02.11.1956
Efri deild: 8. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í C-deild Alþingistíðinda. (3049)

30. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Söfnunarsjóði er með lögum óheimilt að taka hærri vexti en 5%. Á hinn bóginn er í lögum leyfilegt öllum öðrum að taka 7% vexti, þótt með fasteignaveði sé. Þetta er óeðlilegt, og þess vegna er með frv. því, sem hér liggur fyrir, lagt til, að söfnunarsjóði sé heimilt eins og öðrum að taka 7% vexti, og eigi það við um þau lán. sem veitt eru hér eftir. Á hinn bóginn er þess að geta, að forráðamenn sjóðsins hafa farið þess á leit við fjmrn., að þeir fengju að notfæra sér uppsagnarákvæði eldri lána til þess að koma á þau einnig 7% vöxtum, en rn. sá ekki ástæðu til þess að hafa heimild til slíks í frv. Ég geri ráð fyrir því, að forráðamenn sjóðsins muni koma þessu atriði frá sinni hendi á framfæri við nefndina, og tekur hún það til íhugunar, en rn. sá ekki ástæðu til að hafa ákvæði um þetta í frv.

Ég vil leyfa mér með þessu fororði að óska eftir því, að málinu verði vísað til hv. fjhn. og 2. umr.