12.11.1956
Efri deild: 12. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (2910)

42. mál, áfengislög

Flm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Við Íslendingar erum stoltir af menningu okkar, bæði fornri og nýrri, og ekki alveg að ástæðulausu. Hitt er svo annað mál, hvort við stöndum alltaf nægilega vel vörð um þessi andlegu verðmæti.

Skemmtanalíf þjóðarinnar ber þess merki, að þar skortir nokkuð á. Áfengisneyzla landsmanna á opinberum samkomum og mannfundum varpar nú vaxandi skugga á siðmenningu okkar. Ölvun manna á þessum vettvangi er orðin daglegur viðburður og gengur stundum svo úr hófi fram, að oft veldur óspektum og jafnvel tjóni. Þessar samkomur sækja börn og unglingar, enda er ekki í annað hús að venda, þar sem varla er um að ræða mannfagnaði við þeirra hæfi. Afleiðingin verður því sú, að mannfundir af þessu tagi verða gróðrarreitir fyrir áfengisneyzlu æskufólks. Þetta veldur foreldrum miklum áhyggjum, sem sjá á eftir börnum sínum út í strauminn, en fá ekki við það ráðið.

Við verjum miklu fé til skólahalds og menntastofnana, og við gerum kröfur til góðs uppeldis í þessum stofnunum. En hvað gerum við til þess, að það, sem heimili og skólar byggja upp, verði ekki rifið niður á öðrum sviðum?

Íslendingar hafa náð miklum og lofsverðum árangri í slysavörnum hér á landi, og þjóðin stendur óskipt með þeim félagssamtökum, sem að þeim málum vinna. En áfengisneyzla æskumanna og kvenna og reyndar fleiri veldur líka slysum, stundum lítt áberandi, en oft líka mjög átakanlegum slysum, og þessi slys skilja eftir sín spor í lífi einstaklingsins, heimilanna og þjóðarinnar.

Slysavarnir á þessu sviði eru því nauðsyn, sem menn þyrftu að sameinast um, ekki síður en hinar.

Það hefur verið helzta ráðið, þar sem ölæði hefur gengið úr hófi fram á samkomum, að biðja um lögreglumenn til aðstoðar. Þetta er auðvitað til nokkurs gagns, það sem það nær, en það læknar samt ekki meinsemdina. Auk þess eru mörg héruð þannig sett, að lögreglulið er ekkert til í nágrenni skemmtistaðar, og verður því ekki um neina lögregluaðstoð að ræða þar, og þó getur þörfin fyrir slíka aðstoð verið engu minni þarna en sums staðar annars staðar, því að fjölmenni getur auðvitað orðið á mannfundum hvar sem er. Hins vegar væri kostnaðarsamt, ef ætti að flytja lögreglulið langar leiðir og á marga staði á sama tíma. En nú hefur reynslan líka sýnt það, að ýmsum félagssamtökum hefur tekizt að halda áfengi fjarri samkomum sínum. Þessir mannfundir hafa verið til fyrirmyndar, og þetta er því að þakka, að forsvarsmenn mannfundanna hafa talið það heiður sinn, að félagssamkomur þeirra fengju ekki á sig óorð vegna áfengisneyzlu. Þangað er öllum óhætt að koma, þar fara unglingar sér ekki að slysum, og þar þarf enga lögregluvernd.

Ég vona, að flestir séu mér sammála um það, hvort sem þeir eru bindindismenn eða ekki, að æskilegt væri, að þessi blær yrði á skemmtanalífi þjóðarinnar almennt. En ef menn eru sammála um það, þá ættu þeir að leitast við að vera samtaka um að leita þeirra ráða, sem leitt geti til þessa árangurs.

Með frv. því, sem hér liggur fyrir, er m.a. lagt til, að sú skylda verði lögð á herðar allra þeirra, er stofna til eða stjórna samkomum eða mannfundum, að þeir geri sitt ýtrasta til þess að halda þar uppi reglu og afstýra áfengisneyzlu. Ef þeir vanrækja þessa skyldu, er ætlazt til, að það sé refsivert, eins og t.d. veitingasali er nú refsiverður, ef áfengisneyzla á sér stað á veitingastað hans með hans vitund, þar sem hún annars er bönnuð.

Það, sem ýmsum forsjármönnum mannfunda hefur tekizt að gera með góðum árangri og án allra lagafyrirmæla, er ætlazt til að allir forstöðumenn mannfunda geri hér eftir, og þá má kannske vænta þess, að skemmtanalíf þjóðarinnar fái á sig hugþekkari blæ en nú er.

Ég vil svo leggja til, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn.