09.11.1956
Efri deild: 11. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (3057)

30. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Mér virðast fullkomnar sættir vera um þetta innan nefndarinnar, þannig að ég get lofað því fyrir mitt leyti að halda fund í n., áður en málið verður tekið fyrir til 3. umr., og gefa n. kost á að ræða það að nýju, og vænti þá, að hv. nm. sæki þann fund ef þeir með nokkru móti geta það. Ég held þess vegna, að ég þurfi ekkert frekar um þetta að segja nú í sjálfu sér, þar sem vel er hugsanlegt, að nýjar upplýsingar liggi fyrir í málinu, þegar það kemur hér til 3. umr.

En úr því að hv. þm. Vestm. las hér upp bréf forstjóra söfnunarsjóðsins til ráðuneytisstjóra Sigtryggs Klemenzsonar, vil ég benda á það, að hún virðist hafa óttazt, að sett væri inn í frv. ákvæði, sem alls ekki eru í því. Það virðist; þegar hún skrifar bréfið, vera hennar aðaláhyggjuefni, þar sem hún segir, að „ráðherra mundi ætla að verða við þessari beiðni minni, en hefði að stjórn söfnunarsjóðs forspurðri bætt í frv. annarri og nýrri kvöð, nefnilega að söfnunarsjóðnum væri óheimilt að notfæra sér ákvæði það, sem er í öllum venjulegum skuldabréfum söfnunarsjóðsins, um gagnkvæma heimild til þess að segja upp lánum í því augnamiði að hækka vexti.“

Það er ekkert orð í frv. um þetta atriði, heldur aðeins það, að af lánum, sem nú eru, megi ekki hækka vexti. Ég er því hræddur um, að frúin hafi að einhverju leyti misskilið það, hvað hér var á ferðinni. En um þetta þarf ekki að ræða frekar, þar sem n. mun taka þetta mál til nýrrar athugunar.