07.05.1957
Efri deild: 95. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í C-deild Alþingistíðinda. (3007)

141. mál, sjúkrahúsasjóður og talnahappdrætti

Frsm. meiri hl. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft til athugunar frv. til l. um sjúkrahúsasjóð og heimild fyrir ríkisstj. til þess að setja á stofn talnahappdrætti. Gat nefndin ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. hennar telur sig ekki geta mælt með samþykkt frv. í þeirri mynd, sem það er, og á þessu stigi málsins og leggur til, að frv. verði vísað til hæstv. ríkisstj. í trausti þess, að hún láti fram fara athugun á efni þess. Minni hl. n. mun hins vegar leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Við umræðu innan n. um frv. þetta kom fram efasemd um, að talnahappdrætti, sem er ein tegund getraunahappdrættis, væri heppilegt hér á landi. Mun ástæðan til þeirrar efasemdar sú, að íþróttamenn starfræktu hér um nokkurra ára skeið getraunahappdrætti, að vísu í öðru formi, en það happdrætti gekk illa og skilaði litlum eða engum arði. Hefur sú slæma reynsla með réttu eða röngu gert margan manninn vantrúaðan á getraunahappdrætti yfirleitt. Einnig kom sú skoðun fram á fundum n., að það væri máske að bera í bakkafullan lækinn að stofna til rekstrar nýs happdrættis, þar eð þrjár stofnanir í landinu Háskóli Íslands, S.Í.B.S. og D.A.S., hefðu þegar með höndum hver um sig fastan og stórfelldan happdrættisrekstur. Tvær þessara stofnana verja happdrættiságóða sínum í byggingu heilbrigðisstöðva, sem sé vinnuhæll berklasjúklinga í Reykjalundi og elliheimill sjómanna í Reykjavík. Sú spurning var fram borin í n., hvort ekki mundu möguleikar á að sameina í náinni framtíð happdrætti sambands berklasjúklinga og elliheimilis sjómanna ríkishappdrætti því, sem frv. ráðgerir, enda ættu þessir aðilar allir óneitanlega skyldu hlutverki að gegna. Þessari spurningu vísaði n. síðan til stjórna S.Í.B.S. og D.A.S. og fékk hjá þeim svör þess efnis, að slíkri sameiningu væru þessi fyrirtæki mjög andvíg.

Í svari stjórnar D.A.S. er á það bent, að enn vanti rúmi. 20 millj. kr. til að ljúka byggingu elliheimilis sjómanna og það yrði þeim framkvæmdum til tjóns að breyta frá núverandi rekstrarfyrirkomulagi happdrættis þess. Álit stjórnar S.Í.B.S. er á þá leið, að verði slík sameining framkvæmd, þá hljóti hún að draga stórlega úr þeim tekjum, sem áðurnefnd tvö félög hafa haft af happdrættisstarfsemi sinni, því að næsta ólíklegt verði að teljast, að happdrætti í þeirri mynd, sem frv. á þskj. 375 gerir ráð fyrir, muni takast að ná viðlíka miklum viðskiptum og hvort áðurnefndra fyrirtækja fyrir sig hefur nú.

Í svörum beggja stjórna er á það minnt, að áður hafi hér verið rekið getraunahappdrætti með áþekku sniði og um ræðir í frv. og gefi sú reynsla, sem af því fékkst, engan veginn tilefni til bjartsýni um gróðavænlegan rekstur á slíkri starfsemi. Þetta er álit manna, sem reynslu hafa í happdrættisrekstri, á talnahappdrætti því, sem gert er ráð fyrir í frv.

Mín persónulega skoðun er sú, að hugmyndin um ríkishappdrætti til ágóða byggingu sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana sé góð og þurfi að komast í framkvæmd í náinni framtíð. Vorið 1954 var kosin mþn. í heilbrigðismálum, og áttu sæti í henni læknarnir Páll Kolka, Esra Pétursson og Alfreð Gíslason. Skilaði nefndin áliti um haustið, og var þar einmitt stungið upp á ríkishappdrætti sem föstum tekjustofni sjúkrahúsa. Var sérstaklega bent á fordæmi Íra, sem láti allar tekjur af ríkishappdrætti sínu renna til sjúkrahúsa og hafi þannig komið spítalamálum sínum í fyrirmyndarhorf þrátt fyrir fátækt íbúanna. Þetta fordæmi tel ég athyglisvert og til athugunar fyrir okkur Íslendinga.

Ef til vill á vantrúin á getraunahappdrætti ekki fullan rétt á sér. Í Vestur-Þýzkalandi mun talnahappdrætti ganga vel. En þessi vantrú er þó ekki tilefnislaus, þar eð slæm reynsla varð af happdrætti svipaðrar tegundar hér á landi. Hefur sú reynsla óneitanlega haft nokkur áhrif á afstöðuna til frv. í heild. Það er einnig mín persónulega skoðun, að sameina eigi væntanlegu ríkishappdrætti til ágóða fyrir heilbrigðisstofnanir landsins happdrætti sambands berklasjúklinga og happdrætti elliheimilis sjómanna. Þrískiptur happdrættisrekstur hlýtur að vera miklu dýrari en samræmdur rekstur undir einni stjórn, og þegar um skyld verkefni er að ræða, eins og hér er, þá er ástæðulaust, að hver bauki í sínu horni í stað þess að vinna að málum í heild. Það er að mínum dómi ótækt að vera að stofna til stórfellds margra ára happdrættisrekstrar um hverja heilbrigðis- eða mannúðarstofnun, sem reist verður, og nær að sameina það allt í einn myndarlegan ríkisrekstur. Með því mundi einnig betur tryggt, að heilbrigðisstofnanir yrðu reistar í samræmi við þarfir þjóðarinnar hverju sinni, en ekki af handahófi. Þó virðist enn ekki vera jarðvegur fyrir slíka sameiningu, og er það ein ástæðan fyrir því, að ég er hlynntur því, að allt þetta mál verði athugað nánar og ákvörðun ekki tekin að þessu sinni.