19.03.1957
Neðri deild: 70. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í C-deild Alþingistíðinda. (2993)

18. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Mál það, sem hér liggur fyrir, var flutt í þingbyrjun, eitt af fyrri málum þingsins, 18. mál, og hefur nú nýverið verið skilað um það nál. Það hefur þess vegna tekið furðulangan tíma athugun málsins í nefnd. En við því væri í sjálfu sér ekkert að segja, ef árangurinn væri í hlutfalli við þann langa tíma, sem n. hefur haft til meðferðar til þess að fjalla um málið. En ég verð því miður að segja, að það eru hljóðir og hógværir menn í meiri hl. sjútvn., miðað við þær till., sem þeir gera nú í sínu nál., og með vísun til ræðu frsm. n., og það er dálítið broslegt, að það eru einmitt kommúnistar, sem nú eru notaðir til þess að hafa framsögu fyrir því, að það megi nú vissulega hugsa sér að greiða úr lánsþörf fiskveiðasjóðs og annarra atvinnugreina öðruvísi en að taka fé úr ríkissjóði, því að sannarlega geti hitt komið til greina, eins og frsm. meiri hl. sagði, að úr öllu þessu mætti nú bæta eins vel með lánsfé. Öðruvísi mér áður brá, og hef ég stundum séð bæði þennan hv. þm. og aðra fulltrúa kommúnista skeleggari hér í kröfum sínum fyrir nauðsyn þess, að ríkissjóður legði fé af mörkum, og einmitt þegar vei hefur árað. eins og undanfarið hefur verið, til þess að leggja nokkuð til aðalundirstöðuatvinnuvega landsmanna.

Ég minni nú á það, að við afgreiðslu fjárlaga — og hér talar frsm. meiri hl. Sjútvn., sem er einnig formaður fjvn. — voru hækkuð framlög til landbúnaðarins um 18 millj. kr. Þá voru hækkuð framlög til raforkuframkvæmda um 11 millj. kr., og þá voru hækkuð framlög til atvinnuaukningar eða jafnvægis í byggð landsins um 10 millj. kr. En það þykir ofrausn nú, þegar allir viðurkenna og sjá, — og um það er enginn ágreiningur á milli fulltrúa minni og meiri hlutans hér á þingi, — þegar allir sjá, hver nauðsynin er, þá þykir ofrausn að verja nokkru meira fé úr ríkissjóði en verið hefur til fiskveiðasjóðs.

Nú er það svo, að framlagið til fiskveiðasjóðs var með l. frá 1954 eða 1955 ákveðið 2 millj. kr. á ári, og mér er kunnugt um það, að margir þm. höfðu hug á því þá, þó að ég hafi nú ekki gáð að því, hvort um það hafi verið fluttar till., að hækka þetta framlag og töldu við afgreiðslu málsins, að það væri allt of skammt gengið. Á það er bent í grg. fyrir frv. okkar, því sem hér liggur fyrir, að þegar þessi sjóður er orðinn hálfrar aldar gamall, þá er það svo, að af rúmlega 100 millj. kr., sem sjóðurinn hefur haft i tekjur á þessari hálfu öld, hafa aðeins rúmar 11 millj. kr. runnið beint frá ríkissjóði, en hins vegar sjóðurinn byggt sig algerlega upp af framlögum frá sjávarútveginum sjálfum, sem hann hefur það höfuðverkefni að styrkja.

Ég held þess vegna, að það verði ekki talin ofrausn, þó að hækkað væri ríkisframlagið til þessa sjóðs. En um hitt, eins og ég sagði, eru engar deilur, nauðsynina á því, að tekjur sjóðsins aukist.

Ég vil benda á, að hv. meiri hl. segir í sínu nál., að tvennt hafi gerzt síðan frv. var flutt: annað, að gefin hafi verið eftir 10 millj. kr. lán til fiskveiðasjóðs af tekjuafgangi 1955, og hitt er svo það, að ríkisstj. muni hafa látið sjóðnum í té 10 millj. kr. lán nú um áramótin. Ja, það eru nú ekki mikil tíðindi eða stór, sem í því felast, að fiskveiðasjóði hafi verið gefnar eftir þessar 10 millj. kr., sem lagðar voru fram af tekjuafgangi 1955, og mig langar til þess að minna á, að þegar þetta mál var til meðferðar hér á þinginu í fyrra, lagði ég til í ræðu, að allt yrði veitt sem óafturkræf framlög, bæði framlagið til fiskveiðasjóðs, ræktunarsjóðs og annarra sjóða, sem þá var um að ræða, og boðaði tillöguflutning í því efni. En hæstv. þáverandi forsrh., sem hafði eins og allir góðir forsrh. hug á því að halda sinni stjórn saman, hringdi til mín í þinghléi og taldi, að það væri mjög orðið valt fylgi stj., með vísun til þess, sem hæstv. fjmrh. hefði sagt, er hann frétti um þennan tillöguflutning, ef það kæmi fram, að nú ætti að fara að gefa eftir þessi lán og veita þau sem óafturkræf framlög, og sem góður og traustur stuðningsmaður þáverandi hæstv. ríkisstj. varð ég við mjög ákveðinni beiðni um að bera ekki fram till. um, að þessi lán til sjóðanna skyldu verða óafturkræf framlög. Það var fyrst og fremst fyrir tilmæli hæstv. fjmrh.

En það kom svo í ljós, þegar fjárl. voru lögð fram hér í haust, að hann hafði ætlað öðrum það hlutverk að leggja til, að þessi lán yrðu óafturkræf framlög, því að þá bar hæstv. fjmrh. það fram sjálfur, að þessar fjárfúlgur, sem áður höfðu verið veittar sem lán, yrðu óafturkræf framlög. Það hefur þess vegna ekki mikið gerzt í þessu máli, frá því að þetta frv. var flutt í byrjun þingsins.

Það var sýnt fram á það með rökum strax í öndverðu á síðastliðnu þingi, að það væri eðlilegt og sjálfsagt, að þessar fjárveitingar væru óafturkræf framlög, og á það var svo fallizt með þeim hætti, sem ég hef greint frá.

Um hitt, að síðan þetta frv. var flutt, hafi ríkisstj. látið fiskveiðasjóði í té 10 millj. kr., þá er það rétt. En um það vil ég segja, að þegar frv. þetta var flutt, segir í grg., að enda þótt framlagið úr ríkissjóði verði samþykkt, þá muni það ekki nægja, nema jafnframt sé notuð lánsheimild fiskveiðasjóðslaganna, lánsheimild, sem nemur 50 millj. kr., svo að það er engin breyting á því, að þegar frv. er flutt, er gert ráð fyrir nauðsyn þess að fá þetta framlag úr ríkissjóði og jafnframt, að mögulegt verði að nota lánsheimild fiskveiðasjóðslaganna, allt að 50 millj. kr. Þessi 10 millj. kr. lánsheimild eða lánveiting, ef svo má kalla það, eða boðaða lánveiting — og sjóðnum hefur verið látið þetta fé óbeint í té þegar — er því í raun og veru alveg í samræmi við það og ekki nema hluti af því, sem flm. frv. telja að nauðsynlegt sé og ég held allir viðurkenna að sjóðnum verði aflað af lánsfé.

En hvernig eru svo horfur þessa sjóðs og annarra um að fá lánsfé? Og þá vil ég vekja athygli á því, að allt frá 1954 að hausti til hafa stjórnarvöldin í þessu landi verið að leita eftir erlendu lánsfé, fyrst og fremst fyrir fjórar greinar, þ.e. fiskveiðasjóðinn, ræktunarsjóðinn, frystihúsabyggingar og hafnargerðir. Hefur einkum verið leitað hófanna hjá Alþjóðabankanum um lánsfé til þessara framkvæmda, og allan þennan tíma hefur fiskveiðasjóður byggt vonir sínar á því, að takast mætti að afla þessa lánsfjár. Og þar sem sú staðreynd liggur fyrir, að það hefur ekki enn tekizt, eru það vissulega framlögin á undanförnum árum af tekjuafgangi 1954–55, sem hafa orðið þess valdandi, að ekki hefur átt sér stað beinlínis greiðsluskortur hjá sjóðnum. Nú er upplýst hér, að sjóðnum sé látinn í té möguleiki á 10 millj. kr. láni, en þá verða menn að gera sér grein fyrir því, að þetta mun eiga að verða hluti, eftir því sem mér skilst, þó að enn sé ekki frá því gengið, af 4 millj. dollara láni, sem hæstv. ríkisstj. tók um áramótin í Bandaríkjunum fyrir milligöngu bandarískra stjórnarvalda. Og menn hafa verið undanfarna mánuði á höttunum eftir meira fé frá sömu slóðum. Þá verður spurningin: Er þá eftir nokkur möguleiki til þess, að fiskveiðasjóður og aðrir sjóðir geti fengið lánsfé á þeim slóðum, sem leitað hefur verið eftir, í Alþjóðabankanum til dæmis eða annars staðar, þegar þessar lánveitingar hafa átt sér stað? Ég held, að við verðum því miður að gera okkur grein fyrir því, að þeir lánsmöguleikar eru með lántökunni, þessari 4 millj. dollara lántöku um áramótin, og væntanlegri lántöku í Sogsvirkjunina, algerlega útilokaðir, eftir því sem ég bezt veit. Ég þekki að vísu ekki vel til á austurslóðum, og maður les það í Þjóðviljanum undanfarna daga, að látið er i það skina, að það sé að vísu til nægjanlegt lánsfé, eins og ég sagði. Ég er því ekki kunnugur, hvað þar er við átt, og það mundi þá væntanlega upplýsast í þessum umræðum, og væri vel, ef rétt væri frá greint og við byggjum ekki raunverulega við þann lánsfjárskort, sem ég vék að.

Þetta er nú almennt um þetta mál. Um nauðsyn málsins virðist ekki vera neinn ágreiningur. Hins vegar telja hv. stjórnarsinnar, að það sé ekki ástæða til, eins og nú standa sakir, að leggja þær byrðar á ríkissjóðinn að efla þennan stofnlánasjóð sjávarútvegsins og bátaútvegsins, og þeir þá um það. Ég sé, að þeir segja frá því í sínu nál., að það sé kunnugt, að ríkisstj. undirbúi frv. til breyt. á l. um Fiskveiðasjóð Íslands. Ekki hefur komið neitt fram hér í umr. um það, hvað hér er um að ræða. Mér er kunnugt um það sem einn af stjórnendum fiskveiðasjóðs, að hæstv. sjútvmrh. hefur haft áhuga fyrir því að efla sjóðinn og átt viðræður við sjóðsstjórnina um möguleika til þess, og hefur í því sambandi komið upp ákveðin hugmynd um að auka tekjur sjóðsins af útflutningsgjaldinu. Það, sem þar var rætt um, var saltfiskurinn, sem fram að þessu hefur verið undanþeginn útflutningsgjaldi, að á hann yrði lagt eins og aðrar útflutningsgreinar útflutningsgjald, sem rynni til fiskveiðasjóðs og gæti numið 2–3 millj. kr. með sömu aflabrögðum og verið hefur. Verði þessi hugmynd gerð að veruleika eða þessar hugleiðingar, á sjóðurinn þar von í 2–3 millj. kr. En það ber þá enn að sama brunni, að tekið er af sjálfri útflutningsframleiðslunni, sem sjóðurinn á að efla, og hlutfallslega minnkar þá enn framlag ríkissjóðsins sjálfs til þessa mjög svo þýðingarmikla stofnsjóðs útgerðarinnar.

Ef aðstaða saltfisksframleiðenda er talin vera það miklu hagstæðari nú en hún var, þegar þeir voru undanþegnir þessu útflutningsgjaldi, — og ég vildi vona, að svo mætti reynast, þá ætti að mega vænta, skilst mér, þarna nokkurrar frekari tekjuöflunar fyrir sjóðinn. En að öðru leyti hefur þetta, eins og ég segi, ekki verið upplýst í umræðunum.

En það er einnig á það, að benda, sem fram kom hjá hv. þm. Snæf. (SÁ), að miðað við alla tekjuöflun og þörf sjóðsins er í raun og veru í því, sem fram kemur og fram hefur komið í máli manna hér og í grg., sem fylgir frv., gengið fram hjá verulegum atriðum, að sjóðurinn hefur ekki getað sinnt mjög veigamiklum þáttum verkefnis síns. Hann nefndi verbúðabyggingarnar, og ég vildi bæta við síldarsöltunarstöðvunum. Það er kunnugt, að þær eru að verulegu leyti úr sér að ganga og eiga ekki í nein hús að venda með lánsfé. Hins vegar hlýtur mönnum að vera það ljóst, að miðað við þá stórkostlegu uppbyggingu bátaflotans á undanförnum árum vaxa stöðugt kröfurnar til meiri framkvæmda í landi og ekki sízt verbúða. Ég var fyrir nokkrum dögum suður með sjó í verstöðvunum hér, og þar eru nú að rísa upp á einstaka stað verbúðir, sem bera vitni hins nýja tíma og þeirrar velmegunar, sem við Íslendingar höfum átt við að búa að undanförnu. En að langmestu leyti býr það fólk, sem vinnur að þessum undirstöðuatvinnuvegi þjóðarbúsins, bátaútveginum, við hörmuleg kjör og aðstöðu, sem ekki má lengur vera óbreytt, og ekki er hægt að búast við að fáist fólk til þess bæði að vinna á bátunum og við bátana, ef ekki verður úr bætt.

Menn sjá á þeim skýrslum, sem hér liggja fyrir, að það er ekki nema örlítið fjármagn, sem fiskveiðasjóður hefur verið fær um að leggja til þessara framkvæmda að undanförnu. Það var okkur í stjórn fiskveiðasjóðs til mikillar ánægju að hafa þó að litlu leyti getað stuðlað að því, að upp hafa komizt, eins og ég sagði, á stöku stöðum myndarlegar og mannsæmandi verbúðir. En það standa á sjóðnum spjót í þessum efnum úr öllum áttum, og horfir til stórkostlegra vandræða, ef ekki tekst úr að bæta.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð. Ég geri ráð fyrir því, að það verði ekki við ráðið vald meiri hlutans hér á þingi í þessu máli fremur en öðrum og málinu verði þess vegna að till. meiri hl. vísað til ríkisstj. Þess er þá aðeins að vænta, að bæði þessi málflutningur og annar og barátta minni hl. sjútvn. fyrir þessu máli verði til þess, að hæstv. ríkisstj., áður en þingi lýkur, láti þá í einhverri annarri mynd til sín taka um efling fiskveiðasjóðsins, eins og gefið er undir fótinn um í nál. meiri hlutans.