18.03.1957
Efri deild: 71. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (2915)

42. mál, áfengislög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Tilgangurinn með frv. því, sem hér er til umr. á þskj. 43, er sá að leitast við að draga nokkuð úr áfengisneyzlu þeirri, sem sífellt setur verri og verri blæ á skemmtanalíf þjóðarinnar.

Það fer ekki á milli mála, að áfengisneyzla æskufólks hefur farið hraðvaxandi á síðari tímum. Útbreiðslumiðstöðvar áfengisneyzlunnar eru fyrst og fremst skemmtisamkomur manna, þar sem það má heita tízka, að skemmtun án áfengis þyki nú engin skemmtun. Þá má líka nærri því geta, hvernig muni umhorfs á opinberum skemmtistöðum í framtíðinni, ef ekkert verður að gert, þegar börn og unglingar kynnast varla annarri tegund skemmtanalífs en þessari.

Efnisatriði þessa frv. eru fjögur. Það er í fyrsta lagi að banna mönnum að dveljast undir áhrifum áfengis, þar sem áfengisneyzla er bönnuð. Í öðru lagi að fella niður heimild lögreglustjóra til að gefa út vinveitingaleyfi til félaga. Í þriðja lagi að leggja nokkrar skyldur á herðar forstöðumönnum mannfunda til að halda þar uppi reglu og afstýra ölvun. Og í fjórða lagi að þyngja nokkuð lágmarkssektir fyrir brot á áfengislögunum.

Samkv. 20. gr. áfengislaganna, nr. 58 frá 24. apríl 1954, er bannað að neyta áfengis á veltingastöðum eða annars staðar, þar sem veitingar fara fram. Hins vegar er alls ekki bannað að vera þar undir áhrifum áfengis eða ölvaður, meðan hann ekki veldur óspektum, hættu eða hneyksli. Ölvaður maður, sem hagar sér annars innan þessara takmarka, er jafnfriðhelgur á þessum stöðum og hinn, sem einskis hefur neytt.

Þessi tvískinnungur í löggjöfinni gerir fyrra ákvæðið, bannið gegn áfengisneyzlunni, gersamlega þýðingarlaust, því að í hvaða tilgangi ætli sé verið að banna mönnum áfengisneyzlu á slíkum stöðum, fyrst hún er leyfileg þeim utan dyra og dvöl þeirra leyfileg ölvuðum sem allsgáðum innan vissra takmarka? Ég sé ekki betur en að ástæðan fyrir þessu sé sú, að þeir, sem sett hafa þessi lög, hafa ekki haft neitt sérstakt á móti sjálfri áfengisneyzlunni, heldur hinu, þeir hafa viljað afstýra slysunum, óspektunum og hneykslunum. En reynslan er sú, að þetta er ekkert annað en afleiðing af hinu fyrra. Þetta minnir á karlinn, sem fékkst ekki mikið um það, þó að ærnar strykju á fjall á vorin í ullinni, en að þær skyldu týna af sér allri ullinni yfir sumarið, það fannst honum voðalegt. Ef maður ætlar að fyrirbyggja slysin, þá er auðvitað að fyrirbyggja orsökina að þeim fyrst og fremst.

Eins og lögin eru nú, geta tveir ölvaðir lagsmenn dvalið á skemmtisamkomu, ef þeir haga sér annars skikkanlega, annar þeirra drekkur í veitingasalnum, en hinn utan dyranna, annar er refsiverður, en hinn ekki.

Það má nærri geta, hvernig er að framkvæma þessi lög, jafnvel þó að menn séu allir af vilja gerðir, þegar fyrst þarf að rannsaka, hvar maðurinn hefur neytt áfengisins, til þess að geta gert eitthvað í þessum málum. Allir þeir, sem einhvern vilja hafa á því að draga úr áfengisneyzlu í landinu, munu því telja það til verulegra bóta að banna alla ölvun á skemmtisamkomum.

Annað atriði, sem ég nefndi, eru vínveitingaleyfi lögreglustjóranna. Lögreglustjórum er heimilt að gefa út vínveitingaleyfi handa félögum. 1955 voru slík leyfi gefin út í Reykjavík 124, og 1956 voru þau orðin 98 þann 8. des. Jólamánuðurinn var eftir. M.ö.o.: Þriðja hvern dag fær eitthvert félag hér í Reykjavík vinveitingaleyfi til jafnaðar árið um kring. Ekki fæ ég séð, að neinar hömlur séu á því, hversu mörg vínveitingaleyfi eru út gefin á ári skv. lögunum, en þó kann að vera, að lögreglustjórar hafi þarna einhvern hemil á, og geri ég frekar ráð fyrir, að svo sé yfirleitt. Þá er bannað að veita slík leyfi, ef félag eða einstaklingar þess hafa hagnað af því. Líka er bannað að veita skemmtifélögum slík leyfi. Og einnig er bannað að veita slík leyfi, ef samkvæmi er haldið í tekjuskyni fyrir veitinga- og skemmtistað.

Það má nú nærri geta, hversu vel þessi ákvæði öll eru haldin. Ætli vínveitingaleyfi séu ekki til þess fengin m.a., að skemmtunin verði betur sótt? Og hefur þá félagið ekki hagnað af því? Ég fæ ekki betur séð. Það má ekki veita skemmtifélagi slíkt leyfi. Þó er leyfið auðvitað fengið til þess að menn skemmti sér.

Eftir þessum bókstaf laganna get ég ekki hugsað mér, að hér i Reykjavík t.d. sé nema eitt félag, sem ekki mætti veita þetta leyfi. Það er félagið Alvara, sem mér er sagt að sé starfandi hér. Nei, mér sýnist, að það sé allt á sömu bókina lært í 20. gr. laganna um vinveitingaleyfin, m.ö.o., að það sé ómögulegt að framkvæma þá grein án þess að brjóta bæði bókstaf og anda hennar. Ég fæ ekki betur séð.

Nú er það vitað mál, að einkasamkomur félaga eru sóttar meira af börnum og unglingum, sem eru í viðkomandi félagi, heldur en opinberir veitingastaðir. Þarna fær æskan tækifæri til að venjast skemmtanasiðum áfengisneyzlunnar. Þetta er ein höfuðástæðan fyrir því, að ég tel það hættulegt að veita félögum vínveitingaleyfi. Þær samkomur sækja börn og unglingar frekar en aðrar samkomur, þar sem vínveitingar fara fram, og að því leyti tel ég þetta háska.

Ég hef heyrt því haldið fram út af þessu að afnema vínveitingaleyfi lögreglustjóranna, að það séu ekki meiri samkomuspjöll, þar sem slík vínveitingaleyfi eru veitt, heldur en á öðrum samkomum, þar sem þau eru ekki veitt. Og mig minnir, að í einhverri umsögn lögreglustjóranna sé þetta orðað eitthvað á þessa leið.

Ég tel þetta ákaflega hæpin rök fyrir því, að þeim skuli haldið áfram, þessum leyfisveitingum. Mér dettur í hug saga, sem ég heyrði einu sinni. Það átti að fara fram jarðarför uppi í sveit hér á landi. Presturinn og aðstoðarmenn hans og líklega fleiri voru orðnir ískyggilega ölvaðir þegar í byrjun athafnarinnar. En hún fór þó fram einhvern veginn, að menn álitu. og þeir, sem þarna áttu hlut að máli, töldu sig hafa gert skyldu sína. En morguninn eftir, þegar menn komust til sjálfs sín, ráku þeir sig á líkkistuna í bæjardyrunum. Þeir höfðu nefnilega aldrei fundið gröfina eða villzt á henni og bæjardyrunum daginn áður. Ég hygg, að þessi saga sé sönn, ég hef svo góðar heimildir fyrir henni. En hún er ekki ný. Ef einhverjum dytti nú í hug að fara að gefa út vínveitingaleyfi fyrir jarðarfarir, þá væri svo sem hægt að segja: Ja, þær fara ekki lakar fram en hinar, þar sem slík leyfi eru ekki gefin út. Nei, það er ekki hægt að rökstyðja það, að ekki megi afnema þessar leyfisveitingar vegna þess, að ástandið sé ekkert betra annars staðar, þar sem drukkið er ólöglega. Það get ég ómögulega fallizt á.

Þriðja atriðið í frv. er það, að forstöðumenn fyrir skemmtisamkomum skuli leitast við að afstýra þar ölvun og halda þar uppi reglu. En þess háttar ákvæði er ekkert í lögum nú, að undanteknu því, að veitingamönnum er skylt að halda uppi reglu, en ef aðrir stjórna eða stofna til samkomu en veitingamennirnir sjálfir, þá nær það ekki til þeirra. Mér sýnist, að engum sé skyldara en þeim að gera sitt til, að samkoma sú, sem þeir bera ábyrgð á, fari fram með nokkrum menningarblæ. Ákvæði hliðstæð þessu eru nú í lögreglusamþykktum bæði í Reykjavík og á Akureyri, og lögreglustjórar þessara bæja og auk þess lögreglustjórinn á Ísafirði telja þessi ákvæði vera til bóta. En annars staðar á landinu eru engin slík lagaákvæði, þar sem þetta er ekki í lögum, heldur lögreglusamþykktum, og sýnist mér því full þörf á að setja þessi ákvæði inn í lög, svo að þau nái til allra héraða.

Fjórða atriðið í frv. er um að hækka nokkuð lágmark sekta, þannig að þar sem nú er ákveðið, að 100–200 kr. lágmarkssekt er, komi 500 kr. Ástæðan til þessa er einfaldlega sú, að krónan er a.m.k. þeim mun minna virði nú en áður, sem nemur þessari hækkun, og það er í raun og veru þess vegna engin hækkun á sektunum, þó að þessi breyting sé gerð, því að þetta lágmark sekta, sem nú er í lögunum, mun vera búið að standa alllengi. Lögreglustjórinn á Akureyri, til dæmis, bendir á það í umsögn sinni um þetta frv., að 1935 var 50 kr. lágmarkssekt fyrir ölvun á almannafæri skv. lögreglusamþykkt Akureyrar og sé því 100 kr. sekt nú þess vegna tiltölulega miklu lægri en þá. Að einu leyti er þó lagt til, að bæði lágmark og hámark sekta hækki. Það er fyrir brot á 16. gr. laganna, en þar er m.a. bannað að afhenda eða veita áfengi yngri mönnum en 21 árs. Miðar þetta að því sama og ég hef áður nefnt að er höfuðtilgangur með frv., þ.e. að draga sem mest úr áfengisneyzlu á almannafæri og að unglingar verði fyrir áhrifum af þessum skemmtunum, sem þannig fara fram.

Hv. allshn. leggur til í nál. sínu á þskj. 334, að frv. þessu verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Aftur á móti liggja nú fyrir umsagnir, m.a. frá áfengisvarnaráðunaut ríkisins, sem mæla einróma með samþykkt frv. Sama gerir lögreglustjórinn á Akureyri. Og eins og hv. frsm. gat um, þá sýnist mönnum nokkuð sitt hvað um frv., eru meðmæltir sumu, en aftur mótfallnir öðru, og er náttúrlega við því að búast.

Út af því, sem hann sagði, að það hefði jafnan dregið til átaka, þegar um svona mál hefur verið rætt hér á hæstv. Alþ., þá skal ég nú ekkert um það segja, ég er ekki svo kunnugur því. En mér sýnist nú, að hvað okkur tvo snertir, hv. 11. landsk. og mig, þá sé það öðru nær en að við getum ekki rætt um þetta mjög kalt og rólega, eins og hlutirnir liggja.

Ég tek því ekkert sérstaklega illa, hvaða afgreiðslu frv. hefur fengið frá n., því að mér sýnist, að hún hafi komizt á þá skoðun eins og ég, að það verði ekki unað við þetta ástand lengur, eins og það er í landinu yfirleitt, og þeir vilji afgreiða málið á jákvæðan hátt, og það skal ég viðurkenna að þeir gera með því að flytja þáltill. þá, sem er á þskj. 335.

Ef ekkert hefði komið frá hv. n. nema bara dagskrártillagan, þá hefði ég náttúrlega ekki sætt mig sérstaklega við þá afgreiðslu, því að ég hef litið svo á, að þegar máli er vísað frá með rökstuddri dagskrá, þó að orðalag á henni sé mjög þokkalegt og gott yfirleitt, þá sé málið þar með úr sögunni og enginn ætlist til þess, að það verði gert neitt meira í því. Aftur á móti hefur hv. n. sýnt fyllstu alvöru og vilja í að vilja leysa þennan vanda, sem frv. fjallar um, og flytur þess vegna till. til þál. í málinu.

Ég mun ekki ræða orðalag né efni hinnar rökstuddu dagskrár að þessu sinni og náttúrlega því síður þáltill., sem ekki er enn komin til umræðu. En mér þykir ekki ólíklegt, að afstaða hv. þingmanna til frv. gæti eitthvað farið eftir því, hvað verður um þáltill. Mér sýnist, að ef hún yrði felld, þá sé ekki þar með sagt, að menn fari að samþykkja dagskrártillögu, sem er nálega alveg eins. Ef þáltill. aftur á móti yrði samþykkt, þá sýndist mér ekkert aðkallandi að halda áfram frekari afgreiðslu með sjálft frv., því að það er lausn í málinu, sem felst í þál. Ég held ég verði því að fara þess á leit við hæstv. forseta, ef það kemur ekki í bága við neitt annað, að atkvgr. um frv. bíði eftir því, hvað verður um þáltill., sem er nú á dagskrá hér í dag líka.