19.11.1956
Neðri deild: 17. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í C-deild Alþingistíðinda. (2919)

46. mál, sandgræðsla og hefting sandfoks

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Ræktun landsins er mjög ofarlega á baugi með þjóðinni, enda er það eitt af hinum mikilvægustu þjóðmálum. Að undanförnu hefur þjóðin gert mjög stórt átak í þeim efnum, og veldur því annars vegar mikill áhugi þeirra, er í sveitum búa, á aukinni ræktun og hins vegar góður stuðningur af hálfu Alþ. með löggjöf og fjárframlögum.

Sandgræðslan er merkilegur og mikilvægur þáttur í ræktuninni. Öll ræktun miðar að því að bæta landið og gera það verðmætara en áður, en segja má með sanni, að með sandgræðslu sé unnið að því að stækka landið. Þegar sandauðn er breytt í gróðurlendi, þá er ekki aðeins verið að vinna bug á hinum eyðandi náttúruöflum, heldur jafnframt verið að búa í haginn fyrir þær kynslóðir, sem landið erfa.

Í sumum héruðum landsins hefur þegar verið unnið stórvirki með sandgræðslu. Á mörgum stöðum hefur verið komið í veg fyrir uppblástur og vörn snúið í sókn á því sviði. En lögin, sem sandgræðsla ríkisins starfar eftir, eru líka algerlega miðuð við það að verjast uppblæstri.

Lög þau, er nú gilda um sandgræðslu og heftingu sandfoks, mæla einungis fyrir um það, að unnið sé að sandgræðslu á vegum Búnaðarfélags Íslands og Sandgræðslu ríkisins á svæðum, þar sem uppblástur lands á sér stað, til að koma í veg fyrir hann og græða foksvæðin. En að dómi okkar flm. þessa frv. þarf hv. Alþ. og þjóðin öll að setja sér hærra mark í þessu efni. Þekking manna vex stöðugt og reynsla, sem kemur að góðum notum við sandgræðslu eins og í öðru ræktunarstarfl. Íslenzkir menn hafa m.a. lært að hagnýta í þessu skyni erlendar jurtir, sem ætla má að reynist mjög gagnlegar og hafi mikla þýðingu við að auka gróður landsins.

Í landi okkar eru víðáttumikil svæði sanda og mela, sem eru þó ekki foksvæði og þar sem gróðurleysið stafar ekki af uppblæstri, heldur á sér aðrar orsakir. Sú reynsla, sem þegar er fengin, sannar það ótvírætt, að stór svæði sanda og mela er hægt að græða upp og gera að góðu beitilandi eða slægjum. Þjóðin á að setja sér það mark, að þetta verði gert.

Breytingin, sem frv. þetta felur í sér frá gildandi lögum, er sú ein, að skv. frv., ef að lögum verður, er Sandgræðslu ríkisins heimilt að verða við beiðnum landeigenda um að girða og græða upp sanda og mela og annað gróðurlaust land, þótt ekki stafi hætta af uppblæstri. Skal landeigandi þá snúa sér til Búnaðarfélags Íslands með slíka beiðni og lætur fylgja greinilegar skýrslur um aðstæður allar. Lætur þá Búnaðarfélagið sandgræðslustjóra athuga landið og gera tillögur um framkvæmd verksins, áætlun um kostnað og annað, sem að því ]ýtur, og tekur félagið síðan, að fram förnu mati á landsvæðinu, ákvörðun um málið.

Við flm. þessa frv. teljum tímabært að gera þessa breytingu á sandgræðslulögunum, sem hér er lagt til að gerð verði. Það er svo tímabært, að reynslan sýnir, að Sandgræðsla ríkisins hefur talið eðlilegt og rétt að sinna að nokkru því viðfangsefni, sem fjallað er um í þessu frv. Það er nú þegar svo komið, að framkvæmdir sandgræðslunnar ná út fyrir ramma laganna, eins og þau eru nú. Því til sönnunar vil ég benda á, að nú er unnið að sandgræðslu á stórum svæðum á Skógasandi og Sólheimasandi með stuðningi sandgræðslunnar, þótt þar sé ekki um foksvæði að ræða.

Sandgræðslustjóri hefur fyrir skömmu skýrt opinberlega frá framkvæmdum á vegum sandgræðslunnar og horfum á því sviði. Í blaðaviðtali, sem hann átti í septembermánuði s.l., farast sandgræðslustjóra þannig orð m.a.:

„Meginstarf sandgræðslunnar er að hefta sandfokið. En nú hefur opnazt nýr heimur á sviði sandgræðslunnar með ræktun sanda, þar sem ekki er um uppblástur að ræða. Mestu framkvæmdir á þessu sviði er beitarræktun á Skógasandi undir Eyjafjöllum. Þar kom sandgræðslan til móts við Austur-Eyfellinga, en þeir eru í miklu svelti með beitilönd. Í fyrra var þar sáð í hundrað hektara lands, og var beitt á það í sumar.

Þessi tilraun hefur gefizt mjög vel,“ segir sandgræðslustjórinn enn fremur, „þar sem nú er komið í ljós, að sauðkindin hefur ekki skemmt neitt af landinu í sumar, þótt það væri enn lítið gróið, þar sem gróðurinn er svo ungur. Í ár var aftur sáð í aðra 100 hektara, en búið er nú að girða alls 1000 hektara, og er ætlunin að rækta 100 hektara á ári, þar til lokið er við allt það land, sem þegar er búið að girða.“

Og sandgræðslustjórinn bætir við:

„Önnur tilraun hefur verið gerð í sömu átt með ræktun í félagi við Sólheiminga á Sólheimasandi. Þar hafa verið girtir 60 hektarar og þegar búið að sá í 18 hektara lands.“

Þessi orð sandgræðslustjórans sýna, að það er orðið tímabært að breyta sandgræðslulögunum að því leyti, sem hér er lagt til. Séu sandar teknir til túnræktar, nýtur slík ræktun að sönnu ríkisframlags skv. jarðræktarlögum. En sé um sandgræðslu að ræða til beitar, eins og nú á sér stað á Skógasandi, skv. þeim orðum sandgræðslustjórans, sem ég vitnaði til, eða hafizt er handa um stærri viðfangsefni heldur en að um aukningu á túni sé að ræða, þá fellur slík ræktun ekki undir ákvæði jarðræktarlaga. En vissulega ber að setja markið svo hátt að hagnýta þá þekkingu og þau skilyrði, sem fyrir hendi eru, til þess að breyta söndum og melum í gróðurlendi og stækka landið á þann veg, bæði til hagsbóta fyrir þá, sem nú erja landið, og einnig til hagsbóta fyrir komandi kynslóð.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að þessu frv. verði vísað til hv. landbn., þegar þessari umr. er lokið.