14.05.1957
Efri deild: 99. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í C-deild Alþingistíðinda. (3033)

29. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Síðast þegar þetta mál var hér til umr., óskaði hæstv. fjmrh. eftir því, að umr. yrði frestað og útvegaðar frekari upplýsingar um það, hvers vegna ákvæðum í II. kafla, 1. tölulið, 3. gr. um umbúðir á suðusúkkulaði hefði verið bætt inn í frv., þar sem það er nýmæli. Ég gat raunar um ástæðuna, sem ég teldi að hefði verið fyrir því, að þetta nýmæli var tekið upp, og hef fengið það staðfest. Upplýsinga um þetta hefur á ný verið leitað hjá tollstjóra og starfsmönnum hans, sem hafa með höndum innheimtu tollvörugjaldsins. Og ástæðan til þess, að 150 g markið er sett í 1. tölul. í II. kafla 3. gr. frv., er sú, eins og ég hef áður tekið fram, að talið var, að suðusúkkulaði í smærri pökkum væri að miklu leyti notað sem átsúkkulaði.

Þá hef ég grennslazt um álit þessara manna á því, hvort þetta mark á pökkum, 150 g, væri of hátt og hvort mundu á rökum reistar þær fullyrðingar, að verksmiðjurnar þyrftu að skipta um mót í vélum sínum, ef það yrði samþykkt. Tollstjóri og starfsmenn hans telja, að nú síðustu árin, jafnvel eftir að frv. var upphaflega samið, muni hafa orðið þær breytingar á vélum hjá ýmsum framleiðendum, að algengustu mótin séu nú 100 g. Leggja þeir því nú til, að markið í frv. verði sett í 100 g í stað 150, sem nú er í frv.

Fjhn. hefur að fengnum þessum upplýsingum fallizt á, að markið sé lækkað að þessu leyti úr 150 g pökkum í 100 g. Aftur á móti getur hún ekki fallizt á tillögur hv. 6. þm. Reykv. um að fella öll ákvæði um þetta niður, heldur varð samkomulag um það í fjhn. að bera fram brtt., sem hér liggur fyrir á þskj. 531, um það, að i staðinn fyrir „150 g umbúðum“ komi: 100 g umbúðum.

Ég geri ráð fyrir því, þar sem hv. 6. þm. Reykv. stendur að þessari till. ásamt öðrum nm. í fjhn., að þá sjái hann ekki ástæðu til að halda sinni till. til streitu.