15.10.1956
Sameinað þing: 1. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

Rannsókn kjörbréfa

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það kom hér fram í upphafi ræðu hv. 1. þm. Reykv. fsp. til mín um það, hverju sætti, að dómsmrn. hefði ekki sent Alþ. kæru Alþýðubandalagsins yfir kosningunum í Suður-Múlasýslu. Þær ástæður liggja til þess, að kæran hafði verið tekin til baka, áður en Alþ. hóf störf sín, og var kæran þar af leiðandi ekki send hingað.

Ég vil svo, herra forseti, nota þetta tækifæri, um leið og ég svara þessari fsp., til þess að óska eftir, að þessum fundi verði haldið áfram í dag og helzt svo lengi, að hægt sé að ljúka umræðum um þetta mál í dag. Þannig er því fullnægt, að alþingismenn geti talað um þetta mál að sinni vild, en jafnframt komið í veg fyrir, að störf Alþ. dragist úr hófi fram.

Ég ætla svo ekki að taka þátt í þessum umr. á þessu stigi, því að mér virðist satt að segja, að ég hafi heyrt öll þau rök, sem komið hafa fram hér með málinu og móti, hvert einasta, áður á pólitískum fundum í sumar og í blöðum, Hins vegar er langt frá því, að ég vilji amast við þessum umræðum, eins og kemur fram af framangreindri ósk minni til forseta.