19.03.1957
Neðri deild: 70. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í C-deild Alþingistíðinda. (2921)

46. mál, sandgræðsla og hefting sandfoks

Frsm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Landbn. hefur haft til athugunar frv. á þskj. 50 um breytingu á lögum um sandgræðslu og heftingu sandfoks, og eins og sjá má á áliti n. á þskj. 347, leggur hún til, að frv. verði samþykkt.

Eins og ljóst er á frv., gerir það ráð fyrir þeirri breytingu á sandgræðslulögunum, að einstakir menn. sem eru eigendur sand- eða foksvæða, geti fengið fyrirgreiðslu Búnaðarfélags Íslands og sandgræðslustjóra, ef þeir hafa hug á eða vilja ráðast í uppgræðslu slíkra svæða á landareign sinni, bæði er tekur til sérfræðilegra leiðbeininga og fjárstuðnings af hálfu þess opinbera.

Á hinum síðari árum hafa gerzt merkilegir hlutir í sambandi við uppgræðslu sand- og foksvæða hér á landi. Má telja öruggt, að hægt sé með þeim aðferðum, sem hér hefur verið beitt á þessu sviði, að endurheimta stórar auðnir, sem til engra nytja hafa verið, og gera þær að frjósömum nytjalöndum.

Í bréfi frá sandgræðslustjóra um þetta mál, sem hann ritaði landbn., segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„En auk þess, sem á seinustu árum, eða síðan 1947, hefur aðalkapp verið lagt á að græða sárin með það fyrir augum að hefta uppblásturinn, hafa verið gerðar athuganir á sendnum jarðvegi með tilliti til ræktunar. Kostir jarðvegsins eru: hann er auðunninn, hlýr og það sem mest er um vert, að hann heldur mjög vel i sér raka jarðvegsins.“

Þetta var umsögn sandgræðslustjóra m.a. Þó að land okkar sé stórt í samanburði við fólksfjölda, þá er þó fyrirsjáanlegt, að landrými skortir á ýmsum stöðum fyrir fjölgandi búpening. Er því þegar af þeim ástæðum nauðsynlegt að ýta undir uppgræðslu landsins, og þá er hitt ekki síður mikils virði, að koma í veg fyrir frekari skemmdir af völdum uppblásturs en orðnar eru.

Virðist okkur öllum, sem í landbn. erum, að frv. þetta, ef að lögum verður, geti hraðað uppgræðslu og heftingu nýrra skemmda af völdum uppblásturs. Hitt er okkur jafnframt ljóst, að til þess að það, sem hér er lagt til nái tilgangi sínum, er nauðsynlegt, að á næstu árum verði hægt að verja meira til þessara mála af hálfu þess opinbera en hingað til hefur verið gert.