10.05.1957
Efri deild: 97. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (3073)

30. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Á þskj. 78 flytjum við hv. þm. Vestm. (JJós) brtt. við þetta frv. um, að niður falli síðasti málsl. 1. gr. Fyrri flm. er hv. þm. Vestm., en þar sem hann er ekki hér nú, mun ég segja nokkur orð til rökstuðnings þessari tillögu.

Efni þessa frv. er það fyrst og fremst að leyfa söfnunarsjóðnum að áskilja sér allt að 7% í ársvexti af lánum, sem tryggð eru með veði í fasteign eða handveði, og er þetta gert eftir ósk stjórnar söfnunarsjóðs. Í stjórnarfrv. hefur hæstv. fjmrh. hins vegar bætt inn ákvæði, sem stjórn söfnunarsjóðsins er andvíg, og það er niðurlag 1. gr., svo hljóðandi: „Óheimilt er að hækka vexti af lánum, sem veitt hafa verið úr sjóðnum við gildistöku laga þessara, frá því er samið var um, þegar lánin voru tekin.“ Brtt. okkar er þess efnis að fella niður þessa málsgr. í samræmi við óskir sjóðsstjórnarinnar. Sjóðsstjórnin hefur ritað fjhn. þessarar d. bréf, sem ég skal leyfa mér að lesa hér kafla úr, en þar segir m.a. svo:

„Á hinn bóginn hefur ráðherrann án þess að ráðfæra sig við stjórn söfnunarsjóðsins bætt við lagafrv. því ákvæði, að óheimilt sé að hækka vexti af lánum, sem veitt hafa verið úr sjóðnum. Samkvæmt því ættu nær öll lán, sem sjóðurinn hefur veitt, að haldast um alllangan tíma enn í 5% vöxtum, en það var ætlun stjórnar sjóðsins að hækka vexti af þeim til jafns við það, sem gerist og gengur, til þess að geta greitt innstæðueigendum hæfilega vexti og örvað þannig til innlána. Stjórn sjóðsins treystir því, að hið háa Alþingi líti sömu augum og hún á nauðsyn þess að efla innstæðufé og opinbera sjóði, enda skal á það bent í þessu sambandi, að langmestur hluti innstæðna í sjóðnum eru óskerðanlegar inneignir, þ.e. ekkert er greitt út nema hluti af ársvöxtum. Með því að hlynna að þessum innstæðum vaxa þær því að staðaldri, auk þess sem hærri arður örvar til nýrra framlaga.“

Síðan segir sjóðsstjórnin:

„Í öllum venjulegum skuldabréfum söfnunarsjóðsins eru ákvæði um gagnkvæm uppsagnarréttindi. Lánþegi getur á þann hátt sagt upp og krafizt lækkaðra vaxta, ef svo ber undir. Lánveitandi getur sagt upp og krafizt hækkaðra vaxta, ef almenn vaxtahækkun er svo mikil, að ástæða sé til.“

Síðan segir sjóðsstjórnin:

„Verður ekki séð, þótt þetta frv. yrði að lögum, að réttur söfnunarsjóðsins til að segja slíkum lánum upp með 6 mánaða fyrirvara verði skertur, enda er hér um gagnkvæmt samningsatriði að ræða og verður ekki breytt með lögum. Verði frv. þetta hins vegar að lögum, neyðist stjórn söfnunarsjóðsins til að segja slíkum lánum upp, enda þótt henni sé það þvert um geð að þurfa að útskýra það fyrir gömlum og skilvísum viðskiptavinum, að löggjafinn hafi ekki gert henni annars úrkosta.“

Síðan segir í þessu bréfi:

„Það skal tekið fram, að söfnunarsjóðurinn er ekki stofnaður til þess að láta mönnum í té hagkvæm lán í sérstöku augnamiði, eins og t.d. veðdeild Landsbankans. Áður en vextir voru með lagaboði lækkaðir í 5%, greiddu lántakendur 61/2, en þurftu engar afborganir að greiða, á meðan veðinu var haldið í fullu verðmæti, nema þeir óskuðu sjálfir. Allur samanburður við veðlán veitt til ákveðins tíma er því út í hött. Stjórnin fer því eindregið fram á það, að síðasta málsgr. 1. gr. frv. verði felld niður.“

Ég skal ekki ræða hér um þetta neitt að ráði. Á fyrra stigi málsins gerði hv. þm. Vestm. ýtarlega grein fyrir þessu og skýrði þá m.a., hversu söfnunarsjóðurinn er á marga lund með allt öðrum hætti en venjulegar banka- eða lánsstofnanir. M.a. kemur það fram í því, að í þessum söfnunarsjóði stendur fjöldi sjóða, fjöldi inneigna, sem eru óskerðanlegar þ.e.a.s. eigendur þeirra fá aðeins ársvextina, en sjóðirnir eiga eftir að standa þarna og inneignirnar jafnvel um aldur og ævi.

Það er að sjálfsögðu afleiðing þess, ef sjóðnum er fyrirskipað að halda sér við hina lágu vexti, sem ekki eru í samræmi við vexti nú í dag annars staðar, að sjóðirnir, sem þarna standa inni, fá minni tekjur en ef slíkir sjóðir stæðu inni í venjulegum lánsstofnunum, og það er vissulega mjög komið í bág við anda og tilgang þessarar merku stofnunar, söfnunarsjóðsins, ef svo á að fara, að þeir, sem leggja innstæður, sem eiga að vera óskerðanlegar um langan aldur, inn í söfnunarsjóðinn, fái lægri vexti, minni arð af því en greiddur er í venjulegum peningastofnunum, að maður tali nú ekki um þá vexti, sem hægt er að fá annars staðar.

Ég vil fyrir mitt leyti leggja eindregið til, að till. okkar á þskj. 78 — í samræmi við óskir stjórnar söfnunarsjóðsins — verði samþykktar.