28.03.1957
Efri deild: 78. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (2938)

142. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara langt út í frv. sjálft, en vil samt segja nokkur orð um málið almennt.

Ég vildi þá fyrst segja það, að ég er á móti öllu því, sem reynir að lokka konur, giftar, sem eiga krakka, frá því að sjá um uppeldi krakkanna og í það að vinna eitthvað annað. Ég tel það alrangt, að konurnar sjálfar sjái ekki um uppeldi á sínum eigin börnum. Og þessi stefna, sem notar þessa tvísköttun til framgangs skoðun sinni og skiptingu tekna á milli hjóna, er þess vegna að þessu leyti alveg á móti minni skoðun á málinu og minni hugsun á því. Ég segi til dæmis að taka, að þó að mín kona, sem sá um uppeldi á okkar sex krökkum, hefði farið að vinna sér eitthvað inn úti til að auka okkur tekjur, þá hefði hún aldrei getað unnið sér fyrir upphæð, sem var eins mikils virði fyrir þjóðfélagið og hennar áhrif á uppeldi barnanna. Það er þess vegna alrangt að virða að engu það starf konunnar, sem heima er unnið og er mikilsverðast af öllu í okkar þjóðfélagi, að uppeldi krakkanna sé í lagi.

Þegar ég svo nánar lít á aðstæðurnar, þá má segja, að mér sýnist a.m.k., að þær séu þrenns konar. Fyrst og fremst eru sveitakonurnar, sem vinna að búunum með sinum mönnum að fullu og öllu, og allar þeirra tekjur koma fram í meiri öflun tekna í búið og hærri tekjum hjá báðum. Hvers vegna á ekki að skipta því, ef það á að fara að skipta tekjum? Þetta er stór flokkur í landinu af giftum konum, sem vinna jöfnum höndum með sínum bónda að öflun teknanna, sem þau svo bæði fá, og enginn gerir þar greinarmun á. Þau hjón eru skattlögð í einu lagi. Svo er annar hópur kvenna, sem ekki hefur aðstöðu til þess arna, t.d. kona flytjanda þessa frv. og konan mín og ýmsar aðrar, þar sem mennirnir vinna ákveðna vinnu, sem konan getur ekki verið þátttakandi í að vinna að framleiðslunni á sama hátt eins og er með fjölda af öðrum konum í landinu. Það má segja það kannske, að þeirra tekjur, sem þá allar eru óbeinar við að sjá um heimilið, koma að einhverju leyti fram í því, að maðurinn hefur betri aðstæður til að sinna sinni vinnu, en ekki nema að einhverju leyti. Og yfirleitt eru þær ekki virtar til peninga. Og svo eru aðrar, sem vanrækja sitt heimili, óbyrjur, sem vanrækja sitt heimili og enga ást hafa til sinna barna — hafa þau heldur engin. Og ég kæri mig ekkert um að ívilna þeim í á einn eða annan hátt. Ef það á að taka upp tvísköttun hjóna, þá þarf að líta á alla þessa flokka í sameiningu og reyna að finna lausn á málinu á þeim grundvelli, en ekki með því að taka þær út úr, sem ekki hugsa um sín heimili, vanrækja þau meira og minna og þar með uppeldi sinna barna, og fara að „honorera“ þær fyrir það. Það álít ég að sé alrangt. Þegar n. þess vegna fer að athuga þetta frv. nánar, þá vil ég biðja hana að minnast allra þessara þriggja flokka giftra kvenna í landinu, og ég veit ekkert, hvort það á að vera sérstaklega að ívilna þeim, sem afrækja sín heimili til að afla meiri tekna, enda þótt ég viti, að það eru til hér í Reykjavík nokkur dæmi, þar sem bæði vinna utan heimilisins og hafa skilið til þess að telja fram sitt í hvoru lagi og fá lægri skatt, en búa svo saman eftir sem áður. Ég þekki þau dæmi. Og ég veit, að þau eru til nokkur hérna. En það er nú tekið orðið svo lauslega á þeim málum hjá prestunum yfirleitt, lærifeðrunum í þeim efnum, að ég veit ekki, hvort það er svo ákaflega mikið, sem hefur skeð, þó að það séu kannske einhvers staðar á milli fimm og tíu hjón hérna í Reykjavík, sem hafa skilið af þessum ástæðum, til þess að telja fram sitt í hvoru lagi og lækka tekjuskattinn.

Það var misskilningur hjá hv. ræðumanni, það er það eina, sem ég ætla að leiðrétta, sem hann sagði, eða tala um frv. í einstökum atriðum, — að það er alveg í sjálfsvald sett, hvort lagt er á hjón í einu lagi útsvar eða ekki. Það var ekki gert í Reykjavíkurbæ í mörg ár. Það var lagt á tekjur hvers út af fyrir sig og þau síðan lögð saman. Það hefur verið gert núna seinni árin, að leggja útsvarið á heildartekjur beggja, en þá alltaf haft lægra en „skalinn“ sagði til um, svo að það hefur aldrei verið lagt að fullu á „skalann“, þegar um hjón, sem bæði höfðu tekjur „úti“, var að ræða.