27.05.1957
Neðri deild: 109. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í C-deild Alþingistíðinda. (3042)

29. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. hefur nú gert nokkra grein fyrir brtt. sinum á þskj. 550, og þó að hann hafi ákveðið að taka þær aftur til 3. umr., þykir mér þó rétt að fara nokkrum orðum um málið út af því, sem fram kom í ræðu hans.

Viðkomandi gjaldinu, sem hann vill leggja á rjóma- og mjólkurís, og þeim athugasemdum, sem ég lýsti að hefðu komið frá Mjólkursamsölunni, segir hv. 2. þm. Reykv., að hann telji það fráleitt, að Mjólkursamsalan fái því ráðið, hvort tollur er lagður á þetta eða ekki. Ég geri ekki ráð fyrir, að neinum hafi dottið í hug, að Mjólkursamsalan ætti að vera hæstiréttur í því efni, hvort tollur yrði á þetta lagður eða ekki. En hitt er ég jafnviss um, að það fyrirtæki hefur rétt til þess að koma athugasemdum á framfæri og umsögn um þingmál alveg eins og aðrir, og það er mikið um það, það þekkja þm., — að einstaklingar og fyrirtæki láti til sín heyra og sendi þinginu bréf um mál, sem fyrir liggja.

Hv. þm. segist telja eðlilegt, að tollur sé á þetta lagður, hliðstæður þeim gjöldum, sem lögð eru á aðrar vörur, sem seldar eru sem sælgæti. Ég tel nú, að það gegni e.t.v. nokkuð öðru máli um þessa vöru en margar aðrar sælgætistegundir. Trúað gæti ég því, að þetta væri heilnæmara en margt af því, sem hér er á boðstólum af sælgætisvörum, og mætti gjarnan stuðla að því, að það væri frekar keypt og notað en ýmislegt annað.

Þá er það viðkomandi 2. brtt. hv. þm., við 5. gr. Ég fæ reyndar ekki séð, að það sé mikill munur á efninu í 1. málsgr. till. og því, sem nú er í frv. Hv. þm. vill orða þetta þannig að vörur verði gjaldskyldar, þegar þær eru fullgerðar. En í frv. stendur, að vörur verði gjaldskyldar jafnótt og þær eru framleiddar. Mér sýnist vera mjög lítill munur á þessu. Þá segir í brtt. hv. þm., að gjaldið falli í gjalddaga, um leið og vörugerðarmaður lætur vörurnar af hendi, en í frv. segir, að gjaldið skuli greiða, áður en varan er seld, látin í umboðssölu eða flutt burt af framleiðslustað. Þarna virðist vera mjög lítill munur. Samkvæmt frv. væri ákvæðinu fullnægt, þó að gjaldið væri greitt örlítilli stundu áður en varan er látin af hendi, en samkvæmt hans till. á það að vera um leið og varan er afhent.

Þá er í næstu málsgr. till. um, að heimilt sé að veita allt að þriggja mánaða frest á greiðslu gjaldsins, en í frv. segir, að heimila megi innheimtumanni að veita frest á greiðslu gjaldsins, þó aldrei lengur en svo, að allt gjaldið sé greitt fyrir 15. næsta mánaðar á eftir. Ég vil út af þessu benda á það, að í 6. gr. reglugerðar nr. 9 frá 1935 um þetta efni segir, að heimilt sé að veita gjaldfrest á gjaldinu, ef gjaldheimtumaður telur ekkert sérstakt því til fyrirstöðu, þó aldrei lengur en svo, að allt áfallið gjald sé að fullu greitt við lok hvers mánaðar. Mér sýnist við athugun á ákvæði frv., sem ég las áðan, að það sé heldur rýmkað, ákvæðið um gjaldfrestinn, frá því, sem nú er, og ég sé ekki ástæðu til að ganga lengra í því efni.

Í 3. málsgr. þessarar brtt. vill hv. þm. fella niður það, sem nú er í frv., að vörugerðarmaður skuli láta fylgja skýrslum sínum um framleiðsluna samrit af sölunótum eða sölureikningum eða afhendingarnótum yfir hið gjaldskylda vörumagn. Mér virðist ekki ástæða til að fella niður úr frv. þessa skyldu vörugerðarmanns til að láta afrit af sölunótum eða sölureikningum fylgja mánaðarlegum skýrslum sínum til innheimtumanns. Þetta hlýtur að gera miklu auðveldara eftirlit með því, að rétt sé talið fram, og ég vil í þessu sambandi vitna til þeirra fyrirmæla, sem nú eru í gildi samkvæmt áðurnefndri reglugerð um innlenda tollvörugerð, nr. 9 frá 1935, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta, — áður er talað um, hvaða bækur vörugerðarmaður eigi að færa, og síðan segir:

„Enn fremur skal vörugerðarmaður skyldur að skrá allar þær framleiðsluvörur, sem hann selur eða lætur af hendi, í tvíritunarbækur, jafnótt og sala eða afhending fer fram. Gjaldheimtumaður hefur rétt til, hvenær sem hann vill, að rannsaka bækur þessar og bera saman við aðrar bækur vörugerðarmanns svo og rannsaka birgðir þær, bæði af hráefnum og unnum vörum, sem fyrir hendi eru á hverjum tíma.“

Þarna er lögð sú skylda á fyrirtækin að skrá alla söluna í tvíritaðar bækur, og þá sé ég ekki, að það sé mikið til viðbótar á þá lagt, þá að þeir eigi að senda með skýrslum sínum afrit af sölunótum, því að það vitum við, að það kostar ekki mikið að taka afrit af þeim reikningum, sem út eru gefnir, og mun yfirleitt vera gert.

3. brtt. á þskj. 550 er um umorðun á 7. gr. Ég get nú ekki séð, að þar sé um efnisbreytingu að ræða. Í frv. segir: „Nú verður tollvara ósöluhæf, áður en vörugerðarmaður lætur hana af hendi, og má þá undanþiggja hana gjaldi, enda sé hún eyðilögð undir eftirliti tollyfirvalds.“ En hv. 2. þm. Reykv. vill orða þetta þannig: „Nú verður tollvara ósöluhæf eða óseljanleg af einhverjum ástæðum, áður en vörugerðarmaður lætur hana af hendi, og má þá undanþiggja hana gjaldi, enda sé hún eyðilögð undir eftirliti tollyfirvalds.“ Ég fæ nú eiginlega ekki séð muninn á þessu, og a.m.k. er hann ekki sá, að það væri ástæða til að fara að vísa frv. til hv. Ed. aftur út af þessum orðalagsmun.

4. brtt. er við 9. gr., sem hv. þm. vill orða um. Um það er það að segja, að fyrirmælin í frumvarpsgreininni eru fyllri og greinilegri en í brtt., og því tel ég betra að hafa hana óbreytta.

5. brtt. er við 12. gr. Samkvæmt brtt. getur tollyfirvald því aðeins rannsakað bókhald vörugerðarmanns, að rökstuddur grunur sé um, að hann hafi gefið rangar upplýsingar um framleiðsluna. En ég vil benda á það, að samkvæmt 2. málsgr. 5. gr. í reglugerð nr. 9 frá 1935 hefur gjaldheimtumaður nú heimild til rannsóknar á bókum og birgðum vörugerðarmanns, hvenær sem er, án þess að grunur um ólöglegt athæfi sé fyrir hendi. Mér sýnist engin ástæða til að breyta þessu. Það er gert ráð fyrir samkvæmt frv. að láta þetta haldast efnislega óbreytt. — Þá vill tillögumaður einnig fella niður úr frumvarpsgreininni heimild tollyfirvalds til að ákveða, að framleiðsluvörur séu settar í geymslu undir lás eða innsigli lögreglunnar. En slík heimild hefur verið í gildi í 22 ár samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 9 frá 1935, og ég sé enga ástæðu til að fella hana nú niður. Ég hef orðið þess var, að ýmsir tollvörugerðarmenn leggja einmitt ríka áherzlu á það, að allt sé gert, sem unnt er af hálfu þess opinbera, til þess að vörur, sem gjald á að greiða af, sleppi ekki undan gjaldi. Og þetta er skiljanlegt, vegna þess að það er allhörð samkeppni um framleiðslu og sölu á ýmsum þessum vörum, og þá er erfitt undir því að búa fyrir fyrirtæki, sem gefa upp allar réttar skýrslur og greiða þau gjöld, sem þeim ber, ef möguleikar eru fyrir aðra, sem þeir vilja nota sér, til þess að sleppa við gjöld að einhverju leyti.

Ég verð að segja það út af þessum brtt. hv. 2. þm. Reykv., að hann virðist vera nokkuð seint á ferð með þær, þar sem þessi ákvæði, sem hann vill fella niður, hafa yfirleitt verið í gildi samkv. reglugerð í meira en 20 ár, og á þessu tímabili hefur hann oftar en einu sinni verið fjmrh. án þess að beita sér þá fyrir, að þessu væri breytt, eða a.m.k. man ég ekki eftir því. Hann talaði t.d. síðast um, að það væri óviðeigandi, að hægt væri að taka til rannsóknar bókhald fyrirtækja og mér skildist líka athuga birgðir án dómsúrskurðar, en þetta hefur verið heimilt samkv. reglugerðinni frá 1935 alla tíð síðan hún var sett.

Niðurstaðan af athugunum á brtt. á þskj. 550 er því sú, að ég tel óheppilegt að samþ. þær.