15.10.1956
Sameinað þing: 1. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

Rannsókn kjörbréfa

Síðari frsm. 2. kjördeildar (Jón Pálmason):

Herra forseti. Síðan ég flutti mína framsöguræðu um þetta afbrotamál s. l. fimmtudag, hafa nokkrar ræður verið fluttar af fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna, en yfirleitt hafa þeir gefizt upp við að koma með nokkur frambærileg eða sæmandi varnarrök fyrir kosningasvikum Hræðslubandalagsins, Ég verð þó að segja hér nokkur orð í tilefni af því, sem fram hefur komið hjá þessum mönnum.

Byrja ég á frsm. meiri hl. 1. kjördeildar, þeim manni, sem við verðum hér illu heilli að kalla hv. þm. Ak. Það er mjög við hæfi, að stjórnarliðið skyldi velja þennan mann til að verja hér á Alþ. öll sín afbrot gegn stjórnarskrá og kosningalögum í síðustu kosningum. Ég segi svo af því, að þessi maður er sjálfur einn allra sekasti aðilinn í þessu máli. En af því að þetta er fullorðinn maður og lögfræðingur, ætti hann að vita, hvað hann hefur aðhafzt. Og maður hefði getað gert ráð fyrir, að hann hefði það vakandi blygðunartilfinningu, að hann hefði forðazt það meira en aðrir menn í þessum sal að taka til máls við þessar umræður. Ég ætla nú að segja fáein orð til þessa manns, meðfram vegna þess, hver saga hans er í síðustu kosningum, en einkum vegna þess, að hann lét í ljós mikla undrun í ræðu sinni á fimmtudaginn út af því, að ég skyldi leyfa mér að tala um lögbrot, rétt eins og það sé ákaflega lítilfjörlegt að tala um svo smávægilega hluti í sambandi við síðustu alþingiskosningar.

Við sjálfstæðismenn höldum því fram, að samvinnan í Hræðslubandalaginu hafi verið svo alger og náin, að ekki sé annað fært en að skoða það sem einn flokk við úthlutun uppbótarþingsæta, Undir þetta tóku tveir aðrir flokkar af fullum krafti í vor, Alþýðubandalagið og Þjóðvarnarflokkurinn. Þessu neitar Hræðslubandalagið harðlega. Það segist vera tveir flokkar áfram og bara einn á meðan á kosningunum stóð. Það vill annan daginn vera einn flokkur, hinn daginn tveir flokkar, og hefur nú keypt upp þingmenn Alþýðubandalagsins til að samþykkja, að það sé tveir flokkar. Ber því að ræða útkomuna með hliðsjón af því og sýna fram á lögbrot þau og óheilindi, sem augljós eru, þegar við það er miðað.

Út frá þeirra sjónarmiði hefur því verið mótmælt hér, að nokkur af frambjóðendum Hræðslubandalagsins hafi í síðustu kosningum verið frambjóðandi fyrir tvo flokka. Fyrir því hafa þau ein rök verið færð, að þess hafi hvergi verið getið í framboðsyfirlýsingu nokkurra þessara manna, að þeir væru frambjóðendur fyrir tvo flokka eða fleiri. Það er vitað og rökstutt með tilvitnunum í þrjár greinar kosningalaganna af minni hálfu, að lögin gera ráð fyrir framboðum fyrir fleiri en einn flokk, Þau banna það lögbrot og ákveða hegninguna fyrir það. En ég hygg, að engum lagasmið hafi nokkurn tíma komið til hugar, að svo mikill glópur væri samþykktur í framboð við alþingiskosningar, að hann gæfi um það yfirlýsingu fyrir fram í framboði sínu, að hann byði sig fram fyrir tvo flokka, og ætlaði þar með að brjóta kosningalögin. Ég hef heldur aldrei heyrt þess getið, að þeir menn, sem ætla á öðrum sviðum að fremja afbrot gegn lögum, hvort sem það er þjófnaður, fölsun, svik eða aðrir glæpir, auglýstu ætlun sína fyrir fram. Það kann að vera, að þeir, sem þekkja betur sakamálasögurnar, viti um slík dæmi, en ég er ófróður á því sviði og hef heldur aldrei heyrt getið um slíkt. Eins er með framboðin. Afbrotin koma fram í verkinu sjálfu. Það er reynslan, sem sannar afbrotið, en ekki neinar yfirlýsingar um ákvarðanir fyrir fram.

Hvernig kemur þetta svo út með frambjóðendur Hræðslubandalagsins? Ég og margir aðrir hafa tilgreint hin landskunnu dæmi um kjörlista beggja flokkanna í Reykjavík og í Árnessýslu, þar sem á lista við hlutfallskosningar er raðað saman mönnum úr tveimur flokkum og þar á meðal alþekktum forustumönnum líka úr þeim flokki, sem ekki er talið að listinn sé borinn fram fyrir. Þarna eru sannanirnar um afbrotið svo augljósar, að þær blasa við augum allrar þjóðarinnar. En tökum næstu dæmi úr einmenningskjördæmum, t. d. Akureyri og víðar. Hverjar skyldu þar vera sannanirnar fyrir því lögbroti, að frambjóðandinn er frambjóðandi tveggja flokka, ef það er ákveðið eins og hér á að gera, að þetta bandalag sé tveir flokkar? Þær sannanir liggja líka nokkuð ljóst fyrir. Fyrsta sönnun: Flokksfélög tveggja flokka samþykkja á fundum hvert hjá sér að stilla fram sameiginlegum frambjóðanda fyrir báða flokkana, þó að hann megi ekki bera heiti nema annars, svo að hægt sé að svíkja út uppbótarþingsæti á hin atkvæðin. Önnur sönnun: Forustumenn beggja flokkanna raða sér saman á meðmælendalista hins sameiginlega frambjóðanda. Þriðja sönnun: Flokksfundir eru haldnir til að herða upp kjósendur til fylgis við frambjóðandann, einkum í þeim flokki, sem maðurinn telst ekki til. Fjórða sönnun: Blöð beggja flokka skrifa um það viku eftir viku og dag eftir dag, hver nauðsyn sé, að fólkið í báðum flokkum fylki sér um hinn sameiginlega frambjóðanda beggja flokkanna, enginn megi ganga undan, enginn megi svíkja, eins og áróðursmennirnir hamast á, allir verði að fylgjast að. Fimmta sönnun: Launaðir sendimenn eru látnir fara hús úr húsi og bæ frá bæ, stundum með frambjóðandanum, stundum án hans, til að tala um fyrir fólkinu að kjósa manninn, þó að hann sé úr öðrum flokki en Framsfl. eða þá Alþfl., eftir því, hver á í hlut. Sjötta sönnun: Á framboðsfundum flytja helztu áhugamenn heitar ræður til að skora á flokksmenn að fylgja nú hinum tvöfalda frambjóðanda og um að gera að fara ekki til andstæðinganna. Sjöunda sönnun: Atkvæðatölurnar, þegar talið er upp úr kössunum í lögbrotakjördæmunum, sanna það, svo að enginn getur verið í vafa um, að spilið hafi heppnazt.

Í mörgum þessum svikakjördæmum voru allar þessar sannanir til staðar í síðustu kosningum að talningu lokinni, brotið gegn 29. gr. kosningalaganna sannað, svo að ekki var um að villast. Í öðrum lágu sumar sannanirnar fyrir, en aðrar ekki. Í engu einmenningskjördæmi var þó sönnunin eins ljós og Akureyrarbæ, Þar lá það ljóst fyrir, að kjördæmið var með lögbrotum svikið af heiðarlegum og ágætum alþingismanni, Jónasi Rafnar. Kosningatölurnar eru öruggasta sönnunin. 1953 fékk Framsfl. þarna 877 atkv., en Alþfl. 518 atkv. 1953 fékk Jónas Rafnar 1400 atkv., nú 1562 atkv. Nú fékk Friðjón Skarphéðinsson 1579 atkv., eða 184 atkv. umfram sameiginlega tölu beggja flokka 1953. Hjá báðum byggist hækkunin á fólksfjölgun í bænum vegna sameiningar Glerárþorps. Undanfarið hefur Framsfl. unnið á í þessu kjördæmi. Engar líkur eru til annars en að svo hefði einnig verið nú, en það hefði komið í ljós með sérkosningu. Sennilegt er því, að sá flokkur hafi átt 1000 atkv. af fylgi hins nýja þingmanns. En Framsfl. var vonlaus um að fella Jónas Rafnar á löglegan hátt. Þess vegna var gripið til lögbrotanna. Sá flokkur er þarna aðalsakaraðilinn. En frambjóðandinn ber ábyrgðina, og hún er miklu þyngri og alvarlegri vegna þess, að maðurinn er bæjarfógeti í hinu virðulega bæjarfélagi og á að gæta þar laga og réttar. Þegar svo þessi herra kemur inn á Alþingi, þá er hans fyrsta verk að ganga fram fyrir skjöldu sem framsögumaður fyrir allt svikafélagið, til að verja lögbrot og svik sín og annarra. Og hann lætur mikla undrun í ljós yfir því, að nokkur heiðvirður maður á Alþingi skuli leyfa sér að tala um lögbrot.

Þessi maður, sem talinn er lögfræðingur, sýnir um leið svo furðulega vanþekkingu á lögum að halda því fram, að úrskurður landskjörstjórnar um kjörbréf sé endanlegur úrskurður, sem ekki sé hægt að hagga. Þegar ég heyrði þetta, datt mér í hug: Hefur þessi lögfræðingur aldrei lesið kosningalögin? Mér þætti það satt að segja nærri trúlegast, að þessi og margir aðrir frambjóðendur Hræðslubandalagsins hafi aldrei lesið kosningalögin, a. m. k. ekki fyrir kosningar, þess vegna hafi þeir látið sér verri menn leiða sig eins og blindingja út á þá braut, sem þeir hafa gengið. En það ættu þeir að vita, sem lesið hafa lögin, og a. m. k. allir lögfræðingar að vita, að það er Alþingi, sem á að úrskurða um allar kosningar. Það getur líka ógilt útgefin kjörbréf, þó að engin kæra hafi komið fram og þó að málið hafi alls ekki verið tekið fyrir í landskjörstjórn. Þetta er m. a. ákveðið í 142. gr. kosningalaganna, ef frambjóðandi, sem nær kosningu, hefur brotið 29. gr. sömu laga.

Sagan um Akureyrarkosninguna er fjarri því að vera búin með því, sem ég hef hér sagt. Viðbótin er m. a. sú, að út á hér um bil 1000 Framsóknarflokksatkvæði úr þessu eina kjördæmi á nú Alþfl. að fá uppbótarþingsæti til jöfnunar milli þingflokka. Og þessi furðulegi þm. Ak., sem er dómari í höfuðstað Norðurlands, telur „það algert brot á stjórnarskrá og kosningalögum, brot á viðurkenndum lýðræðisreglum og ofbeldi gegn þessum kjósendum“, ef Alþfl. skyldi ekki fá uppbótarsæti út á atkv. þessara 1000 kjósenda Framsfl. á Akureyri og nokkur þúsund annarra Framsóknarkjósenda.

Akureyrarkosningin er svartasta dæmið frá síðustu kosningum, þó að mörg önnur séu ljót. Að svo er, stafar af því, að þarna var eina dæmið á landinu, þar sem frambjóðandi nær kosningu og fellir vinsælan alþingismann með því móti, að yfirgnæfandi meiri hl. atkv., sem hann fær, er bersýnilega frá öðrum stjórnmálaflokki en þeim, sem hann telur sig í framboði fyrir. Og það er að vilja og vitund frambjóðandans, að hinn stærri flokkur vinnur að því með margvíslegum opinberum og leynilegum aðferðum að fá sína kjósendur til að kjósa þennan tvöfalda frambjóðanda, sem er úr öðrum flokki en þeim, sem sá kjósendahópur fylgir, sem er miklu stærri en hinn. Þó að þessi tvöfaldi frambjóðandi þykist vera einfaldur, þá er það fyrir hann engin afsökun.

Mörg önnur dæmi frá Hræðslubandalaginu eru á sömu línunni, en öll í smærri stíl.

Næst þykir mér ástæða til að segja fáein orð út af ræðu hv. 1. þm. Eyf., er hann flutti á föstudaginn var. Verð ég að byrja á því að geta þess, að það veldur mér sárum vonbrigðum og hryggð, að þessi vinur minn, sem ég tel að öllu eðlisfari virðulegan mann og góðan dreng, skuli leggja sig í það svað að verja svona vondan málstað sem hann hefur nú gert. Það sannast á honum, að hættulegt er að vera í vondum félagsskap og hver dregur nokkurn dám af sínum sessunaut.

Það er eins og þessi hv. þm. hafi fallið í tröllahendur og komizt í álagaham við það að lenda í þessu rótspillta félagi, sem við köllum Hræðslubandalag. Sú er þó bót í máli, að flest af því, sem hann hefur hér sagt nú, er ekki frá honum sjálfum, heldur endurtekning á því, sem aðrir honum verri menn hafa áður haldið fram.

Öll vörn þessa hv. þm. er byggð á því, að öll starfsemi og allar aðferðir Hræðslubandalagsins séu eins og var hjá bandalagi Sjálfstfl. og Bændaflokksins fyrir 19 ½ ári. Ég hef í minni fyrri ræðu sýnt fram á, hvílík reginfjarstæða þetta er. En ég vil bæta því við að nefna aðra hlið þessa máls. Ég var andvígur þessu bandalagi forðum, eins og hv. 1. þm. Eyf. tók fram, en ég tel það mér ekki sæmandi að þræta um það nú, hvort einhverjir menn, lifandi eða dauðir, hafi framið einhver lögbrot fyrir 19–20 árum. Hv. þm. talaði aðallega um afbrot framliðinna manna til afsökunar fyrir sitt Hræðslubandalag. Setjum svo, að einhverjir slíkir menn hefðu brotið lög fyrir 19–20 árum, sem ég segi ekkert um, þá væri það engin afsökun fyrir lögbrotum starfandi stjórnmálamanna nú, Það er langt fyrir neðan virðingu slíks manns sem Bernharð Stefánsson, 1. þm. Eyf., er að fara niður í þá for, sem sannar pólitíska spillingu á hæsta stigi og þekkt er frá sumum hans flokksbræðrum, Hún einkennist með þessu: Ef einhver annar maður hefur gert rangt, þá er mér frjálst að gera það líka, hve langt sem um er liðið. — Ég vona og óska, að vinur minn Bernharð Stefánsson geti að fullu hrist af sér þann álagaham að fara nokkru sinni aftur inn á þvílíkar götur.

Hann sagði, þessi sami hv. þm., að ég hafi haldið því fram, að sumir frambjóðendur Hræðslubandalagsins hafi framið refsivert athæfi. Þetta er rétt. Hitt er rangt, að ég hafi nokkuð imprað á tukthúsvist í því sambandi. Maðurinn veit, að refsing fyrir brot á 29. gr. kosningalaganna er samkv. 147. gr. sömu laga 20–200 kr. sekt, en kjörbréf sekra þm. getur líka Alþingi ógilt, ef því sýnist svo. Þá skal ég geta þess, að hv. 1. þm. Eyf. talar nú svo, að ætla má, að hann sem kjósandi í Akureyrarbæ hafi 24. júní kosið Alþýðuflokksmanninn Friðjón Skarphéðinsson, kannske líka verið hans meðmælandi. Það sýnir, að hann hefur talið þann frambjóðanda líka frambjóðanda fyrir Framsóknarflokkinn.

Í þessu mundi ekki felast neitt lögbrot frá hv. þm. En ég nefni þetta af því, að heldur sýnir það skásett augu í okkar pólitík, ef slíkur héraðshöfðingi og fulltrúi eyfirzkra bænda sem Bernharð Stefánsson er hefur gerzt kjósandi manns úr öðrum flokki í Akureyrarbæ. En þetta mun síður en svo vera einsdæmi í Framsfl. nú. Bernharð er áreiðanlega ekki einn á götunni. Hér í Rvík eru, svo sem kunnugt er, búsettir 6 alþm. Framsfl.: hæstv. forsrh., Hermann Jónasson, fyrrv. hæstv. forsrh., Steingrímur Steinþórsson, hv. þm. N-Þ., Gísli Guðmundsson, hv. 1. þm. N-M., Páll Zóphóníasson, hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, og hv. þm. Barð., Sigurvin Einarsson. Vafalaust hafa allir þessir menn notað sinn atkvæðisrétt hinn 24, júní eða í síðustu kosningum og fylgt þeirri reglu, sem þeir sjálfir börðust fyrir. Þeir hafa kosið lista Alþfl., kannske einkum vegna Rannveigar. Fyrir því er jafnmikil vissa, þó að kosningin sé leynileg, eins og fyrir því, hvernig þeir þm. og frambjóðendur kjósa, sem búsettir eru innan síns kjördæmis. Samkv. þessu hafa sjö af 17 þm. Framsfl. kosið Alþfl. í síðustu kosningum. Út á þessa sjö þm. Framsfl. og allt þeirra fólk á nú Alþfl. að fá uppbótarþingmenn til jöfnunar milli þingflokka, og bæjarfógetinn á Akureyri mundi dæma, að það væri brot gegn stjórnarskránni, kosningalögunum og öllu lýðræði og ofbeldi við þessa sjö framsóknarþingmenn, ef Alþfl. fær ekki uppbótarþingmenn út á þá, Sennilega hafa líka þessir sex þm. Framsfl. í Rvík verið meðmælendur á lista Alþfl. Ég veit það ekki, en ég mundi treysta hæstv. menntmrh., Gylfa Þ. Gíslasyni, bezt til þess að upplýsa það hér, hvort hann hefur ekki haft þessa sex framsóknarþingmenn í greip sinni sem meðmælendur á lista Alþfl. En Alþfl. hefur ekki getað borgað þetta í sömu mynt, því að enginn þm. Alþfl. mun hafa kosið Framsfl., hann hefur ekki átt kost á því. Þeir verða því að færa greiðsluna í annarri mynt.

Þá vil ég segja örfá orð út af ræðum hv. 3. þm. Reykv. (EOl), þó að hann hafi áður fengið allrækilegar ádrepur. Í þau 19 ár, sem ég hef verið með þessum flóðmælska og gáfaða stjórnmálaforingja, hef ég heyrt hann flytja hundruð af ræðum. En ég minnist þess ekki, að hann hafi nokkru sinni komizt út í slíkar ógöngur eins og í ræðu sinni út af lögbrotum Hræðslubandalagsins s. l. fimmtudag. Þetta sýnir og sannar, að málstaðurinn er vondur. Raunar hefur þessi hv. þm. oft áður haft hæpinn málstað, en þetta mun þó vera skítugasta málið, sem komið hefur til kasta Alþingis mjög lengi.

Það hafa verið lesnar hér upp ýmsar lýsingar á aðferðum og starfsemi Hræðslubandalagsins, sem birtust í Þjóðviljanum um síðustu kosningar. Margt af því er rétt fram tekið og í fullu gildi, enda hefur form. Sósfl., Einar Olgeirsson, ekkert tekið aftur af því, sem ekki stendur heldur til. En hann hefur komizt út á hættulega glerhálku í rökvillum, sem þó er ekki honum líkt. Hann viðurkennir og játar, að Hræðslubandalagið hafi í aðferðum sínum og kosningasvikum farið alveg ólöglegar leiðir, en hann vill færa allar sakir þess vegna á landskjörstjórn. Ég verð nú að segja það, að þessi þríklofna landskjörstjórn er nægilega aum, þó að ekki séu bornar á hana meiri sakir en hún á fyrir. Hún á engin upptök að þeim lögbrotum, sem framin hafa verið, þó að hana hafi skort þrótt til að taka á málinu svo einbeittlega og heiðarlega sem efni stóðu til. En það slær alvarlega út í fyrir hv. 3. þm. Reykv., þegar hann eftir allar skammirnar um landskjörstjórn heldur því fram, að vegna þess að meiri hluti hennar hafi úrskurðað málið, geti Alþingi ekki breytt því. Ég undrast miklu minna, þó að svona rökvilla komi frá hv. þm. Ak., en að hún skuli ganga aftur frá svo gáfuðum manni sem 3. þm. Reykv. er, það er undarlegt, og frá honum er vitleysan enn verri, því að hann viðurkennir ósómann frá byrjun, en hinn ekki.

Setjum nú svo, að hv. 3. þm. Reykv. væri dómari í hæstarétti, sem samsvarar Alþingi í þessu tilfelli, og hann ætti að dæma í stóru afbrotamáli, sem komið væri frá þríklofnum undirrétti. Þá er hans afstaða í málinu, samkv. ræðunni, þessi: Ég veit og skil og viðurkenni, að hinir kærðu eru sekir, svo að ekki er um að villast, en af því að einn hluti undirréttar hefur sýknað þá, þá get ég sem hæstaréttardómari ekki breytt því.

Aumari uppgjöf á allri eðlilegri röksemdafærslu hef ég sjaldan heyrt og aldrei nokkurn tíma frá svo greindum manni sem Einar Olgeirsson er. En það er auðséð, hvað veldur. Skoðanir, sál og sannfæring Alþb. hefur verið keypt í þessu máli, og nú eiga fjórir alþm., sem eru ólöglegir, að komast hér inn á Alþingi á þeim grundvelli, að nokkrir þm. Alþýðubandalagsins hafi tekið borgun fyrir að brjóta gegn sinni sannfæringu og brjóta lög og rétt. Ég freistast til þess að halda, að þessi aðferð frá Alþb. sé viðhöfð til þess að geta á öðrum sviðum okkar þjóðlífs farið eftir fyrirmyndinni, sbr. Iðjukosninguna o. fl., eins og hv. 1. þm. Reykv. var að nefna.

Hv. 3. þm. Reykv. hélt því fram, að núverandi ríkisstj. sé lýðræðisleg og ekki byggð á sviknum grunni. Ef miðað er við daginn í dag, þá mun þetta geta staðizt. En hver var og hver er tilgangur Hræðslubandalagsins? Hann var sá og er sá að geta fengið meiri hluta á Alþingi og stofnað ríkisstj. með lögbrotum og svikum. Að þetta tókst ekki 24. júní s. l., valt á örfáum atkv. Það valt á 6 atkv. í Vestur-Skaftafellssýslu og um leið á nokkrum Alþýðuflokkskjósendum í Suður-Múlasýslu, sem voru svo frelsisgjarnir, að þeir hlýddu ekki fyrirskipun. Þeir vildu ekki kjósa Framsfl., en kusu landslista síns eigin flokks, Að svona fór, er ekki að þakka forustumönnum og lögbrotamönnum Hræðslubandalagsins. Það er að þakka örfáum heiðarlegum kjósendum í þeim sýslum landsins, sem eru einna lengst í burtu frá spillingargreni bandalagsins. En fyrir ríkisstj. og flokka hennar er að þessu leyti ekki allur dagur liðinn eða öll nótt úti. Það skyldi hv. 3. þm. Reykv. hugsa um, Annað eins hefur skeð sem það, að Sameiningarflokkur alþýðu, Sósfl., klofnaði frá. Það þýddi, að Alþb. klofnaði í sín frumefni. Hæstv. félmrh. (HV), sem er þróttmikill maður og ekki allra manna líklegastur til að sleppa stjórnartaumunum fyrirvaralaust, gæti ásamt félaga sínum, hv. 1. landsk. (AG), setið kyrr og lofað hinum sex að róa. Þá væri um leið komið svo, að stjórn okkar lýðveldis hvíldi á sviknum grunni eins og ég hef tekið fram. Þá yrði hv. 3. þm. Reykv. (EOl) að taka sín slagorð aftur um núv. ríkisstjórn.

Hv. 3. þm. Reykv. var með harðvítugar ádeilur á Sjálfstfl. fyrir það, að Morgunblaðið hafi 1953 verið með bollaleggingar um, að flokkurinn gæti með 334 atkvæða aukningu í vissum kjördæmum náð meiri hluta á Alþingi. Þetta hefur sennilega verið rétt reiknað. En þessi grein var áróðursgrein í kosningabaráttu, meinlaus, en ekki mjög hyggileg, engar áætlanir, áskoranir eða bollaleggingar um lögbrot í kosningum. Þessi árás hv. þm. er því máttlaus og dauð. Sjálfstfl. í vor fékk 42.3% af öllum löglegum atkv. Hefði hann fengið út á það meiri hluta þm. eftir löglegum leiðum, þá er ekkert við því að segja. Framsfl. fékk hreinan meiri hl. þm, 1931 út á um 30% allra atkvæða. Ég man ekki eftir, að neinn sakaði hann um lögbrot eða brot á stjórnarskrá og kosningalögunum þá. Hans þm. voru þá löglega kosnir, Þó að Hræðslubandalagið hefði nú fengið 27 þm. út á 37% atkv., þá var ekkert um að segja, ef farið hefði verið að lögum að öllu leyti. Það eru lögbrotin og svikin, sem nú eru réttilega átalin, annað ekki. Alger höfðatöluregla er ekki viðurkennd í okkar stjórnarskrá og verður væntanlega ekki, þótt henni verði breytt.

Ég skal nú láta þetta nægja að þessu sinni, en það var mjög áberandi í ræðu hæstv. forsrh., að hann vill umfram allt forðast, að rætt verði nánar um þetta mál, og það hefur komið í ljós, að allir helztu forustumenn þessara bandalagsflokka hafa forðazt að ræða málið. Það sýnir, að þeir eru farnir að finna og sjá, að þeirra málstaður er þannig, að það er bezt að vera laus við að ræða hann. En þeir geta ekki undrazt það, þó að þeir menn, sem eru fulltrúar yfir 35 þúsund kjósenda í þessu landi, vilji ræða þetta stærsta svikamál, sem komið hefur fyrir Alþingi í tugi ára, og sýna þjóðinni fram á, hvaða aðferðir og hvaða tiltektir það eru, sem hafa ráðið því, að þessir tveir flokkar hafa fengið svo marga þm. sem raun varð á í síðustu kosningum, og um leið sýna fram á, að það er ekki á neinum rétti byggt að viðurkenna, að þeir fjórir uppbótarmenn, sem hér er mest deila um, taki hér sæti, ekki af því, að þessir menn séu nokkurn hlut sekari en aðrir, nema síður sé um marga þeirra, heldur af því, að reglan er þannig, að það er ekki réttmætt, að það sé skipt þessu félagi í tvennt, eftir allt það, sem á undan er gengið.