12.11.1956
Neðri deild: 14. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í C-deild Alþingistíðinda. (2967)

21. mál, jafnvægi í byggð landsins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi leyfa mér að segja í sambandi við þetta mál. Frv. það, sem hér liggur fyrir, heitir skv. þskj. 21 frv. til laga um ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Þessi fyrirsögn er samhljóða fyrirsögn, sem var á frv., sem lá fyrir hv. Alþ. s.l. vetur, var stjfrv., samið af tveimur mönnum, Gísla Jónssyni og Gísla Guðmundssyni, sem á sínum tíma höfðu verið skipaðir til þess að gera undirbúning að heildaráætlun um framkvæmdir í þeim landshlutum, sem örðugasta aðstöðu eiga, af nánar tilgreindum ástæðum. Það frv. lá fyrir Alþ. síðasta, en varð ekki útrætt.

Nú er þetta frv., sem hér liggur fyrir, með sömu fyrirsögn og það frv., en það er rétt að vekja athygli á því, að frv. er ekki efnislega samhljóða því frv., sem flutt var á síðasta Alþingi. Ýmis atriði, sem voru í því frv., eru felld niður í þessu frv. og ýmsum ákvæðum breytt og að ég ætla einhverju bætt við úr öðrum eldri frumvörpum. En hér er sem sé um nýtt mál eða ný mál að ræða, og hygg ég, að þær breytingar, sem hér liggja fyrir frá frv. frá síðasta þingi um ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, séu ýmsar ekki til bóta og beri vott um það, að flm. þessa frv. hafi e.t.v. ekki að fullu gert sér ljósan þann tilgang, sem vakti fyrir þeim, sem hitt frv. sömdu.

Ég vil í sambandi við þetta geta þess, að það er ekki rétt, sem stendur í grg. frv., að þeir Gísli Jónsson og Gísli Guðmundsson hafi unnið að undirbúningi þess frv., sem lá fyrir þinginu í fyrra, frá því í febrúarmánuði 1953. Það er ekki rétt, því að þessir menn voru ekki skipaðir til að framkvæma sínar athuganir fyrr en 29. júní 1954. En þál., sem sú skipun var byggð á, var hins vegar samþykkt í febrúar 1953. Það má vera, að hv. flm. hafi eitthvað víkið að þessu áðan, en ég vildi gjarnan, að þetta kæmi fram, að starfstími þessara manna var ekki svo langur sem þarna er skýrt frá.

Í öðru lagi vil ég svo geta þess, af því að mér er um það kunnugt, að i haust sem leið, ég ætla nokkru fyrir Alþingi, rituðum við Gísli Jónsson ríkisstjórninni bréf, áður en við lukum störfum, þar sem við mæltum með tiltekinni afgreiðslu á því máli, sem hér lá fyrir þinginu í fyrra, þannig að það yrði afgreitt á þann hátt, sem frá því var gengið í hv. efri deild. Ríkisstj. hefur haft málið til athugunar þess vegna undanfarið, og mér er kunnugt um, að nokkur athugun á því hefur farið fram. Ég hygg þess vegna, að það gæti verið ráðlegt, að beðið væri með afgreiðslu þessa frv. í n., þangað til hæstv. ríkisstj. hefur lokið athugun sinni á því frv., sem ég hef áður nefnt og afgreitt var til hennar fyrir nokkru. Efnislega mun ég ekki ræða málið á þessu stigi.