14.03.1957
Neðri deild: 67. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í C-deild Alþingistíðinda. (2976)

21. mál, jafnvægi í byggð landsins

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Út af þeim margendurteknu fullyrðingum hv. frsm. meiri hl., að ríkisstj. sé að vinna að þessum málum nú af fullum krafti, eins og hann endurtók í sinni ræðu nú oftar en einu sinni, þá sé ég ástæðu til þess að spyrjast fyrir um það, hvort megi vænta þess, að nú á þessu yfirstandandi þingi verði lagt fram frv. um frambúðarskipan þessara mála. Ég held, að það sé mjög auðvelt fyrir ríkisstj. að gera það, ef hún hefur nokkurn áhuga á því að koma þessum málum í fast form. Það er búið að rannsaka þetta mál það rækilega á undanförnum árum, að það er engin ástæða til þess að skjóta því lengur á frest að setja um þetta lög.

Fyrrverandi ríkisstj. komst að þeirri niðurstöðu, að það væri rétt að gera það, þótt annar stjórnarflokkanna, Framsfl., hafi af einhverjum undarlegum ástæðum brugðizt málinu á síðasta stigi þess á síðasta þingi.

Það auðvitað breytir í engu þeirri staðreynd, að auðið sé að bera fram ákveðnar till. um fasta skipan á þessum málum, þótt eitthvað sé ekki fullathugað um atvinnutækjaþörf víðs vegar um landið. Ef það á að bíða eftir því öllu saman, þá er ég hræddur um, að þetta sjái seint dagsins ljós, að það komist fast form á þessi mál. Og ég álít, að það sé mjög vafasöm leið að fara að taka einn og einn þátt út úr þessum málum og afgreiða út af fyrir sig án þess að gera sér einhverja heildarhugmynd um þá meginstefnu, sem fylgja eigi í uppbyggingu atvinnulífsins yfirleitt. Það má segja, að togarakaupin væru nokkuð sérstæð. Það eru stórtækustu framkvæmdirnar á atvinnusviðinu væntanlega, ef undan eru skilin hin stóru fiskiðjuver, þannig að það væri vel athugandi að afgreiða það mál sérstaklega með sérstakri löggjöf. En atvinnujöfnunarmálin almennt og sá stuðningur, sem veittur er hinum ýmsu byggðarlögum landsins til atvinnuaukningar, hljóta að verða að afgreiðast í einu heildarkerfi og koma á það föstu formi, eftir hvaða reglum starfa beri að þeim málum fyrst og fremst og hverjir það séu, sem verði falin sú forusta. Þetta er nauðsynlegt. Og reynslan hefur sannað það með hverju árinu, sem hefur liðið, hversu nauðsynlegt þetta er, því að það er engum efa bundið, að einmitt sú staðreynd, að það er ekki búið áður að koma föstu skipulagi á þessi mál, m.a. að ákveða það, hvers fjár megi vænta á ákveðnu árabili, sem er mikil nauðsyn, þá hefur ekki verið hægt að láta þetta koma til eins mikilla nota og ella hefði verið, því að það þarf að vera hægt að skipuleggja ákveðnar ráðstafanir, sem ef til vill er ekki hægt að leysa með atvinnujöfnunarfé eins árs, heldur þyrfti að vera hægt að gera ráð fyrir því, að það væri hægt að leggja til þeirra ákveðnu framkvæmda fé í 2–3 ár. Þetta hefur ekki verið hægt að gera, m.a. vegna þess, að það hefur aldrei verið vitað frá ári til árs, hvaða fé væri til ráðstöfunar í þessu skyni, og þessi reynsla hefur sannfært menn um það, sem hafa kynnt sér þessi mál, að það er óviðunandi að koma ekki þessu fasta formi á, og því meiri nauðsyn er að gera þetta sem upphæðin, sem veita á, er stærri.

Ég efast ekkert um, að það er hægt að úthluta þessum 15 millj. kr. Það er ákaflega auðvelt að verða af með peninga, þannig að ég efast ekkert um, að bæði hæstv. ríkisstj. og hver annar á ósköp auðvelt með að úthluta þeim og losna víð þær. En ég held, að einmitt það, hvað veitt er stór fjárhæð í þessu skyni nú, auki enn þörfina á því, að hér sé unnið að á skipulagsbundinn hátt. Og ég vil mega vænta þess, að það sé ekki ætlunin að gera þetta aðeins eitt ár, heldur um nokkurt árabil, eins og við gerum ráð fyrir í okkar frv., og þá má vænta þess, að hægt verði að leysa með viðunandi aðgerðum atvinnuvandamál hinna ýmsu kaupstaða og byggðarlaga úti um land, sem við erfiðleika eiga að stríða, því að það er vitanlega engin lausn, þó að hægt sé á einu ári eða tveimur árum að verja 100–200 þús. kr. á einn stað, sem getur að vísu orðið til nokkuð mikils gagns, en getur alls ekki leyst þann meginvanda, sem við er að stríða. Og ef það er ætlun hæstv. ríkisstj., sem ég vil ekki á þessu stigi draga neitt í efa, að hún vilji leysa þessi mál á þann hátt, sem bezt komi að gagni, þá held ég, að hún geri það ekki með betra móti en því að láta nú þegar lögfesta það, hvaða skipan eigi að vera á þessum málum, hverjir eigi með þau að fara og eftir hvaða heildarlínum eigi að vinna. Það getur hún gert, annaðhvort með því að samþ. þetta frv. okkar með einhverjum þeim breytingum, sem hún telur nauðsynlegar, eða þá með því að flytja nú á þessu Alþ. frv. um heildarskipulag þessara mála. Og ég vildi mjög mega vænta þess, að hv. frsm. meiri hl. geti upplýst um fyrirætlanir ríkisstj. í þessu efni, því að þótt það sé góðra gjalda vert að treysta ríkisstj., þá álít ég samt, að það sé nauðsynlegt fyrir þm. að fá ákveðin svör frá stjórn sinni um það, — jafnvel stjórnarstuðningsmenn eiga ekki að una öðru, ef þeir hafa áhuga á málum, — hverrar lausnar sé á þeim að vænta og hvenær hennar megi vænta.

Ég vil svo að lokum endurtaka þá fsp., sem hv. 5. þm. Reykv. bar hér fram áðan, hvaða fyrirkomulag sé hugsað að verði á úthlutun þessa fjár nú í ár. Þeir embættismenn, sem áður höfðu úthlutað þessu fé, hafa a.m.k. ekki til skamms tíma vitað, að þeir ættu að annast slíka úthlutun og hafa yfirleitt vísað frá sér, þegar forustumenn sveitarfélaga hafa talað við þá um sín mál, og sagzt ekki hafa hugmynd um, hvernig þessu yrði fyrir komið. Fyrrv. ríkisstj. hafði þann hátt á að fela skrifstofustjórum þriggja rn. að annast þetta, þeirra rn., sem þessi mál mest eðli sínu samkv. heyra undir, og ég held, að í flestum tilfellum hafi þeirra till. verið fylgt. Ég vildi nú a.m.k. mega vænta þess, að þingheimur gæti fengið upplýsingar um það, hvernig er fyrirhugað að ráðstafa þessum 15 millj., þ.e.a.s., hvaða vinnubrögð ríkisstj. hugsar sér að hafa um þá úthlutun og hverjir eiga að meta þær þarfir, sem þar eru fyrir hendi. Þetta vona ég a.m.k. að við getum fengið svar um.

Um það atriði, sem hv. frsm. meiri hl. sagði hér áðan, að það virtist vera aðaláhugamál okkar með samþykkt þessa frv. að koma að einhverri ákveðinni stjórn á þessum sjóði, þá er það auðvitað ekki nema annar aðalþáttur málsins. Það er ekkert aðaláhugamál okkar út af fyrir sig að koma að stjórn, ef hann á við með því, að við viljum koma okkar mönnum þar að með kosningu hér á Alþ. Það er auðvitað í samræmi við það, sem flutt var á síðasta þingi, sú skipan mála, þannig að hún er ekki neitt ný nú, eftir að stjórnarskiptin hafa orðið. Það er tekið upp það atriði úr frv. jafnvægisn. frá síðasta þingi, áður en stjórnarskiptin urðu. En ég held, að hvernig svo sem skipulag verði á þessum málum í framtíðinni, þá hljóti það að verða annar aðalþáttur þess máls, að það verði föst stjórn eða n., sem annast framkvæmdir í þessum málum, þannig að fullt samræmi gæti orðið i þessum vinnubrögðum. Og ég vil endurtaka það, sem ég áðan sagði, að mér finnst það alvarlegasta í þessu máli vera það, að með því að hafa þetta í óvissu algerlegri frá ári til árs, þá notast féð alls ekki sem skyldi. Þetta er þáttur, sem vissulega er þess virði að sé hafður í huga og gerir það að verkum, að það er því brýnni nauðsyn að láta það ekki dragast lengur að setja heildarlöggjöf um þessi mál. Og ég held, að enginn geti talið, að á sér sé réttur brotinn í neinu efni pólitískt séð, þó að Alþingi nú samþykkti þetta frv., sem við höfum lagt hér fram og er byggt á fyrri frv. okkar sjálfstæðismanna annars vegar og hins vegar á meginatriðum frv. jafnvægisnefndarinnar, sem flutt var hér á síðasta þingi, þannig að öll þau sjónarmið, sem hér hafa komið fram á Alþingi um þessi mál, hafa fyllilega verið tekin til greina við samningu þessa frv. Ég vil því endurtaka það, sem ég áðan sagði, að mig undrar mjög, að það skuli nú vera viðhorf þeirrar hæstv. ríkisstj., sem svo mjög hefur talað um áhuga sinn á að koma á jafnvægi og stuðla að jafnvægi í byggð landsins, að hún vilji nú koma í veg fyrir samþykkt þessa frv. og láta sér nægja að halda áfram þeim skýrslugerðum, sem hún er að láta vinna að.