09.11.1956
Efri deild: 11. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í C-deild Alþingistíðinda. (3054)

30. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru fáein orð út af því, sem hv. þm. Vestm. tók fram. — Mér skildist hálfpartinn á honum, að það hefði einhverju verið leynt í þessu máli af hendi fjmrn. eða af minni hendi, en ég hygg þetta á misskilningi byggt. Ég man ekki betur a.m.k. en að ég segði frá því, þegar ég hafði framsögu fyrir málinu með fáeinum orðum, að aðalforstjóri söfnunarsjóðsins hefði viljað fá heimild til þess að hækka vexti af eldri lánum, en rn. hefði ekki getað á það fallizt og þess vegna væri frv. úr garði gert eins og það liggur fyrir. Ég mun hafa tekið þetta fram, og þetta var það eina, sem ástæða var til að taka fram um málið, svo að þetta getur þá ekki hafa farið á milli mála. Hitt er annað mál, að það kann að hafa farið fram hjá einhverjum, eins og gerist og gengur um sumt af því, sem sagt er í ræðustól.

Þá minntist hv. þm. Vestm. á það, að sér sýndist af einhverjum bréfagerðum, sem hefðu orðið til nefndarinnar af hendi aðalforstjórans, skilst mér, að eitthvað hefði verið áfátt um undirbúning fjmrn. og samráð við aðalforstjórann um frv. Ég veit ekki, hvaða bréf það er, sem hann vitnar til, hvort það er sérstaklega bréf til n. eða einhver skýrsla um það, sem fram hefur farið. Mér er það ekki kunnugt. En ég vil bara taka fram, að það er ekki hægt að halda fram með nokkrum rétti, að nokkru sé áfátt af hendi fjmrn. um undirbúning þessa máls eða skortur á samráði við aðalforstjóra söfnunarsjóðsins, því að málið er tekið upp, eftir að það hefur verið rætt a.m.k. tvisvar, ef ekki oftar, við aðalforstjórann og eftir að skoðanir aðalforstjórans höfðu legið fyrir skriflega og rn. fjallað um þær. Hitt er svo annað mál, að rn. gat ekki fallizt á allt það, sem aðalforstjórinn fór fram á, og það má vera, að það sé orðin tízka að áfellast menn fyrir það og að það sé talið ótilhlýðilegt, að rn. leyfi sér að hafa einhverja skoðun um það, sem þau eiga að leggja fyrir og kannske er ekki nákvæmlega eins og skoðanir þeirra, sem málin flytja við rn. En það hygg ég að geti tæpast verið meiningin, að hv. þm. Vestm. vilji áfellast rn. fyrir það, þó að það hafi sérstaka skoðun um þetta, heldur hljóti þetta að vera byggt á einhverjum misskilningi eða einhverri missögn, sem hlýtur að leiðréttast við nánari athugun á málinu.

Ég er reiðubúinn til að hafa samtal við n. um þetta, ef henni sýnist og ef tekið verður eitthvert hlé í málinu, og gefa n. nánari skýrslu um það, sem á milli hefur farið í því, svo að enginn misskilningur geti átt sér stað.

En viðvíkjandi ágreiningsatriðinu, sem ég veit ekki til að sé nema þetta eina, hvort það eigi að mega hækka vextina af gömlu lánunum, er ég þeirrar skoðunar, að það sé óeðlilegt að leyfa það. Það hefur alls ekki verið tíðkað, að því er ég bezt veit, hér í fjármálastofnunum, að segja lánum upp til þess að hækka á þeim vexti, þó að vaxtabreytingar hafi orðið almennt. Og ég vil ekki eiga frumkvæði að því eða styðja það, að farið verði inn á þá braut. Hér er líka fleira, sem kemur til greina, og það m.a., að þó að vextirnir á þessum lánum séu lægri en nú stendur til að taka, þá er mjög mikið af þessum skuldabréfum keypt með afföllum af söfnunarsjóðnum og þá einmitt tekið tillit til þess, að vextirnir voru lágir. Þannig hafa verið teknir miklu meiri vextir í raun og veru en bréfin hljóða upp á. Þá er það hálfgert að koma aftan á menn að kaupa fyrst af þeim skuldabréf með afföllum, með tilliti til þess, að vextirnir séu lágir, og segja síðan lánunum upp til þess að hækka nafnvextina, af því að það eigi að hækka nafnvexti yfirleitt á öðrum nýrri lánum, sem e.t.v. eru þá affallalaus. Það er ýmislegt í þessu, sem gerir það að verkum, að rn. vildi ekki fallast á þetta sjónarmið aðalforstjórans. En að sjálfsögðu gera hv. þm. það upp við sig, hvort þeir vilja á þetta fallast, og ekkert hef ég á móti því, að málinu sé frestað.