09.11.1956
Neðri deild: 13. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í C-deild Alþingistíðinda. (2988)

18. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Eiríkur Þorsteinsson:

Herra forseti. Mér fannst nú sú ræða, sem ég flutti hér áðan, vera frekar meinleysisleg. Ég verð að líta þannig á, en hún gat samt farið mjög í taugarnar á hv. 5. þm. Reykv. (JóhH), 1. flm. þess frv., sem ég minntist á hér. Ég get ekki verið að eltast við hans persónulegu sjónarmið gagnvart mér eða því, hvort Vestur-Ísfirðingar hafi viljað mig á þing. Ég geri ráð fyrir því, að þeir hafi viljað mig svipað og Reykvíkingar vilja hann. Ég get búizt við því. Ég veit ósköp vel, að þeir vilja ekki allir þennan hv. þm., þó að hann sé kosinn með miklu atkvæðamagni, vegna aðstöðu sinnar á flokkslista í Rvík, og ég held, að við ættum að spara okkur frekari umr. um okkur persónulega. Ég sé ekki, að það geri þessu máli nokkurt gagn.

Ég skal taka það alveg skýrt fram, að ég kom aðeins hér fram með mín sjónarmið á málinu, og ég geri ráð fyrir því, að ég greiði því atkv. hér við 1. umr., svo að það geti farið til athugunar í nefnd. Ég benti líka á atriði, sem ég vildi að n., sem fjallaði um málið, tæki til athugunar. Það gæti vel verið, að frv. gæti komið þannig frá n., að það yrði þess virði, að því yrði veitt full afgreiðsla í hv. þingdeild.

Ég þarf ekki að lengja mál mitt. Ég hygg, að því sé flestu ósvarað, sem ég beindi til hv. 5. þm. Reykv., sem er 1. flm. að frv. Ég geri ráð fyrir því, að hann telji sig hafa svarað því, en við höfum allt aðrar skoðanir á þessu máli, eins og kom fram í minni framsöguræðu.