10.05.1957
Efri deild: 97. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í C-deild Alþingistíðinda. (3026)

29. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Þegar fjhn. fékk þetta frv. til meðferðar, leitaði hún m.a. upplýsinga og umsagnar hjá Félagi ísl. iðnrekenda um málið. Það óskaði eftir ýmsum breyt. á frv., sem n. hefur þó sem heild ekki talið ástæðu til að taka upp. En þó að margar þessar till. félagsins hafi töluvert til síns máls, virðist mér þó eitt atriði í þeim sérstaklega réttmætt og hef því flutt brtt. á þskj. 512 um það efni.

Það er ákveðið svo í 3. gr., II. kafla, 1. tölul., þessa frv., að vörumagnsgjald skuli vera 693 aurar af hreinu súkkulaði alls konar, iðnsúkkulaði og suðusúkkulaði, sem hefur allt að 28% fituinnihald og er selt í 150 g umbúðum eða stærri. Þetta niðurlag, skilyrðið, að umbúðirnar séu 150 g eða stærri, er nýmæli og breyting frá gildandi lögum. Ef suðusúkkulaði er framleitt í minni pökkum, fellur það undir 2. tölul., en þar er vörumagnsgjaldið miklu hærra, 1386 aurar.

Nú skýrir Félag ísl. iðnrekenda svo frá, að þetta nýja skilyrði um 150 g umbúðir komi mjög illa við, sérstaklega vegna þess, að sumar verksmiðjur, sem framleiða þetta, hafi aðallega minni mót, þ.e.a.s. yfirleitt 100 g mót, og muni það valda miklum örðugleikum og kostnaði að fleygja þeim eða taka þau úr notkun og kaupa sér önnur i staðinn. Þeir segja svo í sinni umsögn, að mótin í verksmiðjunum og innpökkunarvélar miðist yfirleitt við þá pakkastærð, sem hér og annars staðar er standard-stærðin, en það sé aðallega 100 g pakkar.

Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið um þetta mál, virðist þetta á fullum rökum reist, og niðurstaðan, ef frv. verður samþ. óbreytt, yrði þá sú, að mikið af þessari framleiðslu íslenzkra verksmiðja á suðusúkkulaði mundi stórhækka í gjaldi frá því, sem nú er, eða ef farið yrði inn á hina leiðina, að taka úr notkun þessi venjulegu mót og fá sér önnur í staðinn með ærnum stofnkostnaði og gjaldeyriseyðslu.

Ég hef því leyft mér á þskj. 512 að flytja brtt. um, að þetta nýja skilyrði um 150 g pakka eða stærri verði fellt niður. og vænti þess, að hv. dm. fallist á, að rök séu og réttlæti fyrir þessari brtt.