02.04.1957
Neðri deild: 79. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (3016)

145. mál, jarðhiti

Á þessu stigi hefur mér ekki gefizt — og ég býst ekki við öðrum hv. þm. — tækifæri til þess að athuga þennan frv:

bálk, sem er allmikill að vöxtum, svo sem gera mátti ráð fyrir, og því kann vel að vera, að í þessu frv. séu ýmis ákvæði, sem kunna að orka tvímælis og kynni að vera heppilegt að hafa á annan veg. Það er hins vegar ekki aðalatriði málsins. Það hlýtur að vera hægt að lokum að finna einhvern grundvöll til samkomulags um það atriði. Hitt er kjarni málsins, að þessum jarðhitamálum verði komið í sem fastast form, sem geti lagt grundvöll að enn víðtækari aðgerðum til hagnýtingar jarðhita en til þessa hafa verið gerðar. Er það þó svo, að jarðhiti hefur þegar verið hagnýttur á ýmsan máta og fyrst og fremst í sambandi við hitaveitur, og hefur sú hagnýting skilað þjóðfélaginu mjög miklum verðmætum í gjaldeyrissparnaði og auk þess veitt því fólki, sem þessara þæginda nýtur, mjög mikilsverð aukin lífsþægindi.

Jarðhitinn er ein þeirra orkulinda, sem íslenzk náttúra hefur að bjóða. Við höfum hér hvorki olíu né kol, en í stað þess höfum við möguleika til þess annars vegar að hagnýta vatnsorku landsins til þess að framleiða rafmagn og í sambandi við það að fá bæði hita og orku, sem leggi grundvöll að margvíslegum iðnaði í landinu, og svo hins vegar jarðhitann, sem er orkugjafi, er ætla má að hagnýta megi til ýmiss konar þarfa og geti orðið fullkomlega jafngildi olíu og kola í allmörgum tilfellum.

Það er engum efa bundið, að það er hið mikilvægasta nauðsynjamál fyrir þjóðina, að hægt sé sem allra bezt að hagnýta jarðhitann. Það er auðvitað með hann eins og aðrar orkulindir, sem hagnýta skal í stórum stíl, að það kostar mikið fé og getur oft verið erfitt um vík þess vegna að hagnýta þessi náttúruauðæfi svo sem þyrfti. Það er eitt af þeim vandamálum, sem við eigum við að stríða, hvernig við getum fengið fjármagn til þess að koma hér á stóriðnaði og stórrekstri í ýmsum greinum, bæði í sambandi við raforku og jarðhita. En það að setja löggjöf um þetta efni, skipuleggja enn betur en gert hefur verið rannsóknir á hagnýtingu jarðhita og leit að hitasvæðum og mælingu þeirra er mjög mikilvægt atriði og ekki síður að koma á föstu skipulagi með jarðborunum, sem í ýmsum tilfellum hafur leitt til vandræða að ekki hafa gilt nægilega fastar reglur um. Að þessu öllu samanlögðu og hversu hér er um mikilvægt þjóðhagslegt mál að ræða, þá er það gleðiefni, hversu miðað hefur með undirbúning þessarar löggjafar, og vil ég því taka undir það með hæstv. ráðh., að þess er að vænta, að löggjöf þessi fái hér meðferð, svo sem þurfa þykir, og verði íhuguð í einstökum atriðum, en hins vegar leitazt við að hraða afgreiðslu hennar, svo sem kostur er á. Það er auðvitað ekkert grundvallaratriði, að hún verði afgreidd á þessu þingi. Höfuðatriði málsins er það, að hún verði rækilega og vandlega íhuguð og þannig úr garði gerð, að hún þjóni til hlítar því hlutverki, sem henni er ætlað að þjóna. Það skiptir mestu máli, og er þess að vænta, að sú hv. n., sem fær málið til meðferðar, íhugi það sem vendilegast og það verði reynt að ganga þannig frá málinu, að það geti til hlítar fullnægt þeim kröfum, sem gera þarf til slíkrar löggjafar.