28.05.1957
Efri deild: 112. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í C-deild Alþingistíðinda. (2944)

142. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef ritað undir þetta nál. með fyrirvara, vegna þess að ég treysti ekki hæstv fjmrh. rétt vel í málinu. Ég hef nokkra ástæðu til þess að ala ugg í brjósti um það, að því sé ekki ýkja vel borgið, enda þótt hæstv. ráðh. hafi skipað eina af tugum nefnda, sem núverandi hæstv. ríkisstj. hefur ungað út, til þess að sitja á þessu réttlætismáli enn um skeið.

Þann einn og hálfan áratug, sem ég hef átt sæti á Alþingi, hefur alltaf öðru hverju verið flutt frv. um að leyfa sérsköttun hjóna í einu eða öðru formi. Þetta réttlætismál hefur alltaf strandað á sömu óbilgjörnu klöppinni, alltaf á hæstv: núv. fjmrh., sem lengstum þessa tímabils hefur setið í stól fjmrh.

Ég sé enga ástæðu til þess að ætla, þó að allir flokkar þingsins hafi nú flutt frv. um þetta mál og yfirgnæfandi meiri hl. þings virðist vera með því, að þá sé framgangur málsins tryggður, þrátt fyrir það þó að hæstv. fjmrh. hafi skipað n. til þess að glugga eitthvað í málið. Mér virðist ekki sú stefna yfirleitt vera uppi hjá núverandi hæstv. ríkisstj., að nokkru réttlæti megi koma við i skattamálum. Ég sé ekki betur en að menn vaði hér jörðina upp að hnjám í skattaæði, fyrst og fremst hv. stjórnarflokkar. Það liður varla svo vika eða mánuður, að ekki sé lagt fram nýtt frv. um nýja skatta.

Þegar á allt þetta er litið, virðist mér ekki vera mikil ástæða til bjartsýni um, að þetta mál nái fram að ganga, þó að ný nefnd hafi verið skipuð.

Um málið sjálft vil ég svo segja það, að ég get fyllilega tekið undir þau rök, sem hv. 1. landsk. flutti hér í ræðu sinni áðan og sett eru fram í grg. hans fyrir frv.

Samsköttun hjóna er leifar gamals óréttlætis frá liðnum tíma og sýnir ekkert annað en það, að enn þá litur ekki þjóðfélagið í raun og veru á konuna sem sjálfstæðan einstakling, a.m.k. ekki eins sjálfstæðan og karlmanninn. Á því byggist sú stefna, að skattleggja beri karl og konu saman. Hún getur ekki byggzt á neinu öðru. Ef menn litu á konuna sem sjálfstæðan einstakling, sjálfstæðan skattþegn, þá gilti þessi regla ekki.

Það er staðreynd, sem ekki verður gengið á snið við, að af þessu leiðir stórkostlegt þjóðfélagslegt tap, bæði fyrir einstaklingana og heildina. Það vinnuafl, sem til er, nýtist miklu verr en það mundi gera, ef litið væri á konur sem sjálfstæða skattþegna. Konur hliðra sér við að leggja á sig aukið erfiði við að vinna utan heimilis, þegar þær og heimili þeirra hafa ekki annað upp úr því en það, að stóraukin skattabyrði leggst á heimilið og að tekjurnar, sem konan aflaði, hverfa allar í ríkiskassann.

Það er mín skoðun, að þetta mál eigi að ná fram að ganga og muni eins og öll réttlætismál fyrr eða síðar sigra. En ég taldi þó rétt að gera tilraun með að bíða um sinn eftir því, að niðurstöður sjáist frá þeirri n., sem hæstv. fjmrh. hefur skipað. Þess vegna skrifaði ég nú undir nál. með öðrum hv. nefndarmönnum. Ég satt að segja trúi því naumast, að með þann þingvilja, sem komið hefur fram frá þingmönnum úr öllum flokkum, verði hæstv. fjmrh. stætt á því öllu lengur að agnúast gegn sérhverri leiðréttingu á því ranglæti, sem framið er í þessum efnum.