurfi að standa í mörg ár.

Þá eru það skólaáhöld. Það getur nú ekki komið til, að norður á Akureyri séu enn þá nein sérstök skólaáhöld fyrir húsmæðrakennaraskóla. Þau geta ekki orðið betri þar en þau, sem skólinn hefur hér, bæði hjá sjálfum sér og öðrum þeim skólum, sem hann er í sambandi við um kennsluna.

Þá er það gott umhverfi. Ég held ég vilji ekki fara í neinn mannjöfnuð við Akureyringa, fjarri því. Ég ætla nú alveg að sleppa því, hvort umhverfið er betra eða verra. Ég kann yfirleitt ekki við þennan meting milli héraða. Mér finnst gott fólk alls staðar og kannske eitthvað gallað fólk alls staðar og vil ekkert fara út í þá sálma. Mér finnst, að skólinn sé hjá góðu fólki hér, og þó að hann færi norður, þá veit ég, að hann yrði ekki hjá vondu fólki.

Þá gat hv. 8. landsk. þess, að sér fyndist hart, að fulltrúar dreifbýlisins hér á hæstv. Alþingi gætu ekki fallizt á þessa ráðstöfun, að flytja þennan skóla norður.

Ég verð nú að segja það eins og er, að mér hefur ekki hugkvæmzt það, að þetta væri neitt sérstakt dreifbýlismál, um húsmæðrakennaraskólann. Í fyrsta lagi get ég ekki séð, að Akureyri sé neitt dreifbýli. Þangað á að flytja skólann. Að þetta sé eitthvað viðkomandi jafnvægi í byggð landsins, sé ég heldur ekki. Ég hef skilið það á nokkurn annan veg. Mér hefur skilizt, að jafnvægi í byggð landsins væri fyrst og fremst það, að atvinnumöguleikar væru sem jafnastir, framleiðslutækin nóg, vinnslutækin alls staðar, lífsskilyrði fólksins á hverjum stað sem jöfnust og fólkinu fækkaði ekki, eins og á sér stað víða í héruðum þessa lands nú, heldur héldist nokkurn veginn kyrrt og jafnvel fjölgaði. Og þetta verður ekki nema með jöfnun á lífsskilyrðum fólksins, þægindum hvers konar, atvinnu og öðru þess háttar. En breytir húsmæðrakennaraskólinn nokkrum sköpuðum hlut í þessum efnum? Fjölgar nokkuð framleiðslutækjum á Akureyri, þó að húsmæðrakennaraskólinn komi þangað? Ég get ekki séð það. Aukast atvinnuskilyrði þar nokkuð við þetta? Fjölgar fólki nokkuð á Akureyri við það, þó að komi þangað 12–15 námsmeyjar, sem eiga flestar heima annars staðar og hverfa til síns heima að loknu námi eins og aðrir nemendur? Ég get ekki séð það. Og ég sé ekki, að málið sé á nokkurn hátt skylt jafnvægi í byggð landsins. Mér finnst meira að segja málið smátt út frá því séð, hvor bærinn hefur þennan skóla, 12–15 nemenda skóla, að það taki því ekki að halda uppi löngum kappræðum um það.

Aðalatriðið er, að skólinn geti starfað áfram. Það má segja, að menn séu að hugsa fyrir því með því að láta hann hafa þarna húsnæði. Ég er búinn að benda á, að það er búið að gera þegar ráðstafanir af hinu opinbera til þess að bæta úr þessu húsnæðismáli skólans og það muni jafnvel ekki taka langan tíma.

Starfsskilyrði fyrir skólann eru tvímælalaust eins góð hér í Reykjavík og annars staðar, að sumu leyti að mínum dómi betri, og umhverfið tel ég að þurfi ekki að óttast á neinn hátt eða verða skólanum til tjóns eða hins lakara. Og ef það væri, þá eru svo margir skólar hér, að það yrðu þá fleiri og stærri skólar í hættu, ef eitthvað þess háttar væri á ferðinni.

Ég endurtek það, sem ég sagði upphaflega. Það á að athuga út í æsar, hvort ekki á að sameina þessa skyldu skóla, sameina að verulegu leyti kennsluna, kennslukraftana, jafnvel byggingarnar, skólatækin og hvað eina, og fá þannig meiri árangur, ekki út úr starfi eins skólans, heldur þeirra allra. Það er ekki svo mikið stórmál, hvort Húsmæðrakennaraskóli Íslands verður fluttur þetta árið brott úr bænum eða það bíði um sinn, að slík athugun sem þessi geti ekki farið fram að mínum dómi.