14.03.1957
Neðri deild: 67. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í C-deild Alþingistíðinda. (2973)

21. mál, jafnvægi í byggð landsins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mikið þessar umr., sem raunar var að verða lokið, en aðeins gera eina eða tvær athugasemdir í sambandi við ummæli, sem hér hafa fallið frá hv. frsm. minni hl., hv. 5. þm. Reykv., og hv. 2. þm. Eyf. Ég skal vera mjög stuttorður.

Ég vil í fyrsta lagi geta þess, og mér þykir rétt, að það komi fram hér til þess að forðast misskilning, að það frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 21, er ekki samhljóða því frv., sem á sínum tíma var samið af svokallaðri jafnvægisnefnd, þó að það beri sömu fyrirsögn. En fyrirsögnin, sem hér er sett hin sama, gæti e.t.v. gefið til kynna, að hér væri um sama eða um sams konar frv. að ræða, en ég vil taka það fram, að svo er ekki. Nægir í því sambandi að benda á það, að þau ákvæði, sem voru í I. kafla þess frv., sem hér lá fyrir þinginu í fyrra, eru ekki í þessu frv. Þetta vildi ég leyfa mér að taka fram til þess að koma í veg fyrir misskilning, sem kynni að geta komið upp í þessu sambandi.

Þá vil ég aðeins segja það í sambandi við það, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði í sambandi við skipun nefnda og í sambandi við pólitískar nefndir, sem hann svo nefndi, og átti þá við nefndir, sem stjórnarandstaðan ætti ekki fulltrúa í, að eins og öllum hv. þm. er kunnugt, hefur það verið mikill siður um mjög langan tíma að hafa þann hátt á að setja n. til starfa, og sérstaklega nú síðustu áratugi hefur verið mjög mikið að þessu gert af þeim stjórnum öllum, sem við völd hafa verið. Það er engin nýlunda um þessa stjórn, þó að hún skipi nefndir, og ætla ég, að ef unnið væri að því fræðilega að taka upp lista yfir þær nefndir, sem einstakar ríkisstj. hafa skipað, þá sé sá listi, a.m.k. enn sem komið er, ekki orðinn eins langur hjá þessari hæstv. ríkisstj. og hjá fyrrverandi ríkisstjórnum, enda er hún nú ekki búin að sitja mjög lengi.

Þá er hitt, sem hann minntist á, um það, sem hann kallaði pólitískar nefndir, þ.e.a.s. að setja til starfa nefndir, sem stjórnarandstaðan ætti ekki fulltrúa í. Mig furðar nokkuð á, að þessi hv. þm. skuli vera að tala um þetta. Auðvitað er hér um álitamál að ræða. Það er álitamál, hvort n. eiga að vera skipaðar þannig, að það sé ríkisstj., sem þangað velur fulltrúa fyrir þau sjónarmið, sem hún starfar eftir, eingöngu, eða þá að þær séu skipaðar fulltrúum fyrir ýmis sjónarmið. En í tíð þeirrar stjórnar, sem Sjálfstfl. veitti forustu, var einmitt þessi háttur nokkuð á hafður, að setja n. saman á þennan hátt, að stjórnarandstaðan ætti þar ekki fulltrúa. Ég þarf ekki að nefna neitt dæmi um það. Hv. þm. er það kunnugt eins og mér, og þess vegna er það nokkuð einkennilegt af honum að vera að ræða um slíkt. Eins og ég sagði áðan, getur það verið álitamál, hvað er líklegast til gagns í þessu sambandi, hvort það er líklegra til gagns, að n. séu skipaðar fulltrúum ýmissa sjónarmiða, eða þá að við skipun þeirra ráði aðallega það sjónarmið, sem ríkisstj. hefur. Því fylgir þá það, að hún ber auðvitað og sá meiri hluti, sem að henni stendur, fulla ábyrgð á starfi hlutaðeigandi n. og fyllri ábyrgð en hún ber á starfi samsettrar nefndar.

Hv. 2. þm. Eyf. minntist nokkuð á störf atvinnutækjanefndar, og ég skal ekki fara að ræða um þau af því tilefni. Sú n. gefur að sjálfsögðu skýrslu sína til ríkisstj. En það vil ég þó taka fram, að ég ætla, að þær skýrslur, sem atvinnutækjanefndin hefur verið að safna í vetur, séu nokkuð á öðru sviði en þær skýrslur, sem á sínum tíma var safnað af atvinnumálanefnd ríkisins og síðar af jafnvægisnefndinni. Þessar skýrslur, sem atvinnutækjanefndin hefur verið að safna, eru eingöngu á sviði atvinnumála og eru — á því sviði — miklu fyllri en aðrar skýrslur, sem safnað hefur verið, enda sviðið takmarkað. Að öðru leyti tel ég ekki viðeigandi fyrir mig að ræða hér um starf þeirrar n. — Það var aðeins þetta, sem ég vildi láta koma fram á þessu stigi málsins.