07.02.1957
Efri deild: 52. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (3065)

30. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Það er nú búið að hvíla sig nokkuð lengi þetta mál, og er tæpast, að ég hafi þræðina svo í hendi sem var, þegar við skildumst við það síðast. Þó mun ég reyna að minnast eitthvað á það.

Það liggja fyrir í málinu, eins og vitað er, nál. frá fjhn. upphaflega, sem ég og hv. samflokksmaður minn í fjhn. undirskrifuðum á sínum tíma. En vegna upplýsinga, er þá skorti og síðar hafa fram komið, höfum við nú borið fram brtt. við málið á þskj. 78, um það, að síðasti málsliður 1. gr. falli niður.

Hv. 1. þm. N-M. hélt hér nokkra tölu um þetta mál á sínum tíma og taldi mig og þá, sem andmæltu málinu á nokkurn hátt, ekki hafa verið á réttri leið, og ég held, að hann hafi orðað það þannig, að við höfum í raun og veru ekki komið nærri málinu. Ég hef fyrir framan mig frá söfnunarsjóðnum talsvert góðar upplýsingar, sem hnekkja rækilega því, sem hv. þm. hélt fram, þar sem hann taldi, að sjóðir, sem ávaxtaðir eru í söfnunarsjóðnum, hafi að mestu verið lánaðir til hafnargerða, rafveitna o.s.frv.

Þann 26. nóv. fyrra árs ritaði forstjóri, að gefnu þessu tilefni, bréf til Alþingis, sem ég hef í höndum og vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að gera hv. þd. kunnugt. Þær upplýsingar, sem þar í eru gefnar, eru fram komnar, eftir að kunnugt var, hverju haldið var fram við 2. umr. málsins í þessari hv. deild.

Samkvæmt reikningi Söfnunarsjóðs Íslands, birtum í B-deild Stjórnartíðindanna, skiptust útlán þannig í árslok 1955:

A) Veðskuldabréf, fasteignaveð . .. 11292458.90

B) Skuldabréf bæjar- og sveitarfél. 4178197.66

C) Bankavaxtabréf .............. 192100.00

D) Innanríkislán ................. 42000.00

Samtals:15704756.56

Og segir svo enn fremur í þessu bréfi:

„Af ofangreindu sést, að það er ekki rétt, sem hv. þm. N-M. hélt fram í þingræðu, að sjóðir þeir, sem ávaxtaðir eru í söfnunarsjóðnum, hafi að mestu verið lánaðir til hafnargerða, rafveitna o.s.frv. Það er að snúa hlutunum við að telja það hlutverk söfnunarsjóðsins að sjá lántakendum fyrir hagkvæmum lánum, því að í lögum söfnunarsjóðsins, dags. 10. febr. 1888, er það beinlínis tekið fram, að tilgangur söfnunarsjóðsins er að geyma fé, ávaxta það og auka og útborga vextina um ókomna tíð, eftir því sem upphaflega er ákveðið, sem og til að styrkja menn til að safna sérstakri upphæð. Enn fremur er það misskilningur þm., að vextir innstæðueigenda séu jafnháir eða jafnvel hærri en sparisjóðsvextir. Síðastliðið ár voru þeir, þ.e. vextir innstæðueigenda, 5.25%.

Það var undarleg rökfærsla að halda því fram, að sjóði, sem ávaxtaðir eru í Söfnunarsjóði Íslands, muni lítið um að fá hærri vexti, en að það sé þjóðarvoði, ef lántakendur greiði þá vexti, sem lánsstofnanir taka almennt, eins og hv. þm. hélt fram. Bæjar- og sveitarfélög skulda í sjóðnum aðeins rúmar 4 millj. Auk þess gefur það auga leið, að því hærri vaxtatekjur sem sjóðirnir hafa, þeim mun meira er hægt að lána til nýrra framkvæmda. Ekki væri ósennilegt, að þeir, sem umráð hafa með sjóðum, sem ávaxtaðir eru í Söfnunarsjóði Íslands, ætluðust til þess að fá almenna sparisjóðsvexti af innstæðum sínum að minnsta kosti, enda væri auðveldlega hægt að gera það, ef söfnunarsjóðurinn notaði sér heimild þá, sem er í skuldabréfum hans, um 6 mánaða uppsagnarfrest, ef lántakendur kysu frekar að greiða lánin upp en greiða 7% í vexti.

Söfnunarsjóðurinn er rekinn með hagsmuni innstæðueigenda fyrir augum, enda er nær öllum vaxtatekjum hans skipt milli vaxtaeigenda í hlutfalli við inneign þeirra.“

Þetta segir forstjóri Söfnunarsjóðs Íslands að gefnu tilefni, út af því, sem fram kom sérstaklega frá hv. þm. N-M. við 2. umr. málsins.

Það er í fullu samræmi við það, sem ég hafði áður haldið hér fram, og þó að það kunni ekki að verða rönd við reist, að stjórnarfrv. nái fram að ganga óbreytt, þá held ég og við fast við brtt. á þskj. 78, en erum á móti brtt. hv. þm. N-M. á þskj. 82.

Verði ekkert tillit tekið til röksemda okkar og þeirra upplýsinga, sem hafa verið lagðar hér fram í þessu máli að gefnu tilefni frá sjálfum söfnunarsjóðnum, síðan það var afgreitt upphaflega frá nefndinni, að órannsökuðu máli, þá mun ég fyrir mitt leyti ekki hika við að greiða atkv. á móti málinu, því að það er skylda þm., ekki aðeins réttur, heldur skylda þm. að dæma mál á hverju stigi eftir því, sem réttar upplýsingar eru lagðar fram við meðferð þess, unz lýkur í þingdeild eða sameinuðu þingi, ef svo er. Ég skal svo ekki þreyta umr. um þetta meira frá minni hlið, nema vefengt verði það, sem haldið hefur verið hér fram af mér f.h. söfnunarsjóðsins og upplýst er nú við umr. í þessari hv. deild.