23.11.1956
Efri deild: 17. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í C-deild Alþingistíðinda. (3061)

30. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Það eru nú nokkrir dagar síðan þetta mál var hér til umr., en eins og kunnugt er, er með frv. farið fram á að heimila söfnunarsjóðnum að áskilja sér allt að 7% í ársvexti af lánum, sem tryggð eru með veði í fasteign eða handveði, þó megi aldrei semja um hærri vexti samkv. þessari heimild en Landsbanki Íslands reiknar sér á sama tíma. Þá segir í næstu mgr. frv.:

„Óheimilt er að hækka vexti af lánum, er veitt hafa verið úr sjóðnum við gildistöku laga þessara, frá því er samið var um, þegar lánin voru tekin.“

Það hafa orðið nokkrar umr. í n. út af þessu frv. og þá einkum með tilliti til þess, að forstjóri söfnunarsjóðsins hefur bréflega fært að því rök, að þetta síðara ákvæði frv.: „Óheimilt er að hækka vexti af lánum, er veitt hafa verið úr sjóðnum við gildistöku laga þessara, frá því er um var samið, þegar lánin voru tekin“ — geri það að verkum, að annað tveggja verði sjóðurinn að sitja við þá lágu vexti, sem af slíkum lánum eru nú, ja, líklega eingöngu fyrir tilhlutan Alþingis, eða þá að hann verði til þess að rétta sinn hlut að segja lánunum upp, eins og heimild er til í skuldabréfum fyrir þessum lánum. Söfnunarsjóðurinn er í sjálfu sér frekar stofnun til þess að safna fé og gefa opna leið að því, að fé sé geymt öruggt og á hæfilegum vöxtum, sem annars getur verið vafi á, hvernig eigi að verja eða binda, þannig að fénu sé óhætt. Hann er stofnsettur af fjöldamörgum sjóðum, og fyrir hinum upphaflega stofnanda söfnunarsjóðsins vakti það göfuga markmið, að hér væri komið á fót tryggum stað til geymslu á þeim fjármunum, sem ýmsar stofnanir og jafnvel einstaklingar hafa viljað láta geyma til gagns fyrir bæði alda og óborna.

Söfnunarsjóðsstofnunin fól í sér þá hugsjón að gera þjóðina að sparnaðarþjóð og finna öruggan grundvöll fyrir því, að fé væri geymt og sparað. Hann er ekki settur á fót eins og algengar bankastofnanir eða sparisjóðsstofnanir, heldur er hann alveg sérstaks eðlis og hafði frá upphafi sérstakt augnamið með sinni starfsemi. Hitt er svo vitað, að sjóðurinn hefur ávaxtað fé sitt með því að lána það út á ýmsan hátt. Og það eru ekki neitt fáir aðilar, sem þarna eiga hlut að máli. Það eru á níunda hundrað sjóðir og legöt víðs vegar að af landinu, sem eru uppistaðan í söfnunarsjóðnum. Ég hef hér fyrir framan mig skrá yfir nöfn þessara sjóða allra. Það eru gjafasjóðir, það eru bræðrasjóðir m.a., það er menningarsjóður Íslands og framfarafélagssjóðir ýmissa vega frá, ekknasjóðir og styrktarsjóðir, ýmist bindindismanna, kvenfélaga eða búnaðarfélaga víðs vegar um land, sem hér eiga hlut að máli.

Ég tel, og ég er ekki einn um þá skoðun, að það sé ekki rétt að knýja forstöðumenn sjóðsins eða stjórn sjóðsins með lagasetningu um, að ekki megi hækka vextina í eðlilegt vaxtafyrirkomulag hjá þessari stofnun, til þess að verða að segja upp lánunum til að varðveita hagsmuni þeirra sjóða, sem geymdir eru í söfnunarsjóði. Ég tel það ekki rétta braut, og sú hugsun liggur að baki þeirrar brtt., sem ég hef leyft mér að flytja hér á þskj. 78 ásamt hv. 6. þm. Reykv. um að fella niður síðustu mgr. 1. gr., sem bannar söfnunarsjóðnum að hækka vexti af lánum, er veitt hafa verið úr sjóðnum. Þá hefur sjóðurinn sem sagt enga leið fyrir hendi aðra en þá að segja upp lánunum, og það er fyllilega heimilt samkv, þeim skuldabréfum, sem fyrir lánum úr söfnunarsjóðnum hafa verið gefin út. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, í 2. gr. skuldabréfsins:

„Lánveitandi og lántakandi hafa hvor um sig rétt til að segja höfuðstól lánsins upp að meira eða minna leyti með sex mánaða fyrirvara á hvora hlið.“

Þessi leið til þess að rétta við hag sjóðsins hvað snertir vaxtatekjur er að mínum dómi og okkar flm. þessarar till. erfið og allt of kostnaðarsöm fyrir þá, sem lánanna njóta, því að í mörgum tilfellum má gera ráð fyrir því, að þeir, sem eiga lán i sjóðnum, vilji heldur halda því áfram, þó að því sé sagt upp, og ef þeir eiga kost á að fá nýtt lán eða lánið endurnýjað, ef ég mætti svo að orða kveða, þó að það væri skylt að borga af því vexti eins og í venjulegum lánsstofnunum. Það er mjög kostnaðarsamt. Það er sérstakt gjald víst fyrir lánveitinguna, og svo eru stimpilgjöldin sífellt að hækka, má segja með hverju ári, svo að með því væri þarna bundinn nýr kostnaðarbaggi þeim, er að þessum lánum standa og njóta þeirra og vildu njóta í framtíðinni.

Ég held, að það beri að líta á það, að Söfnunarsjóður Íslands, stofnaður fyrir meira en mannsaldri, um 1888, að ég hygg, er allt annars eðlis sem geymslufjárstofnun heldur en bankarnir eða sparisjóðirnir víðs vegar um land, og að þinginu beri með tilliti til þessa og með tilliti til þeirrar göfugu hugsjónar, sem vakti fyrir frumkvöðlinum að því, að söfnunarsjóðnum var komið á fót, séra Eiríki heitnum Briem, — viðurkenninguna á þeirri hugsjón álit ég að Alþingi eigi að hafa í heiðri og ekki skapa sjóðnum þau starfskjör eða tilverukjör, sem sýnilega stefna að því að rýra þessa merku stofnun í augum þeirra, sem framhaldandi þyrftu á því að halda að fá fé geymt í söfnunarsjóðnum, eins og tíðkazt hefur í alla þá tugi ára, sem sjóðurinn hefur starfað, og núna sýnir sig í hinum langa lista yfir hvers konar sjóði og minningarsjóði og styrktarsjóði og alls konar sjóði víðs vegar úr héruðum landsins, sem geymdir eru í söfnunarsjóðnum, hverra tala er orðin talsvert á níunda hundrað.

Ég held, með allri virðingu fyrir okkar hv. fjhn., að það hafi ekki verið nægilegur gaumur gefinn þessu atriði, að því er snertir þá einstöku sjóðsstofnun, sem hér er um að ræða. Ég hef fyrir mörgum árum komizt ! svipaða aðstöðu hér á Alþingi að því er snertir söfnunarsjóðinn, aðstöðu honum til verndar, þó af öðrum ástæðum en þeim, er hér liggja fyrir, og það var víst á árinu 1924, þegar þá var hafizt handa um að óska breytinga á fyrirkomulagi á lánum þessarar stofnunar, sem komu þó ekki til að ganga fram. Mér er það mjög í minni, þó að langur tími sé nú liðinn síðan þetta gerðist, hversu bæði ég og aðrir þeir, sem þá áttu sæti í þeirri nefnd, sem ég hygg að hafi verið fjhn., er fjallaði um þetta mál hér á þingi í þá daga, fengum eiginlega nýja útsýn yfir tilgang stofnenda söfnunarsjóðsins, tilgang hans og starf, þegar hinn háaldraði öldungur, sem þá var, séra Eiríkur Briem, kom á nefndarfund og skýrði okkur frá og sagði sögu sjóðsins, tilgang stofnendanna og framhald hans starfsemi allt til þess dags. Sneri hann þá sínum orðum mjög eindregið að þeim, er þarna voru viðstaddir og máttu mál hans nema, eindregið að því, að þingið stæði vörð um söfnunarsjóðinn og gengi ekki inn á neinar þær brautir, hvorki þá né endranær, er kynnu að rýra sjóðinn eða gera hann óverulegri í neinum atriðum til að gegna því hlutverki, sem honum var falið. Það voru mjög eindregin tilmæli, sem ég og aðrir þingmenn, er þá vorum í þessari n., hlustuðu á, enda fóru svo leikar, að sú tilraun, sem þá var á ferli og að hyggju forráðamanna sjóðsins og stofnanda hans og margra annarra mundi hafa haft í för með sér að rýra gildi söfnunarsjóðsins, féll þar með niður. Ég álít, að enn í dag þurfi hv. alþm. að hafa þetta sjónarmið fyrir augum, að rýra ekki gildi söfnunarsjóðsins eða stefna honum eða starfi hans réttara að segja neitt út af þeirri braut, er hann hingað til hefur fetað með svo góðum árangri sem vitað er og í svo göfugum tilgangi, að það væri æskilegt, að sá tilgangur kæmi víðar fram í opinberu lífi, Þjóðinni mundi á því vera mikil nauðsyn, þegar svo er komið, ekki eingöngu sem nú er, heldur verið hefur um langt skeið, að það virðist vera erfitt að fá menn inn á þá hugsun að safna í sjóði og spara, eins og m. a. var tilgangur þeirra, sem gengust fyrir stofnun söfnunarsjóðsins.

Ég lýsti hér nokkuð við upphaflega umr. um frv. því, sem forstjóri sjóðsins lagði fyrir n. um undirbúninginn að samningu þessa lagafrumvarps, sem forstjórinn var engan veginn ánægður með. Og ég hlustaði á ræðu hæstv. ráðh. því til skýringar og skal ekki frekar fara inn á þá leið. En mér virðist, að það gefi auga leið, ef söfnunarsjóðurinn á að fá að starfa og blómgast i framtíðinni, ef það er vilji þingsins, að þá sé óheppilegt að sníða honum með löggjöf, með íhlutun frá löggjafarvaldinu, sífellt þrengri stakk að því er vöxt hans og viðgang snertir. Og það er gert þegar með síðustu málsgrein frv., sem bannar sjóðnum að hækka vexti af lánum og virðist stefna að því, að annaðhvort verði hann að sætta sig við miklu lægri vexti en honum hentar eða þá að segja lánunum upp, eins og ég lýsti áðan, sem hefur bæði fyrirhöfn og stóraukinn kostnað fyrir lántakendur í för með sér.

Nú hefur enn komið nýtt á daginn í þessu máli, og það er brtt. á þskj. 82 frá hv. 1. þm. N-M., og er með henni, að því er mér virðist, gengið lengra í því að ganga á rétt sjóðsins en nokkurn tíma í frv. sjálfu. Á hinn bóginn skal ég bíða eftir útlistun þess hv. flm. á þeirri brtt., áður en ég geri hana að sérstöku umræðuefni, en hún sýnir bara, að það er talsvert mikil viðleitni uppi í því efni að ganga á rétt þessarar stofnunar, ekki bara frá einni hlið, heldur frá fleiri hliðum.