02.04.1957
Neðri deild: 79. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í C-deild Alþingistíðinda. (3017)

145. mál, jarðhiti

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég segi nú eins og hv. síðasti ræðumaður, að ég hef enga aðstöðu eða tíma haft til að kynna mér efni þessa frumvarpsbálks, sem hér er á ferðinni og nýlega fram lagður. En þetta mun hafa verið um alllangt árabil verulega alvarlegt íhugunarefni, hvað við Íslendingar höfum verið vanbúnir að löggjafarákvæðum um jarðhita og jarðhitaréttindi. Það er þess vegna orðið tímabært, enda liggja fyrir nokkuð gamlar samþykktir frá þinginu um það, að Alþ. freisti þess að koma á laggirnar löggjöf um þetta atriði.

Ég vildi á þessu stigi málsins aðeins láta í ljós, að ég tel eiginlega með öllu alveg óhugsandi, að frv. eins og þetta geti náð samþykki þess þings, sem nú situr og á ekki eftir langan tíma. Þessu frv. fylgir ýtarleg grg., sem ákveðnir menn hafa verið til kvaddir af ríkisstj. til þess að semja í sambandi við frv. Og það getur vel verið, án þess að ég hafi fest augu á það enn, að samvinna hafi verið höfð eða leitað álits Reykjavíkurbæjar í þessu sambandi. En ég nefni það sérstaklega vegna þess, að langstórvægilegastar jarðboranir og jarðhitanotkun hefur átt sér stað einmitt hér í höfuðstað landsins. Ég tel þess vegna alveg nauðsynlegt, að hv. þn., sem fær málið til athugunar, gefi bæjarstjórn Reykjavíkur og þeim aðilum, sem um þessi mál fjalla hjá bæjarstjórninni, hitaveitustjórninni og hitaveitunefnd og sérfræðingum bæjarins í þessu efni, aðstöðu til þess að tjá sig um þetta mál. Ég hef sem bæjarfulltrúi í Reykjavík um nokkuð langt árabil oft verið í þeirri aðstöðu, að bæjarráð hefur fjallað um mikilvægi þessa máls, þó hins vegar að það sé rétt, að af hálfu bæjarstjórnar hafi ekki legið neinar ákveðnar tillögur fyrir í sambandi við löggjöf um þetta mikilvæga atriði. Á þessu stigi málsins vildi ég aðeins láta fram koma þessar athugasemdir.

Það er langveigamest, að löggjöf, sem upp úr þessu frv. kann að spretta, verði vel úr garði gerð, þegar að því kemur, en miklu minna máli skiptir hitt, hvort það er einu þingi fyrr eða síðar, þó að ég taki undir með bæði hæstv. forsrh. og hv. 2. þm. Eyf., að málið sé að vissu leyti orðið aðkallandi að komast í höfn. Ég tel ekki, að að svo stöddu sé ástæða til fleiri athugana um þetta, því að efnislega treysti ég mér ekki á þessu stigi málsins til að ræða frv., en vildi láta þessi sjónarmið fram koma.