27.05.1957
Neðri deild: 109. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í C-deild Alþingistíðinda. (3041)

29. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég hef borið hér fram nokkrar brtt. við þetta frv., sem ég tel að mörgu leyti mjög gallað. Ég skal nú gera lítils háttar grein fyrir till. í þeirri röð, sem þær eru á þskj. 550.

Það er fyrst, að rjóma- og mjólkurís, sem nú er farið að selja hér í stórum stíl sem sælgæti, sérstaklega hér í bænum, verði settur undir tiltölulega lágan toll, svo að þetta sælgæti verði hliðstætt öðrum vörum, sem framleiðslutollur er lagður á.

Hv. frsm. gat þess, að það mætti ekki tolla þessa vörur hliðstætt öðrum vörum, vegna þess að Mjólkursamsalan hefði þarna mikilla hagsmuna að gæta. Ég skal nú ekki segja, hversu miklir hagsmunir Mjólkursamsölunnar eru í sambandi við þessa sölu, en ég tel það alveg fráleitt, að Mjólkursamsalan geti fengið því ráðið, hvort sælgætisvara eins og þessi komi undir svipaðan toll og aðrar vörur. Það er notuð mjólk t.d. í mjólkursúkkulaði, og ég hef aldrei orðið var við það, að Mjólkursamsalan gerði nokkrar kröfur til þess að mjólkursúkkulaði yrði undanþegið tolli, vegna þess að í það væri notuð mjólk. Þar að auki vil ég benda hv. frsm. á, að það eru ekki nokkur líkindi til, að Mjólkursamsalan mundi tapa nokkru, þó að þessi tollur væri settur á, og mig furðar að vísu, að vera skuli mikil mótstaða gegn því að setja toll á slíkt sælgæti sem þetta, þó að í því sé mjólk. Það er mjólk í mörgu sælgæti. Ég álít, að það sé rétt að setja toll á þetta, til þess að það verði hliðstætt öðrum tollvörum, sem eru sælgætisneyzluvörur. En eins og ég sagði, þá álít ég, að það sé misskilningur hjá hv. frsm., að þetta mundi rýra mikið sölu mjólkurstöðvarinnar til þessarar framleiðslu.

Þá er það 2. till., við 5. gr. Þar er gert ráð fyrir í frv., að tollurinn sé greiddur af hendi, um leið og varan er framleidd. Þetta er óeðlilegt og í raun og veru andstætt anda laganna, vegna þess að það eðlilega er, að tollurinn sé greiddur eða falli í gjalddaga um leið og tollvaran er afhent til kaupandans frá framleiðandanum, enda má benda á 7. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að sú vara, sem er talin ósöluhæf, verði undanþegin tolli. Þess vegna tel ég réttlátt, að tollgreiðslan falli í gjalddaga, um leið og framleiðandinn lætur vörurnar frá sér. Þá er hann orðinn ábyrgur fyrir greiðslu tollsins.

Þá er það 3. málsgr. 5. gr. Þar er komið fram með alveg óvenjulegt ákvæði, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vörugerðarmaður skal skila innheimtumanni skýrslu innan viku frá lokum hvers mánaðar um gjaldskylt vörumagn í mánuðinum, vörubirgðir í byrjun og lok mánaðarins og framleitt og selt vörumagn í mánuðinum. Skýrslunni skulu fylgja samrit af sölunótum eða sölureikningum eða afhendingarnótum yfir hið gjaldskylda vörumagn, en á þeim skal greina nafn kaupanda vörunnar, vörumagnið í kílóum eða lítrum, tegundarheiti vörunnar og verð í krónum“ o.s.frv.

Ég verð að segja, að þetta er alveg óþolandi skriffinnska, af þeirri einföldu ástæðu, að þetta er engum til gagns, hvorki því opinbera né þeim mönnum, sem þessi skriffinnska lendir á. Ég hef því lagt til, að þessu verði að mestu leyti sleppt, en ég vil benda á, að ef ætlunin er að vinna úr þessum plöggum, sem ætlazt er til að séu send frá hverjum einasta iðnaðarframleiðanda í landinu, þá þarf fjölda manns, sem gerir ekkert annað en vinna úr þessu. Og hver verður svo árangurinn af þeirri úrvinnslu? Hann er enginn undir flestum kringumstæðum. Það má ganga of langt í því að tryggja, að ríkissjóður verði ekki hlunnfarinn. Auðvitað vakir ekki neitt annað fyrir höfundi frv. en að tryggja á þennan hátt, að ekki sé hægt að hlunnfara ríkissjóð í sambandi við greiðslu tollsins. Ég lasta það út af fyrir sig ekki. En ég álít, að þessi skriffinnska komi ekki á nokkurn hátt i veg fyrir slíkt. Þetta er aðeins til þess að gera mönnum erfiðara fyrir en nauðsynlegt er, erfiðara fyrir en nú er gert. En það er nóg af skriffinnskunni í landi okkar, þótt ekki sé verið að bæta við því, sem er með öllu óþarft og óeðlilegt.

Þriðja breytingin er við 7. gr., sem er í sjálfu sér mjög lítil breyting. Í frv. stendur: „Nú verður tollvara ósöluhæf, áður en vörugerðarmaður lætur hana af hendi, og skal þá undanþiggja hana tollgreiðslu.“ — Ég hef bætt við: Nú verður tollvara ósöluhæf eða óseljanleg. — Vara getur orðið óseljanleg, þótt hún sé söluhæf, en ef vara verður óseljanleg, þá á einnig að vera hægt að undanþiggja hana tollgreiðslu. Það á ekki að leggja þá kvöð á menn, að þeir þurfi að borga toll af vöru, sem þeir geta ekki selt, sem þeir geta ekki látið frá sér.

Þá er það 4. liður. Það er líka talsverð skriffinnska, sem kemur fram í 9. gr., sem ég vil einnig láta falla niður. Greinin hljóðar svo í frv.:

„Vörugerðarmaður skal afhenda tollyfirvaldi sýnishorn af öllum umbúðum af framleiðsluvörum sínum innan 14 daga, eftir að lög þessi öðlast gildi. Skulu sýnishornunum fylgja upplýsingar um, hver séu aðalefni vörunnar. Áður en sala vörutegundar hefst, sem vörugerðarmaður hefur ekki áður framleitt, eða breytt hefur verið umbúðum vöru, sem áður hefur verið framleidd“.

Þetta er nú svo tyrfið, að það er lítt skiljanlegt, þó að það sé lesið upp, en ég vil bara benda á, að svona skriffinnska hefur ekki neina raunhæfa þýðingu. Þetta er aðeins til þess að gera mönnum erfitt fyrir, án þess að það geri framkvæmd málsins að nokkru leyti auðveldari eða greinilegri.

Þá kem ég að síðasta liðnum, sem er breyting á 12. gr. frv. Ég ætla að leyfa mér að lesa hana, til þess að menn geti fest sér í minni, hvernig hún hljóðar:

„Heimilt er tollyfirvaldi hvenær sem er að rannsaka allt bókhald tollvörugerðarmanns og taka það til sín í því skyni. Einnig er tollyfirvaldi heimilt að rannsaka birgðir vörugerðarmanns af unnum og óunnum vörum og leggja fyrir hann að gera birgðatalningu undir tolleftirliti. Enn fremur er tollyfirvaldi heimilt að ákveða, að allar framleiddar vörur vörugerðarmanns skuli settar í geymslu undir lás eða innsigli tollgæzlunnar.“

M.ö.o.: tollgæzlan getur, hvenær sem henni þóknast, gengið án úrskurðar inn í hús iðnaðarframleiðenda í landinu, tekið allar þeirra bækur í sínar vörzlur og lokað verksmiðjum þeirra. Svona ákvæði er ekki hægt að setja í l. Ég held, að menn hafi ekki athugað, hvernig þessi ákvæði eru, og hafi reitt sig á það, að þeir menn, sem að frv. standa, að öllum líkindum skrifstofa tollstjóra eða tollstjóri, ætlist ekki til, að tollyfirvöldin geti gengið inn til manna hvenær sem er, hirt allar þeirra bækur og sett alla þeirra starfsemi undir innsigli. Ég veit ekki einu sinni, hvort þetta mundi standast ákvæði stjórnarskrárinnar, hvort hægt væri að setja þetta í lög. Það minnsta, sem hægt er að ætlast til undir svona kringumstæðum, er, að tollverðirnir hafi a.m.k. löglegan úrskurð til þess að taka í sínar vörzlur skjöl manna og bókhald.

Ég ætla að taka till. til baka til 3. umr. og vona, að menn gefi sér tíma til að lesa og athuga þetta frv. betur á milli umr., svo að því verði ekki hleypt í gegnum þingið með þessum stórkostlegu ágöllum, sem á því eru.