08.04.1957
Efri deild: 84. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í C-deild Alþingistíðinda. (3091)

117. mál, umferðarlög

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. í frv. til umferðarlaga fjallar 25. gr. um akstur og áfengi. Þar er því slegið föstu, að ef vínandamagn í blóði ökumanns mælist 0.60 til 1.30%, skuli hann eigi talinn fær um að stjórna ökutæki örugglega. Nemi vínandamagnið í blóði hans 1.30% eða meira, þá skoðast hann óhæfur með öllu til að stjórna vélknúnu ökutæki. Markið 0.60% virðist valið nokkuð af handahófi. Í grg. er bent á, að hjá Norðmönnum sé það 0.50, en 0.80 hjá Svíum. Er svo að sjá sem höfundar frv. hafi óskað að þræða meðalveginn, viljað þræða bil beggja og að talan 0.60 sé þannig til komin.

Nú er það viðurkennt af þeim, sem til þekkja, að ökuhæfni manns, er neytt hefur áfengis, skerðist til muna, áður en vínandamagnið í blóði hans nær 0.60%0. Þetta vita höfundar frv. Það sýnir grg., en þar segir svo orðrétt á bls. 30, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt vísindalegum rannsóknum og raunhæfum prófunum hefur reynslan orðið sú, að 0.50% vínandamagn í blóði skerðir hæfni allflestra manna svo, að varhugavert megi teljast, að þeir aki bifreið eða vélknúnum ökutækjum yfirleitt.“

Þessi staðreynd, sem viðurkennd er í gr., er sniðgengin í sjálfu frv. Þar er leyft vinandamagn í blóði ákveðið hærra en það magn, sem þó skerðir hæfni allflestra manna til aksturs. Með þessu er verið að gera einhverju öðru en umferðaröryggi hátt undir höfði.

Á árunum 1947 til 1952 gerði stjórnskipuð nefnd í Svíþjóð samtals 3000 prófanir á mönnum, er neytt höfðu áfengis, í því skyni að fá samanburð á vínandamagninu í blóði þeirra og aksturshæfninni. Leiddu þær prófanir það m.a. í ljós, að vínandamagnið 0.30 til 0.50% tvöfaldaði slysahættuna. Þessi niðurstaða mun hvergi hafa verið vefengd, þó að dregizt hafi um of að sníða lög í samræmi við hana. Markið 0.60% vínandamagn í blóði er of hátt. Það er hreint ábyrgðarleysi gagnvart vegfarendum að staðnæmast við það nú, þegar kunnugt er orðið um hættu hinnar léttu vímu. Nær lagi hefði verið að setja markið í 0.30%, að ég ekki tali um að láta alla hækkun á vínandamagni í blóði, hversu lítil sem hún er, jafngilda skertri hæfni til aksturs. Ég áræði þó ekki að bera slíkt fram í tillöguformi nú, enda þótt ég helzt kysi að gera það. Ég óttast sem sé, að það yrði litið á það sem ofstæki eða firru að þessu sinni. Það er þó ekki meiri fjarstæða en svo, að 36 ríkisþingmenn Svíþjóðar hafa nýlega krafizt þess, að hver sá ökumaður, sem sýni hækkun á vínandamagni í blóði, skuli sæta refsingu. Hér á landi ætti það að vera auðvelt verk að fá markið sett við lága „promille“-tölu. Ég get skilið, að það muni erfiðara í bjórdrykkjulöndum, þar sem áhrifa margra bruggara og enn fleiri bjórvamba gætir. Í Svíþjóð er markið nú 0.80%. Í Danmörku hefur að sögn verið lagt til, að það yrði 0.60, eins og gert er ráð fyrir í frv. því, er hér liggur fyrir. Í Noregi er þetta mark 0.50%, og er það sama talan og er í till. minni á þskj. 416. Ég hef sett þessa tölu í þeirri von, að hún nái samþykki hv. þdm., en ekki af því, að ég sé fyllilega ánægður með hana, og er hún þó skárri en sú, sem í frv. stendur.

Jafnvel þótt gert sé ráð fyrir óhjákvæmilegri ónákvæmni við mælingu vínandamagns í blóði, er markið 0.50 ekki of lágt. Þeim, sem ekki geta fellt sig við, að Íslendingar skipi sér á bekk með Norðmönnum einum í þessu efni, skal á það bent, að sennilega lækka Svíar markið hjá sér innan skamms niður í 0.50%.

Í ritinu Nordisk kontakt, sem flestir hv. þdm. munu hafa á borðinu hjá sér nú, 5. hefti þessa árs, er frá því skýrt, að samgmrh. Svía leggi nú til, að leyft hámark vínandamagns í blóði við akstur skuli lækka úr 0.80% niður í 0.50%. Verði það að lögum, má vænta þess, að Danir sjái sig um hönd og fylgi nágrönnum sínum. En fari svo, erum við óðar en varir orðnir vægastir í kröfum við þá ökuníðinga, sem með áfengisneyzlu sinni stofna lífi og limum annarra í aukna hættu. Er þá að vísu átt við Norðurlandaþjóðir, en þær standa flestum þjóðum framar í þessu menningarmáli eins og fleirum. En áhuginn er víðar að vakna, ekki sízt í Bandaríkjunum þar sem nú er mikið ritað um þörfina á aukinni vernd vegfarenda. Þar farast árlega 35–40 þús. manns í umferðarslysum, og mun láta nærri, að í 25 af hundraði bifreiðaslysanna eigi áfengisneyzlan sína sök. Í merku bandarísku læknatímariti, sem nýlega helgaði umferðarslysunum heilt hefti, er sáran kvartað undan tómlæti almennings, löggjafa og dómara í viðskiptum við ölvaða ökumenn. Þetta sinnuleysi var líka þekkt hér á landi og á Norðurlöndum, en fer nú óðum þverrandi, þótt enn eimi eftir af því.

Í frv. er gert ráð fyrir, að sá maður, sem hafi 1.30% vínandamagn í blóðinu eða meira, skuli teljast óhæfur til aksturs. Þetta mark er einnig of hátt, enda er slíkur maður undir talsverðum áfengisáhrifum. Sænska rannsóknarnefndin, sem ég gat um áðan, komst að þeirri niðurstöðu, að maður með 1.50% vínandamagns í blóði væri 30 sinnum hættulegri við akstur en allsgáður. Samkvæmt því mætti áætla, að 1.25% vinandamagn tífaldaði slysahættuna. Samt ætti ekki samkvæmt ákvæðum frv. að dæma slíkt algera óhæfni til aksturs. Þetta mark hefði ég viljað lækka ofan í 1%, eins og áfengisvarnaráð hefur stungið upp á í skynsamlegri grg., er það sendi hv. allshn. um þetta mál. En ég tel vonlítið, að sú breyting fáist gerð í þetta sinn, og því legg ég til, að markið 1.30% verði lækkað niður í 1.20%. Mun það vera í samræmi við síðustu till. norrænnar nefndar, sem haft hefur til athugunar samræmingu á umferðar- og áfengislögum Norðurlanda. Ætti því ekki að vera frágangssök að fallast á þá lækkun.

Ég vænti þess, að hv. þdm. muni ekki telja brtt. á þskj. 416 fjarstæðukennda, þegar þeir hafa hugleitt málið. Mér virðist breytingin fyllilega tímabær og í samræmi við þróunina hjá frændþjóðum okkar. Hitt hefði ég talið okkur Íslendingum til hróss, að færa margnefnd mörk enn lengra niður. Í þá átt hlýtur þróunin að fara í þessu efni, og þótt ég hafi ekki árætt að fara lengra í till. en raun ber vitni um, skyldi ég fúslega styðja till., er lengra gengju.