10.05.1957
Efri deild: 97. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (3027)

29. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Eins og hv. 6. þm. Reykv. (GTh) gat um, lágu fyrir n. ýmsar till. frá Félagi ísl. iðnrekenda um þetta mál, og hafði n. óskað eftir umsögn félagsins, því að það var í upphafi ákveðið að biðja um umsögn þess félags. En n. hafði líka beðið annan aðila um umsögn um frv., og það var tollstjórinn í Reykjavík. Það kom nú aldrei nein skrifleg umsögn frá tollstjóranum, en á fundi n., þegar hún fjallaði um málið og ræddi þessar till. frá Félagi ísl. iðnrekenda, var tollstjórinn mættur ásamt aðstoðarmanni sínum, sem hafði tekið þátt í að semja frv., og tollstjórinn taldi eiginlega allar þessar óskir og till. Félags ísl. iðnrekenda ýmist óþarfar eða til hins verra, vildi ekki mæla með neinni þeirra, ekki heldur þeirri, sem gekk í svipaða átt og brtt. hv. 6. þm. Reykv. á þskj. 512.

Ég fyrir mitt leyti verð að játa, að ég hef ekki mikla þekkingu á því máli, sem þessi till. fjallar sérstaklega um, nefnilega súkkulaðigerð, en ég hygg, að tollstjórinn í Reykjavík og starfsmenn hans þekki það mál miklu betur en þingmenn yfirleitt. Hann taldi, að hætta gæti verið á því, ef þessu yrði breytt, að það, sem kallað væri suðusúkkulaði, yrði aðallega notað til þess að borða það, notað sem sælgæti og því meiri hætta á þessu sem pakkarnir væru minni.

Ég held, að þetta geti verið rétt. Menn verða að meta hver fyrir sig, hvernig þeir vilja greiða atkvæði um þetta. Ég sé ekki ástæðu til að fara að leggjast mjög ákveðið á móti þessari till., en þetta var ástæðan til þess, að n., sem gekk frá málinu, — þá var hv. 6. þm. Reykv. ekki viðstaddur, — sá sér ekki fært að gera breytingu um þetta atriði.

Viðvíkjandi því, sem ég nefndi hér við 2. umr., að n. mundi taka til athugunar, hvort ekki væri rétt að setja inn í frv. ákvæði um það, að veita mætti firma eða firmum rétt til þessa iðnrekstrar, vil ég taka það fram, að við nánari athugun sá n. ekki ástæðu til að gera brtt. um þetta, vegna þess að það eru mörg firmu, sem nú þegar reka slík iðnfyrirtæki, og þá er það haft þannig, að forstöðumaður þeirra fyrirtækja eða annar, sem tekur að sér að vera ábyrgur, fær þessi réttindi og verður að fullnægja þeim skilyrðum, sem greind eru í frv., til þess að geta fengið slík réttindi. Það virðist því vera óþarft að breyta frv. að þessu leyti.