10.05.1957
Efri deild: 97. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í C-deild Alþingistíðinda. (3077)

30. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mig langaði mikið til að fá útskýringu á því hjá hv. 6. þm. Reykv., hvernig sjóður, sem þarf þó dálítið rekstarfé á ári, þó að það sé nú ekki mikið, — líklega hefur hann alltaf borgað forstjóra og stjórn og húsaleigu og eitthvað svoleiðis, — fer að lána út fé fyrir 5% og borga 5.27% í vexti af innlánsfé eins og hann hefur gert. Hvaðan kemur mismunurinn? Hann lánar með 5% vöxtum, en svo borgar hann bara 5.27% til þeirra, sem eiga inni í honum. Hvaðan kemur mismunurinn?

Þetta langaði mig til að fá að vita í framhjáhlaupi, því að ég lít þannig á, að það sé bæði af þeirri ástæðu, sem hæstv. ráðh. talaði um, og svo fyrir mér sérstaklega af annarri ástæðu, þeirri, að útlán söfnunarsjóðsins standa yfirleitt í framleiðslulánum hjá þjóðinni og við viljum fá framleiðsluna sem ódýrasta og mér þykir hún berjast nóg í bökkum, þess vegna sé ástæðulaust að hækka vexti á gömlum lánum, sem standa í framleiðslunni, til þess að láta í sjóði, sem eiga að notast einhvern tíma og einhvern tíma í óendanlega langri fjarlægð og suma alveg ómögulegt að nota eftir tilganginum.

Hv. 6. þm. Reykv., sem talaði áðan, er ef til vill kunnugt um, að það eru líklega til tveir sjóðir núna í söfnunarsjóði, sem senn hvað líður á að fara að borga út vexti úr.

Annar á að borgast til erfingja manns, sem dó í Ameríku, og þeir munu vera margir tugir eða hundruð; og það veit enginn, hvar þeir eru. Vextina af sjóðnum, sem lagður var fyrir upprunalega, á að borga út ættingjum þessa manns, þegar þeir eru orðnir svona miklir, og þeir munu vera, eftir því sem menn hafa komizt næst, komnir upp í kringum 200 kr. Ég býst við, að það þurfi að fara að gera breytingu á söfnunarsjóðnum, til þess að hann geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart þeim, er lögðu féð inn.

Með annan sjóð er álíka ástatt, þar mun líka vera mjög mikill vafi á, hvað á að gera við vextina. Það eru líka erfingjar dáins manns, sem eiga að fá þá, og þeir eru orðnir svoddan grúi, að það er ekkert yfirlit yfir, hverjir þeir eru.

Það eru þess vegna ýmsir af þessum sjóðum, sem eru í söfnunarsjóðnum, sem eru þess eðlis, að það er áreiðanlega þörf á því að athuga hann frá rótum meira en þetta frv. gerir. En það, sem hér er um að ræða, er bara þetta frá mínu sjónarmiði séð: Nú hefur söfnunarsjóðurinn sagt upp líklega öllum lánum til þess að vera viðbúinn að geta hækkað vextina, ef frv. færi fram í óbreyttri mynd. Hann er tilbúinn til þess að gera það, og ég hygg, að það sé engin leið að fyrirbyggja það, ef maður gerði ekkert. Fari frv. eins og það er, þá mundi söfnunarsjóðurinn standa við sínar uppsagnir. Mennirnir verða að fá ný lán og fengju þau sjálfsagt, yrðu bara að borga lántökugjald og 7% í vexti. Ef frv. yrði samþykkt og mín till. jafnframt, þá verða þessi uppsagnarbréf, sem hann hefur verið að skrifa til lántakenda í vetur, öll óþörf, þá detta þau niður, eins og þau hefðu aldrei verið skrifuð. Þá getur hann ekki komið því fram. Þess vegna vil ég mæla með henni, eins og ég gerði á sínum tíma.

Annars verð ég nú að segja það, að ég skil ekki afstöðu hv. 6. þm. Reykv. Hann gefur fyrst nál. Nefndin hefur athugað frv., og þykir henni eðlilegt, að Söfnunarsjóði Íslands verði heimilað að borga vexti af nýjum lánum í samræmi við þá vexti, sem bankarnir taka. Hins vegar telur hún ekki rétt, að heimild þessi nái til eldri lána, sem samið hefur verið um. — Þetta segir hann í nál. Nefndin leggur því til, að frv. verði samþykkt óbreytt. Undir þetta skrifar hann og hv. þm. Vestm. En svo þegar kvenmaður skrifaði og biður þá að gera annað: Veskú, allt, sem þú vilt, skal þér til reiðu.