18.03.1957
Efri deild: 71. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (2914)

42. mál, áfengislög

Frsm. (Friðjón. Þórðarson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft frv. þetta til athugunar um skeið. Sendi n. frumvarpið til umsagnar nokkurra aðila, og hefur umsögn borizt frá áfengisvarnaráðunaut ríkisins, sakadómaranum og lögreglustjóranum í Reykjavík og bæjarfógetunum á Akureyri, Ísafirði og Akranesi.

Núgildandi áfengislög eru frá árinu 1954. Þar áður höfðu gilt lög frá 1935, með breytingum á þeim 1943, 1951 og 1952.

Áfengislöggjöf sú, er nú gildir, var, svo sem kunnugt er, sett eftir vandaðan undirbúning. Urðu þó allharðar sviptingar um frv. á þingi. Vill svo jafnan verða, þegar mál þessi ber á góma. Það er engu líkara en sumir finni á sér, komist undir einhver annarleg áhrif við það eitt að ræða um áfengi og það meira að segja ströngustu templarar stundum. En sleppum því.

Áfengislöggjöf þarf eins og önnur löggjöf að vera vel úr garði gerð, og er hreint ekki vandalaust að búa svo um hnútana. En ég vil enn fremur benda á augljóst atriði, sem oft virðist fara fyrir ofan garð og neðan hjá þeim, sem um áfengismál ræða. Það er sú staðreynd, að það er alveg sama, hvað áfengislöggjöfin er fullkomin og hvað oft henni er breytt til hins betra, þá er það tiltölulega lítils virði, ef skilyrði eru ekki jafnframt sköpuð til þess, að unnt sé að framfylgja henni svo sem löggjafinn ætlast til. En á þetta skortir mjög, bæði hér í Reykjavík og úti um land. Í Reykjavík býr lögreglan við algerlega ófullnægjandi starfsskilyrði. Bygging nýrrar lögreglustöðvar hér í bæ er höfuðnauðsyn. Þá er og húsrými til afplánunar refsinga mjög takmarkað. Víða úti um land skortir löggæzlu alveg.

Umsagnir þeirra aðila, er ég áðan nefndi, eru dálítið mismunandi, svo sem vænta mátti. Einn aðili telur samþykkt frv. horfa til bóta, en aðrir telja, að athuga þurfi ýmis fleiri atriði jafnframt, bæði í löggjöf og framkvæmd. Ég leyfi mér að lesa hér eina málsgrein úr umsögn sakadómarans í Reykjavík, sem mér finnst lýsa allvel hinu rétta viðhorfi til málsins. Hann segir:

„Tilgangur frumvarpsins er sýnilega sá að hindra, að ölvun valdi samkomuspjöllum, og er gott eitt um það að segja. En það, sem vænlegast er til að ná þeim tilgangi, eins og nú er, er vafalaust það, að nægilegt lögreglueftirlit sé á samkomum og að þeir, sem að því eftirliti starfa, hafi nauðsynlegt bolmagn til að halda uppi reglu, ekki einungis að mannafla, heldur einnig að tækjum og möguleikum til að geyma ölóða menn, þar til af þeim rennur móðurinn. Ástandið í þessum efnum víðs vegar um landíð er áhyggjuefni lögreglustjóranna, og hafa þeir hver á sínum vettvangi áhuga á að bæta og auka löggæzlu á samkomum. En til þess, að svo megi verða, þurfa ríkisvaldið og sveitarfélögin að leggja fram sinn skerf.“

Ég tel ekki ástæðu til að rekja nánar hverja umsögn fyrir sig.

Að athuguðu máli ákvað allshn. einróma að leggja til, að málið verði afgreitt með svofelldri rökstuddri dagskrá:

„Vitanlegt er, að löggæzlu á skemmtisamkomum í sveitum er víða mjög ábótavant og við mikla erfiðleika að stríða í þeim efnum. Telur deildin brýna nauðsyn bera til, að endurskoðuð verði ákvæði áfengislaga, laga um lögreglumenn og önnur lagaákvæði, sem varða þetta efni, með það fyrir augum að koma betri reglu og skipulagi á þessi mál. Í trausti þess, að ríkisstjórnin láti nefnda endurskoðun fara fram, telur deildin ekki efni til að taka afstöðu til frumvarps þessa og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Jafnframt þessu ákvað n. að bera fram till. til þál. um endurskoðun lagaákvæða um löggæzlu á skemmtisamkomum og þjóðvegum, sbr. þskj. 335, ef verða mætti til þess að koma hreyfingu á þetta mikilvæga mál og færa það í betra horf í framkvæmd. En um það mun síðar verða fjallað af formanni n., sem mæla mun fyrir þáltill.