19.03.1957
Neðri deild: 70. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í C-deild Alþingistíðinda. (2994)

18. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, 5. þm. Reykv., hafði nú yfir ýmsu að hneykslast í málflutningi meiri hl. n. og mínum málflutningi sem frsm. þess meiri hl., að hér væri farið vægt í sakirnar og tekið linlega á af nm., sem hann vildi ætla að bæru ekki slæman hug til þessa sjóðs. Ég er honum sammála um, að það er alveg ástæðulaust að efast um velvild meiri hl. í garð þessa sjóðs, þótt hann leggi ekki til, að frv. verði samþ. eins og það liggur nú fyrir.

Í þessu sambandi vil ég enn árétta það, sem ég sagði hér í framsöguræðu minni, að ríkisstj. hefur mál fiskveiðasjóðs til sérstakrar athugunar. Eins og allir vita, var það stofnlánadeild sjávarútvegsins, sem veitti lánin fyrir þeim stóru fiskiskipum, sem hér voru keypt á umliðnum árum, fyrir togurunum. Sú deild er nú niður lögð að því leyti, að hún lánar ekki út meira. Hún krefur eingöngu inn sitt fé og er þess vegna óvirk sem lánastofnun. Hvíla því í rauninni eingöngu á fiskveiðasjóði þau lán, sem veitt eru til fiskiskipakaupa, og er ekkert líklegra en svo hljóti að verða einnig þó að keypt verði stór skip eins og togarar, eða þegar að því kemur. Það er þess vegna alveg greinilegt, að lögin um fiskveiðasjóð þarf að endurskoða. Þau eru að ýmsu bundin og takmarkaðri en hægt er að hafa þau í framkvæmd, þegar um það er að ræða að gera veruleg innkaup á fiskiskipum. Og að því er varðar lánveitingar til vinnslustöðvanna, þá eru þær bundnar í lögum við upphæðir, sem á sínum tíma voru nokkru meira virði en þær eru nú. Það er sem sagt alveg greinilegt, að það verður að hækka hámörk fjárveitinga til þeirra, ef fiskveiðasjóður á að standa undir svipuðum hluta af lánsfjárþörf slíkra fyrirtækja og honum var ætlað að gera, þegar lög um hann voru ákveðin.

Þegar svo stendur á, að sérstök athugun fer fram á þessum málum á vegum ríkisstj., og þegar það liggur svo fyrir, að til bráðabirgða hefur verið fullnægt því, sem frv. fer fram á, þ.e.a.s., að þessum sjóði hefur verið fengið 10 millj. kr. aukið lánsfé, frá því að frv. var lagt fram, og sömuleiðis hefur ríkissjóður gefið eftir eða breytt úr láni í óafturkræft framlag 10 millj. kr., sem sjóðnum voru veittar af tekjuafgangi ríkissjóðs fyrir 1955, þá sýnist mér sem ærin ástæða sé til, að ríkisstj. fái um þetta frv. að fjalla, fái að brjóta heilann um það, hvernig eigi að leysa þessi mál í sambandi við önnur vandamál þessa sjóðs. Og þegar sá hv. þm., sem lýsir því hér yfir, að hann hafi fyrir bænakvak úr einum flokksbróður sínum látið niður falla að gera till., sem honum fundust nauðsynlegar um þennan sjóð, — þegar sá sami þm. og í þeirri sömu ræðu sem hann lýsir þessu yfir talar um það, að aðrir menn séu smáir í sniðum í baráttu sinni fyrir þessum sjóði, þá held ég, að hann ætti að líta í eigin barm og hugsa málið út frá því, hvort hans barátta fyrir þessu máli hafi á sinni tíð verið ýkja hetjuleg, þegar hann féll frá að flytja þá till., sem hann hafði boðað, út af því, að flokksbróðir hans í ríkisstj. hafði sagt honum, að nú kurraði í Eysteini eða eitthvað þess háttar. Ég skal lýsa því hér enn yfir, að af minni hálfu og væntanlega okkar allra, sem að nál. meiri hl. stöndum, er full ástæða til þess að líta á málefni fiskveiðasjóðs með mikilli velvild af ríkisins hálfu.

Ég vil undirstrika það, að í okkar till. um að vísa þessu til ríkisstj. felst á engan hátt, að við viljum tefja fyrir góðri lausn málsins, heldur hitt, að okkur þykir eðlilegt, að þetta lánamál eða þessi fjárþörf fiskveiðasjóðs sé skoðuð í sambandi við aðra hluti, sem ríkisstj. einmitt hefur á döfinni, og í fullu trausti þess, að vel verði fyrir málunum séð, er okkar till. sú, að ríkisstj. verði látin fjalla um málið.