27.05.1957
Neðri deild: 109. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (3040)

29. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er um gjald af innlendum tollvörutegundum og tollvöruframleiðslu. Núgildandi lög um þetta efni eru frá 30. des. 1939. Í þeim l. er gjaldskrá, sem tollvörugjald hefur verið greitt eftir, en undanfarið hefur verið innheimt allmikið álag á gjaldið samkvæmt lögum um heimild fyrir ríkisstj. til að innheimta ýmis gjöld með viðauka, en þau lög hafa verið sett fyrir eitt ár í senn. Í gjaldskrána, sem er í 3. gr. frv., hefur grunngjaldið samkvæmt l. frá 1939 og álagið, sem var lögákveðið síðast nú fyrr á þessu þingi, verið sameinað í eitt, en gjöldunum ekki breytt. Þykir vera til hægðarauka við framkvæmd l. að hafa gjaldið í einu lagi. Að öðru leyti eru í frv. ákvæði um, hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að fá leyfi til tollvöruframleiðslu, ákvæði um greiðslu gjaldsins, skýrslugjafir um framleiðslu og sölu, heimíldir tollyfirvalda til eftirlits o.fl., sem þörf þykir að hafa í l. um þetta efni. Eru fyrirmæli frv. að ýmsu leyti greinilegri en í gildandi lögum og í samræmi við það, sem nú þykir bezt henta. Frv. samhljóða þessu var lagt fyrir siðasta þing, en hlaut þá ekki afgreiðslu.

Fjhn. hefur athugað málið og skilað um það áliti. Mælir n. með því, að frv. verði samþ., en einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja brtt. eða fylgja brtt.

Fyrir liggja brtt. á þskj. 550 frá hv. 2. þm. Reykv., sem hann hefur ekki enn gert grein fyrir. Ég skal geta þess, að út af 1. brtt. hans viðkomandi gjaldi á rjóma- og mjólkurís hefur fjhn. borizt bréf frá Mjólkursamsölunni, þar sem eru athugasemdir við þessa brtt., og segir þar m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Vörur þessar eru að mestu leyti framleiddar úr rjóma, mjólk og þurrmjólk. Mjólkurísblandan t.d., sem langmest er selt af, samanstendur að 86.5% af þessum hráefnum, og 89.25% af andvirði blöndunnar eru fyrir þau.“

Síðar segir m.a.:

„Vér teljum því, að ekki megi hindra á nokkurn hátt, að innlendi markaðurinn fyrir mjólkurvörur notist sem bezt.“

Áður er búið að tala um, hve mikið sé af þeirri framleiðsluvöru, og síðan segir:

„Vér teljum eðlilegast, að litið sé á rjóma og mjólkurís sem innlenda matvöru og sem mjólkurvöru, og vér viljum benda á, að fleiri hliðstæðar vörutegundir eru ef til vill væntanlegar á markaðinn, og má þar t.d. nefna súkkulaðimjólk.“

Kemur þannig fram í bréfi Mjólkursamsölunnar, að hún telur varhugavert að leggja á þetta gjald.

Um till. hv. 2. þm. Reykv. er það að segja, að fjhn. mælir ekki með þeim, en hins vegar geri ég ráð fyrir, að fyrirvari sá, sem einstakir nefndarmenn hafa áskilið sér um brtt., nái einnig til þeirra.