27.11.1956
Neðri deild: 22. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í C-deild Alþingistíðinda. (2951)

60. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég er nú einn af flm. þessa máls og þykir því ástæða til að segja hér fáein orð, enda þótt hv. 1. flm. hafi flutt um málið mjög ýtarlega og skörulega ræðu. En ég skal taka það strax fram, að þetta litla frv. grípur ekki inn á nema lítið svið af því, sem hv. 1. flm. málsins talaði um, og þetta frv. er í raun og veru ekki annað en að fara fram á það að sníða einn ljótasta angann af því skrímsli, sem við köllum hér skattalög. Aðalatriði þessa frv. er að ákveða það, að veltuútsvar og veltuskattur skuli vera frádráttarbært við skattframtal. Í raun og veru er það eitthvert fráleitasta ákvæði, sem nokkurn tíma hefur verið tekið í lög hér á landi, þegar það var lögfest 1942, að skattur og útsvar skyldi ekki mega dragast frá tekjum, þegar skattframtal fer fram, því að með því móti er áframhaldið þannig, að það er ár eftir ár lagður skattur á skatt.

Ég hef átt tal við hina og þessa menn í launastétt, sem verða að borga skattana af sínum launum, og þeir segja við mig: Ja, þriðjunginn af laununum sjáum við aldrei, því að það er tekið. og stundum miklu meira en það. Það er tekið í útsvar og skatt. Við sjáum það aldrei, en það er lagt á það skattur og útsvar aftur næsta ár sem tekjur. — Ég skal nú ekki fara mikið út í þetta nú, því að þetta frv. er ekki um það, það er um það eitt sem aðalatriði að koma því í lög, að það sé þó frádráttarbært það versta í þessu falli, sem er veltuútsvar og veltuskattur.

Það var í rauninni alveg nýtt að heyra það hjá hæstv. fjmrh. hér áðan, og ég get lýst ánægju minni yfir, að hann lét það í ljós, að hann væri nú orðinn hálfóánægður með það skipulag, sem er á þessum málum, því að mér hefur á undanförnum árum fundizt hann vera allra manna ánægðastur með ástandið í þessum efnum, eins og það hefur verið.

Hér hefur, eins og kunnugt er, setið á rökstólum mþn. í skattamálum, fimm manna n., sem starfaði í mörg ár, og það fór mjög orð af því, að sú n. væri mjög ósammála, og ekkert kannske óeðlilegt við það, því að þetta voru menn sitt af hverjum flokki og með mismunandi skoðanir. En þó fór svo að lokum, að þessi n. varð sammála um breytingu á skattgreiðslu félaga. og það frv., sem hún var að lokum sammála um, fór til hæstv. þáverandi ríkisstj., en eins og kom fram í ræðu ráðherrans, sem hér var að enda við að tala, þá snerist hann gegn því að leggja þetta frv. fyrir, eins og það kom frá hv. nefnd. Ég held, að það sé nú einhver misskilningur hjá hæstv. ráðh., að það hafi engir samstarfsmenn hans í þeirri ríkisstj. verið með því að fallast á þetta, því að ég man ekki betur en að þeir væru sumir a.m.k. því fylgjandi.

Þá er þetta stóra atriði, sem hér er um að ræða, sem er veltuútsvarið. Hæstv. ráðh. sagði, eins og rétt er, að það er á valdi niðurjöfnunarnefnda að leggja á veltuútsvar, og það eru ekki neinar fastar takmarkanir fyrir því, hvað það skuli vera mikið. En af hverju er þetta á valdi niðurjöfnunarnefnda? Það er af því, að lögin heimíla að leggja á veltuútsvar, sem er náttúrlega hinn hreinasti vandræðaskattur, að leggja þannig útsvar á veltu, hvar sem það er í landinu, án alls tillits til þess, hvort það eru tekjur af rekstrinum ellegar ekki. En úr því að þetta er heimilað í lögum, sem við í þessu litla frv. förum ekki fram á að breyta, þá er þó minnsta krafan sú, að mér finnst, að það sé þó heimilað að draga þetta veltuútsvar frá tekjum næsta árs, en að það sé ekki heimilað að leggja á tekjuútsvar eins og þetta séu tekjur, sem hlutaðeigandi félag eða hvaða aðili sem er er búinn að greiða í veltuútsvar næsta ár áður. En um leið og það er ekki heimilað að draga þetta frá tekjunum, þá verður afleiðingin eðlilega sú, að það verður lagt á það eins og þetta séu tekjur, sem hafa farið til félagsins eða mannsins, hver sem hann er, og séu tekjur, sem óhætt sé að leggja á.

Hæstv. fjmrh. lét það hér í ljós, sem í sjálfu sér er nú ekki undarlegt þó, að hann sjái, að þetta veltuútsvar eigi að vera frádráttarbært, m.ö.o. kemur það fram hjá hæstv. ráðh., að hann er okkur flm. þessa máls sammála um það aðalatriði, sem við förum fram á. En hann kippir að sér hendinni í næstu setningu og segir: Ég get ekki fallizt á, að þetta sé heimilað, nema því aðeins að það sé þá lögfest um leið, hvað veltuútsvarið eigi að vera hátt. — Það væri náttúrlega langæskilegast fyrir gjaldendurna og fyrir félögin, sem í þessu falli er um að tala, að það væri lögákveðið um leið, hvað útsvarið ætti að vera hátt: En ef það ekki fæst lögfest að takmarka það á þann hátt, eins og mig minnir að mþn. vildi vera láta, þá er það þó sú minnsta krafa, sem hægt er að gera og gerð er í þessu frv., að það sé þó frádráttarbært, þegar útsvarsálagning fer næst fram.

Nú reikna ég með því, að það verði allir. hv. þdm. með því, að þetta frv., sem er lítið frv., fari til hv. fjhn., og þar verður að sjálfsögðu tækifæri til þess að fjalla um málið í heild og koma að hverjum þeim breytingum, sem annars gæti orðið samkomulag um, og ég fyrir mitt leyti vil sem flm. lýsa yfir því, að ég er því ánægðari sem meiri eða fleiri lagfæringar fást á þessum vandræðamálum frá því, sem nú er. En þetta, sem við flytjum hér, er aðeins lágmarkskrafa, byggð á því, að eftir fyrri reynslu höfum við tæplega gert ráð fyrir, að það fengist meira fram, eins og eðlilegt væri að fara fram á og fyrst og fremst ætti að vera það, að allir skattar og öll útsvör væru frádráttarbær, þegar skattaframtal fer fram, því að það er sá eini eðlilegi máti á þessum málum og sú eina hamla, sem er fyrir því, að einstaklingar og félög séu ekki „rúineruð“ og gerð gjaldþrota algerlega og óstarfhæf á fáum árum.

Ég vil þess vegna mega vona eftir undirtektum ráðherrans, sem voru þó óvanalega góðar í þessu efni, að við megum gera ráð fyrir því, að þetta frv. fái einhverja afgreiðslu og þá kannske verði málið tekið til ýtarlegri og betri athugunar og breytinga á þessu yfirstandandi þingi en við flm. förum fram á hér.