23.11.1956
Efri deild: 17. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (3062)

30. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við þetta frv., sem fer töluvert í aðra átt en brtt. hv. þm. Vestm., sem hér var að tala áðan og talaði mörgum orðum um tilgang og eðli söfnunarsjóðsins, en komast aldrei að málinu, sem hér liggur fyrir. Tilgangur söfnunarsjóðsins er og hefur verið að ávaxta fé. Og öll þau ár, sem hann hefur starfað, hefur hann borgað hærri innlánsvexti en nokkur önnur peningalánsstofnun í landinu. Hann hefur leyst sitt hlutverk ágætlega af hendi hvað það snertir að ávaxta fé. Um skeið lánaði hann ekki lán, heldur keypti aðeins verðbréf með afföllum, og vextirnir af þeim og afföllin komu svo fram til innstæðueigenda. Og þar sem kostnaður við þetta hefur alla tíð verið ákaflega lítill og sjóðurinn rekinn þannig og er þannig í eðli sínu, að rekstrarkostnaðurinn getur ekki verið annað en lítill, þá hafa alltaf verið borgaðir hærri vextir til þeirra sjóða, sem hafa átt innstæður í söfnunarsjóði, heldur en til allra annarra, sem hafa átt innstæður í öðrum peningastofnunum á landinu. Þetta er mergurinn málsins. Það hefur verið hægt að ávaxta sína peninga fyrir hærri vexti í söfnunarsjóðnum en annars staðar, og það er hægt enn og verður e.t.v. hægt, þótt mín till. verði samþykkt.

Það, sem hér er um að ræða, er þetta: Hvort leggjum við hv. alþingismenn meira upp úr því að láta þá innstæðueigendur, sem eru alls konar sjóðir með ákaflega ólíkum tilgangi og eiga sína peninga í söfnunarsjóði, — hvort leggjum við meira upp úr því að láta þessa sjóði hækka eitthvert brot úr prósenti örara en ella með því að leyfa söfnunarsjóðnum að segja upp öllum gömlu lánunum og hækka af þeim vexti, heldur en að láta hækka vexti af hafnarbótalánunum og yfirleitt lánunum, sem söfnunarsjóðurinn hefur lánað, sem allt saman eru lán í nauðsynlegar framkvæmdir, sem framkvæmdir athafnalífsins byggjast á? Hvort leggjum við meira upp úr, að mennirnir, sem eru starfandi í landinu í þessari og þessari atvinnu og hafa fengið fé lánað úr söfnunarsjóðnum og borga nú af því lægri vexti, — hvort leggjum við meira upp úr, að þeir þurfi að hækka vextina og þunginn að leggjast á þá atvinnuvegi, sem lánin mynda grundvöll að, hverjir sem þeir eru, eða hitt, að vaxi sjóður, sem á að borga út hluta af vöxtunum í einhverju augnamiði, en annars meiri hlutinn af þeim leggjast við sjóðinn og á alltaf að leggjast við, endalaust að leggjast við? Þetta er það, sem um er að ræða. Þetta er það, sem um er deilt. Leggjum við meira upp úr því að reyna að skapa atvinnulífinu í landinu skilyrði, sem það geti starfað undir á hagkvæman hátt, á sem beztan hátt fyrir þá menn, sem núna lifa, eða hinu, að leggja nokkurt brot úr prósenti hærri vexti við eilífðarsjóði, sem í söfnunarsjóðnum eru og þar eiga að vera til þess að geta veitt mönnum lán í framtíðinni um tíma og eilífð? Það er þetta, sem okkur greinir á, mig og þm. Vestm. Hann vill heldur láta t.d. Vestmannaeyjabæ, ef hann skyldi eiga lán þar, þurfa að hækka sína vexti um 1% og leggja það á sjómennina, sem nota höfnina við fiskveiðar sínar, en láta alla innstæðueigendur söfnunarsjóðsins fá eitthvert brot úr prósentu minni vexti en hann fær nú. Hann vill heldur, að einhver aðili, sem hefur lagt fé í söfnunarsjóðinn í Vestmannaeyjum, við skulum segja Búnaðarfélagið, fé, sem á að standa þar um tíma og eilífð, en Búnaðarfélagið getur kannske fengið þriðjunginn af vöxtunum útborgað, þegar sjóðurinn er orðinn einhver ákveðin upphæð, fái lægri vexti en nú, en þó alltaf meiri vexti en væru peningarnir ávaxtaðir annars staðar, — hann vill heldur láta sjóðinn vaxa og aukast en láta hafnarbótalán, sem hafa verið veitt til bæjarins, standa áfram með þeim vöxtum, sem eru, — hann vill heldur láta þá hækka um 1% heldur en hitt. Þetta er það, sem okkur greinir á um. Og þetta er það, sem þingið sker úr með þessari brtt. Hvenær sjóðurinn sé stofnaður og hver tilgangurinn sé o.s.frv., o.s.frv., það allt saman skal ég láta liggja á milli hluta, það kemur málinu ekki beinlínis við. Það er þetta, sem um er að ræða: Á að leggja meiri áherzlu á það að íþyngja atvinnulífinu með því að hækka vexti af gömlum lánum, sem um hefur verið samið og engin þörf er á að hækka að því leyti til, að sjóðirnir þurfa ekki á því að halda að fá hærri vexti til neinnar sérstakrar útborgunar, — á að leggja meira upp úr því en hinu að láta sjóðinn vaxa og eflast. Þm. Vestm. og þeir, sem honum fylgja, vilja íþyngja atvinnulífinu, en leggja aftur meiri áherzlu á hitt, að sjóður, sem aldrei á að tæmast og alltaf á að standa, geti hækkað um ofur lítið brot úr prósenti meira á ári. Það vilja þeir. Ég vil lofa deildasjóðunum að vaxa svolítið hægara, en láta atvinnulífið ekki fá aukinn þunga af hækkuðum vöxtum á þeim lánum, sem það hefur í söfnunarsjóðnum. Þetta er það, sem menn gera upp á milli, þegar þeir greiða atkv. um till. okkar.