04.03.1957
Neðri deild: 61. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í C-deild Alþingistíðinda. (2955)

60. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Af því að hv. frsm. var formaður í þeirri nefnd, milliþinganefnd í skattamálum, sem átti að gera till. til stjórnarinnar um þessi mál finnst mér rétt í sambandi við þetta mál að geta þess, að þetta frv. er einmitt fram komið vegna þess, að till. nefndarinnar til stjórnarinnar leystu ekki úr einu meginvandamáli í sambandi við þessi mál, og það var tekjuöflun bæjarfélaganna.

Nefndin skilaði till. sínum um félagakafla laganna, og voru þær till. að ýmsu leyti athyglisverðar og ef fram hefðu náð að ganga, þ.e.a.s., ef hæstv. fjmrh. hefði borið fram þessar till., þá mundu þær hafa bætt mjög mikið úr þeim vandkvæðum, sem nú eru á skattalöggjöfinni að því er snertir félagakaflann.

Nú er að vísu ekki um þetta að sakast, eins og komið er. Mér skilst, að hv. formaður nefndarinnar, hv. þm. V-Húnv., telji, að nefndin hafi skilað af sér, þ.e.a.s. lokið sínu starfi, þó að þetta atriði, sem ég nú hef minnzt á, væri ekki tekið sérstaklega til meðferðar í till. hennar. Hins vegar hefur mér skilizt á hæstv. fjmrh., að hann sé ekki eins viss um það, að nefndin hafi lokið starfi sínu, og þess vegna mætti ætla, að nefnd þessi sé starfandi enn þá. Það ætti því að vera í hennar verkahring að skila til hæstv. fjmrh. till. um þetta efni, sem um er að ræða í frv. því, sem hér liggur fyrir. Það er, ef svo mætti segja, um sambúð ríkisins og bæjanna um tekjuöflun, því að eins og öllum er ljóst, verða báðir þessir aðilar að sækja tekjur sínar til hinna sömu borgara.

Mér þykir nú samt sem áður vænt um, að þetta nál. er fram komið, þó að nefndin hafi ekki talið sér fært að gera annað en fram kemur i nál., og að vísu verð ég að segja, að ég hafði ekki búizt við öðru, eins og sakir standa. Ekki er heldur hægt að gera ráð fyrir því, að lausn fáist á þessu máli á þessu þingi. Hins vegar er ég nefndinni þakklátur fyrir það, að hún hefur látið álit sitt í ljós og telur, að hér sé brýn þörf á breytingum, og ég tel, ef samþykkt verður það, sem hún leggur hér til, að það sé um leið áskorun til ríkisstj. um að láta hefja víðtæka rannsókn og athugun á þessu máli, til þess að úr því fáist bætt. Öllum er ljóst, sem nokkuð þekkja til þessara mála, að svo búið getur ekki staðið öllu lengur.