09.11.1956
Efri deild: 11. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í C-deild Alþingistíðinda. (3056)

30. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru fáein orð út af undirbúningi málsins og bréfinu frá aðalforstjóra söfnunarsjóðsins. Í því segir:

„Nú hafði ég frétt, að ráðherra mundi ætla að verða við þessari beiðni minni,“ — sem sé um að leggja fyrir frv. um að leyfa vaxtahækkun, — „en hefði að stjórn söfnunarsjóðsins forspurðri bætt við frv. annarri og nýrri kvöð“ o.s.frv.

Um þetta er það að segja, að ég taldi ekki ástæðu til þess að senda frv. til umsagnar stjórnar söfnunarsjóðsins, vegna þess að mér var svo nauðavel kunnugt um afstöðu aðalforstjórans í þessu máli. Aðalforstjórinn hafði oftar en einu sinni rætt þetta við ráðuneytið og farið fram á lagabreytingu um þá stefnu í vaxtamálinu, sem hér hefur verið á minnzt. Við í rn. höfðum látið í ljós þá skoðun, sem kemur fram í þessu frv. Ég taldi þess vegna ekki neina ástæðu til þess að vera að bæta við bréfaskriftum um málið, þar sem það var komið á þetta stig. Ég taldi, að hvor fyrir sig vissi um skoðanir hins og allar ástæður hefðu verið færðar fram, sumpart munnlega og sumpart skriflega. Um hitt, sem drepið er á í bréfinu, hvort aðalforstjórinn hafi á einhverjum tímapunkti, eins og sagt var í gamla daga, getað fengið að sjá frv. í ráðuneytinu, hef ég ekkert að segja, því að ég veit ekkert um það. Ég efast ekkert um, að skrifstofustjórinn hefur sagt það satt, að hann hefur ekki haft eintak af frv. við höndina, þegar söfnunarsjóðsforstjórann bar að.

Bréfið til rn., sem vísað er í, endar með því, að forstjórinn leyfir sér að fara þess á leit við rn., að hún fái að sjá umrætt lagafrv., þegar það liggur fyrir í próförk, úr því að ráðuneytið hafi ekki haft afrit af því, þegar hana bar að. Þarna endar sagan í bréfinu, og ég veit ekkert um, hvort forstjórinn hefur fengið próförkina eða ekki. Það er mér alveg jafnókunnugt um og deildarmönnum. En efni málsins að því er undirbúninginn varðar er bara einfaldlega það, að málið var þaulrætt milli ráðuneytisins og aðalforstjóra söfnunarsjóðsins. Við í rn. þekkjum öll rök, sem hægt er að tína fram fyrir sjónarmiði aðalforstjórans, og aðalforstjóranum var kunnugt um okkar afstöðu, sem hér liggur fyrir í því, og þess vegna er það náttúrlega ekkert annað en hótfyndni að vera að kasta í þingnefndir bréfum eins og þessu.