14.03.1957
Neðri deild: 67. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í C-deild Alþingistíðinda. (2974)

21. mál, jafnvægi í byggð landsins

Frsm. minni hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er nú lítið, sem fram hefur komið í þessari einu ræðu úr stjórnarherbúðunum, sem flutt hefur verið síðan ég talaði.

Hv. þm. N-Þ. taldi nauðsyn vera á því að vekja athygli þm. á, að hér væri ekki sama frv. um jafnvægi i byggð landsins og flutt hefði verið að tilhlutun fyrrv. ríkisstj. Fyrir þessu er gerð grein í grg. frv., að við samningu þessa frv., eins og þar er komizt að orði, með leyfi hæstv. forseta, hafi flm. þess „valið þann kostinn að samræma meginefni tveggja áðurgreindra frv. í trausti þess, að frv. nái þá fremur samþykki Alþ.“, en þessi tvö áðurgreindu frv. eru annars vegar frv. ríkisstj. frá því í fyrra og hins vegar frv., sem sjálfstæðismenn höfðu flutt á tveimur undanförnum þingum. Þetta atriði höfum við ekki viljað villa neinar heimildir um, og hefur verið gerð grein fyrir því.

En ef við komum að nefndunum svolítið, þá minni ég á, að hv. þm. N-Þ. hélt, að nefndalistinn væri ekki orðinn lengri hjá núverandi stjórn en hjá ýmsum fyrrv. ríkisstj. Það væri nú sennilega greinabezt í þessum efnum að fá fram þessa nefndalista, en eitthvað hefur nú líklega að segja aldur stjórnarinnar. Ég hef á milli handa lista um milli 20 og 30 n. eða nýskipanir í nefndir fram að áramótum, og stjórnin settist á laggirnar í júlílok. Ég efast stórlega um, að aðrar ríkisstj. hafi verið afkastameiri. En þetta atriði væri æskilegt, áður en þingstörfunum lýkur, að fá nánari upplýsingar um. Ég hef nú innt eftir þeim í þessum umr., og þær kannske koma fram í umr. þessa máls á síðara stigi, og vildi ég mega vænta þess.

En þá kemur spurningin um hinar pólitísku n., sem ég gagnrýndi, nefndir, sem fjalla um eins veigamikil fjárhags- og atvinnumál og hér um ræðir, þ.e.a.s. jafnvægi í byggð landsins, því að það hugtak er nú farið að skiljast á nokkuð vissan hátt, að það væri eðlilegt, að Alþ. skipaði þeim n. starfsreglur og ramma, en að þær væru ekki eingöngu skipaðar af ríkisstjórnum og á pólitískan hátt af stuðningsmönnum stjórnarflokkanna. Nú segir hv. þm. N-Þ., að þessi háttur hafi nokkuð tíðkazt og verið tekinn upp í tíð fyrrverandi stjórnar, að ríkisstj. skipaði n. til ýmissa starfa, án þess að Alþ. fjallaði um það eða stjórnarandstaðan ætti aðstöðu til að eiga sæti í n. Þegar þetta mál er rakið, er það alveg rétt, en ég get líka upplýst, að innan stjórnarflokkanna eða stuðningsmanna stjórnarfl. voru mjög skiptar skoðanir um þessa þróun og oft og einatt látin í ljós gagnrýni á henni. Og ég fullyrði, að það sé ekki fyrst og fremst að frumkvæði sjálfstæðismanna, sem þessi háttur hafi verið upp tekinn. Mig langar til þess að spyrja og inna hv. þm. Framsfl. eftir því, á hverju strandaði frv. í fyrra um ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Hvað var það, sem fyrst og fremst leiddi til þess, að frv. var stöðvað af Framsfl. á síðara stigi málsins? Það skyldi ekki vera ákvæði þess í 2. gr., þar sem stendur: „Sameinað Alþingi kýs að loknum alþingiskosningum hverju sinni fimm manna jafnvægisnefnd og jafnmarga til vara?“ Það skyldi ekki vera það einmitt, að sjálfstæðismenn í framhaldi af því, sem þeir margsinnis voru búnir að láta í ljós í umr. og málflutningi á Alþingi, lögðu til, að það ætti að skipa þessum málum öðruvísi en verið hefði, að það hefði ekki fallið í geð framsóknarmanna? Ég vil einnig minna á og láta í ljós í sambandi við jafnveigamikið mál og húsnæðismálin, að þegar þau mál voru til meðferðar, lét ég í ljós alveg sérstaka gagnrýni innan míns flokks um þann hátt, sem hafður var upphaflega á skipun þriggja manna húsnæðismálastjórnar, sem þó var ákveðið í lögum, en ríkisstj. skipaði, og einnig síðar þeim hætti, sem hafður var á starfsaðferð nefndarinnar í sambandi við lánveitingarnar. En ég veit ekki betur en annan hátt hafi ekki verið hægt þá að hafa á því til samkomulags við Framsfl.

Það er eins og ég segi, þegar við erum að ræða um þetta mál hérna, þá hefur milljónum verið varið á undanförnum árum til jafnvægis í byggðum landsins fyrir forustu ríkisstj., sem sjálfstæðismenn hafa átt sæti í, og það má þess vegna segja: Af hverju höfðuð þið ekki annan hátt á þessum málum þá? Við því er ekki öðru að svara en að þessi mál voru þá í þróun, fjárhæðir voru miklu minni, málin voru á fyrstu stigum. En strax og þessi mál voru að nálgast það að komast í fastara form og ákveðnar voru árlegar fjárveitingar af Alþingi og árlegar fjárúthlutanir af hálfu ráðh. og ráðuneytisstjóra, þá vöktu sjálfstæðismenn hvað eftir annað máls á því og fluttu það inn í Alþingi, að önnur skipan yrði tekin upp í þessum málum. Hér eiga að sjálfsögðu báðir stjórnarflokkarnir sök. Ég er ekki að mæla Sjálfstfl. undan sök í því. Ég tel það mjög alvarlega þróun, ef það færist um of í pólitískt horf um nefndaskipanir og starfsemi nefnda, sem fjalla um jafnveigamikið mál og hér um ræðir eða önnur svipuð. En höfum við gert okkur seka um það áður fyrr sjálfstæðismenn eða framsóknarmenn, þá ber okkur ekki að réttlæta nú sömu ráðagerðir með því, heldur að reyna að hverfa frá villu síns vegar og taka upp annað og traustara skipulag en þar hefur verið um að ræða. Ég tel mig hafa sýnt með alveg fullum rökum, að sjálfstæðismenn eru ekki fyrst nú að tala um breytingu á þessum málum í sambandi við það mál, sem hér fyrir liggur, og ekki heldur um ýmis önnur mál, ef sú saga yrði nánar rakin.