28.05.1957
Efri deild: 112. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (2942)

142. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., hefur fjhn. deildarinnar yfirfarið og rætt efni þess, en orðið sammála um þá rökstuddu dagskrá, sem er á þskj. 626 og er svo hljóðandi:

„Fjmrh. hefur opinberlega lýst yfir því, að hann muni skipa nefnd til að gera till. um skattamál hjóna. Þykir deildinni því ekki ástæða til að taka afstöðu til málsins að sinni. Í trausti þess, að tillögur frv. verði þar teknar til sérstakrar athugunar, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Einn nefndarmanna, hv. þm. N-Ísf. (SB), skrifar undir þetta álit fjhn. með fyrirvara, sem hann mun skýra hér, ef hann telur þess þörf, í hverju felst.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að efni þess frv., sem hér hefur verið flutt af hv. 1. landsk. þm., hefur verið mjög á dagskrá undanfarin ár og því eðlilegt og rétt, að á þessu máli fari fram sérstök athugun, áður en Alþingi tekur sína endanlegu afstöðu til málsins.

Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða það fyrir hönd n., eins og dagskráin ber reyndar með sér, að hún er í fyllsta máta vinsamleg málinu og telur nauðsynlegt, að fram fari sérstök athugun á efni frv., í von um, að það megi þá liggja skýrara fyrir, þegar Alþingi tekur sína endanlegu afstöðu til málsins.

Ég tel ekki þörf á þessu stigi að ræða málið efnislega öllu frekar, en eins og ég í upphafi sagði, mælir nefndin einróma með, að málið fái þessa afgreiðslu að þessu sinni.