09.11.1956
Neðri deild: 13. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í C-deild Alþingistíðinda. (2986)

18. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Eiríkur Þorsteinsson:

Herra forseti. Sjálfstfl. á Alþingi, sem áður skipaði helming ríkisstj., á nú ekki lengur sæti í henni, heldur stendur hann utan við hana. Afstaða flokksins til málefna á Alþ. hefur tekið stakkaskiptum til samræmis við þessar breyttu kringumstæður hans. Má nú þegar sjá ný viðhorf hv. þingmanna hans til ýmissa mála, og er gott dæmi um það frv. það, er hér liggur fyrir til umr. Það er frv. til l. um breyt. á l. nr. 40 frá 1955, um Fiskveiðasjóð Íslands, flutt af fimm hv. þm. Sjálfstfl. Frv. er um 500% hækkun á framlagi ríkissjóðs til fiskveiðasjóðs.

Það verður að viðurkennast, að betra er seint en aldrei. Það hefur öll undanfarin ár verið mjög aðkallandi að efla fiskveiðasjóðinn og útvega þar með fé til uppbyggingar og aukningar á bátaútvegi landsmanna. Undanfarnar ríkisstjórnir og Alþ. hafa ekki heldur bætt úr brýnni þörf landsmanna fyrir fjölgun togaranna á Vestfjörðum og víðar.

Hv. þm. Eyf. sagði í þingræðu fyrir nokkrum dögum í umræðum um togarafrv. ríkisstj., að byggja þyrfti þrjá togara á ári, til þess að fullnægt væri þörf í landinu. Það er alveg rétt. Það þarf 2–3 nýja togara fyrst um sinn, og það hefur þurft á undanförnum árum. En Sjálfstfl. hefur ekki borið gæfu til að standa fyrir þessari sjálfsögðu árlegu aukningu, enda þótt hann hafi talizt hafa forustu sjávarútvegsmála.

Frv. þau, sem ég og hæstv. núverandi félmrh. höfum flutt um togaraútgerð ríkisins til atvinnujöfnunar, gátu ekki fengið þinglega afgreiðslu í samstjórn við Sjálfstfl. á undanförnum þingum, og tillögur, sem gengu í sömu átt, hafa dagað uppi í sjútvmrn., meðan formaður Sjálfstfl., hv. þm. G-K., var sjútvmrh., án þess að ég sé að halda því fram, að hann, sá ágæti þm., sé á móti því, að togarar séu til. En einhvern veginn var það svo, að ekki lágu lausir peningar í ráðherratíð sjálfstæðismanna undanfarið, hvorki í árlegar byggingar togara né stórum hækkaða styrki til fiskveiðasjóðs.

Áætlaðar tekjur sjóðsins voru árið 1956 vextir af lánum kr. 3.8 millj., áætlaðar afborganir 5 millj. og útflutningsgjöld 7 millj., samtals 15.8 millj. kr., en áætlaðar lánveitingar á árinu eru 28 millj. kr. Árið 1955 voru útlánaþarfir fiskveiðasjóðs 38 millj. kr. Þáverandi hæstv. sjútvmrh., Ólafur Thors, útvegaði það ár aðeins 5 millj. kr. óafturkræfan styrk úr ríkissjóði, og þó voru allar tekjur sjóðsins áætlaðar það ár aðeins 12.4 millj., eða 3.4 millj. lægri en árið 1956, þó að útlánaþörfin væri 10 millj. hærri 1955.

Af þessum augljósu tölum má sjá, að Sjálfstfl. notaði ekki valdaaðstöðu sína sem skyldi fyrir málefni sjávarútvegsins, og það frv., sem hér liggur nú fyrir til umr. í hv. d., er fyrst og fremst vottur iðrunar og yfirbótar þessa flokks. Hvað þá hlið málsins snertir verður frv. að teljast gott, enda túlkar frv. þessa hugsun: Vér vildum meira en vér framkvæmdum, en nú viljum vér bæta fyrir það, sem ógert var.

Samkv. gildandi lögum um Fiskveiðasjóð Íslands hefur sjóðurinn heimild til að taka lán allt að 50 millj. kr. með ríkisábyrgð. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, virðist sjóðurinn ekki hafa notað neitt af þessari heimild, og hefur hún þó verið í lögum um nokkurn tíma. Tel ég sjálfsagt, að n. sú, er fær málið til meðferðar, kynni sér vel, hvaða tilraunir hafa verið gerðar af sjóðsins hálfu til að afla þess lánsfjár, sem hér er um að ræða. En eins og hv. þm. er kunnugt, er stjórn Útvegsbanka Íslands jafnframt stjórn fiskveiðasjóðsins. Er því hugsanlegt, að hv. 1. flm. þessa frv. geti nú þegar gefið upplýsingar um þær tilraunir, sem stjórn sjóðsins hefur gert til að útvega sjóðnum lánsfé, og hvernig þeim hefur reitt af.

Í frv. er lagt til, að framlag ríkissjóðs til fiskveiðasjóðs verði hækkað úr 2 millj. kr. upp í 12 millj. kr. á ári. Auðvitað er full þörf á að auka fjármagn sjóðsins, og vitanlega ber að athuga möguleika á að gera það að einhverju leyti með ríkisframlagi umfram það, sem nú er. Ég skal engu spá um það, hvernig því verði tekið af hv. Alþ. að sexfalda hið árlega ríkisframlag núna, áður en fjárlög verða afgreidd. En hætt er við, að slíkt reynist ekki framkvæmanlegt, nema aðrar hliðstæðar lánsstofnanir atvinnuveganna, t.d. ræktunarsjóður, fái þá jafnframt sín ríkisframlög hækkuð til mikilla muna. Fer þá afgreiðsla að sjálfsögðu nokkuð eftir því, hvort þingið treystist til að spara á öðrum útgjaldaliðum eða afla nýrra tekna með sköttum. Og mér þykir hv. flutningsmenn hafa mikla trú á áhuga núverandi stj. og þingmeirihluta fyrir sjávarútveginum, ef þeir gera sér vonir um, að þessir aðilar verði svo miklu stórtækari á ríkisframlög til fiskveiðasjóðs en þeir, sem áður réðu fyrir þessum málum. Um það skal þó ekki fleira sagt að sinni.

Hitt er svo staðreynd, sem ástæða er til að gefa gaum fyrst og fremst, að fiskveiðasjóður hefur þegar með gildandi lögum rétt til 50 millj. kr. lántöku á ábyrgð ríkissjóðs. Þennan möguleika liggur beinast við að nota, og á það verður að leggja fulla áherzlu. Á þann hátt verða möguleikar sjóðsins til lánveitinga tryggðir í bráðina, sennilega næstu tvö árin a.m.k., eftir fyrirliggjandi upplýsingum. Sjálfur á sjóðurinn mikið eigið fé, sem fer stöðugt vaxandi, og er því í rauninni vel efnuð lánsstofnun, þótt laust fé skorti. Núverandi árlegt framlag ríkissjóðs, 2 millj. kr., mætti nota a.m.k. að einhverju leyti til að greiða vaxtamismun, ef með þyrfti.

Ég vil leyfa mér að beina því til hv. flm. þessa frv., að mér virðist þeir hafa mjög góða aðstöðu til að vinna þessu máli gagn á þann hátt að koma því til leiðar, að fiskveiðasjóður fái – og helzt sem fyrst — þær 50 millj. kr., sem honum er með lögum heimilt að taka að láni og hefur ríkisábyrgð fyrir. Flokkur hv. flutningsmanna hefur meiri hluta í bankaráði og bankastjórn Útvegsbankans, sem fer með stjórn sjóðsins. Útvegsbankinn virðist hafa nokkra aðstöðu til þess að útvega sjóðnum lán með ríkisábyrgð og sennilega lána honum eitthvað sjálfur. a.m.k. í bili. Væri þetta sanngjarnt, því að samkv. reikningum fiskveiðasjóðs hefur sjóðurinn oft og jafnvel að staðaldri um langan tíma átt mikið fé inni í bankanum, um síðustu áramót ekki minna en 22 millj. kr., að því er virðist. Hins vegar verður ekki séð, að bankinn hafi lánað sjóðnum fé. Mér er kunnugt um, að t.d. Búnaðarbankinn eða sparisjóðsdeild hans hefur oft hlaupið undir bagga með ræktunarsjóði og byggingarsjóði, a.m.k. til bráðabirgða, og er ekki óeðlilegt, að Útvegsbankinn gerði hið sama öðru hverju.

Þá er á það að líta, að Sjálfstfl. hefur einnig meiri hluta í bankaráði og bankastjórn Landsbankans. Þar hafa því flm. frv. einnig mjög góða aðstöðu til að stuðla að því, að fiskveiðasjóður geti notað lánsheimild sína, annaðhvort með því að Landsbankinn láni fé eða útvegi það. Eins og hv. flm. vita, eru tveir af þm. Sjálfstfl. í bankaráði Landsbankans, og er annar þeirra formaður flokksins og fyrrverandi sjútvmrh., en fyrsti flm. þessa frv. er í bankastjórn Útvegsbankans, eins og ég sagði áðan.

Ég vil því þegar á þessu stigi málsins heita á hv. flutningsmenn þessa frv. að nota meirihlutaaðstöðu flokksins og persónulega aðstöðu sína og flokksmanna sinna í Landsbankanum og Útvegsbankanum til að stuðla að því, að fiskveiðasjóður fái sem allra fyrst þær 50 millj. kr. að láni, sem honum er leyfilegt að taka og hefur ríkisábyrgð fyrir. Þar með væri vandinn leystur í bráðina. Varðandi frekari framtíðarúrræði hygg ég farsælast, að hæstv. ríkisstj. fái ráðrúm til að fjalla um það mál og gera um það tillögur að athuguðu máli.