11.04.1957
Efri deild: 87. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í C-deild Alþingistíðinda. (3100)

117. mál, umferðarlög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð, sem ég þurfti að segja út af ræðu hv. frsm. um hámarksökuhraðann. Hann benti á það, að dómsmrh. væri heimilt að ákveða lægri hraða og einnig að hægt væri að setja lægra mark í lögreglusamþykkt. Þetta er alveg rétt, og ég vænti þess, að það verði ekki tekið upp þetta hámark í lögreglusamþykkt Reykjavíkur þrátt fyrir þessi lög. Ég treysti meira að segja alveg á það. En Alþingi ber ábyrgð á lagaákvæðunum. Ef það samþykkir þennan hraða, þá er það þar með búið að fella þann dóm sinn, að þessi hraði sé hæfilegur í þéttbýli.

Hv. frsm. n. taldi, að hámarkshraðinn hefði verið of lágur, að það hefði ekki verið hægt að framkvæma núgildandi lög vegna þess. Ég skal ekkert segja um það, hvort það hafi ekki verið hægt. Ég hef ekki haft á móti því, að hámarkshraðinn sé aukinn nokkuð, og ég kalla ekki litla aukningu að auka um 40%, eins og við leggjum til, upp í 35 km hraða. Hann gat þess og viðurkenndi fyllilega, að hér í Reykjavík væri mjög óvíða hægt að notfæra sér þennan hámarkshraða, og orðaði það meira að segja þannig, að víðast væri óforsvaranlegt að aka á 45 km hraða. Ég er honum alveg sammála um þetta, og hann meira að segja nefndi aðeins tvær götur, þar sem þetta væri þó hægt. Já, það eru tvær götur í Reykjavík af öllum götum borgarinnar, sem hv. frsm. treystir sér til að nefna sem dæmi um, að þetta hámarksökuhraðamark geti átt við. Ég held, að þetta sé alveg rétt hjá honum. En það er ekki mikið, og ég verð að segja, að það eru veigalitlar ástæður til þess að setja það mark í lög, sem getur aðeins átt við tvær götur í Rvík.

Hv. 1. þm. N-M. fór nokkrum orðum um þetta líka, og ef ég hef ekki misheyrt það, sem hann sagði, þá var það á þá leið, að hann væri á móti því, að sett væru lög, sem yrðu brotin. Já, víð erum víst allir á móti því að brjóta lögin, það er alveg rétt, en höfum við nokkra tryggingu fyrir því, að þessi lög verði ekki líka brotin og verði kannske alveg eins brotin?

Ég læt þetta duga um það atriði. En það var út af fsp. minni um skilgreiningu á dráttarvélum og bifreiðum, sem hv. 1. þm. N-M. tók að sér að svara f.h. nefndarinnar. Hann segir, að aðalatriðið í þessari skilgreiningu sé það, til hvers tækið sé notað, en ekki hitt, hvaða hraða það er gert fyrir, það sé aukaatriði.

Mér þykir vænt um að heyra þetta, því að ég vænti þess, þar sem þetta er sagt af hálfu n., að þá sé fenginn sá skilningur, sem má byggja á, ef ágreiningur verður um þetta, eftir að lögin eru sett. Þetta er þá skilningur hv. allshn., og hef ég ekkert út á hann að setja út af fyrir sig. En hitt atriðið, að ekki hafi orðið ágreiningur út af þessum vélum, þá er það öðru nær. Það varð svo mikill ágreiningur út af þeirri vél, sem ég nefndi, að viðkomandi sýslumaður tók hana úr umferð, lokaði hana inni, eftir að hann sjálfur var þó búinn að skrásetja hana sem dráttarvél, og þannig voru stöðvaðir mjólkurflutningar af þessum ástæðum. Síðan kom málið fyrir dómsmrh. til úrskurðar, en situr þar enn. Vélin var svo leyst úr banni í bili, þar til úrskurðurinn félli, svo að það er alls ekki svo að skilja, að ekki sé ágreiningur út af þessari tegund véla. Ég hygg, að hv. 2. þm. Skagf. hafi líka sögu að segja af sinni vél, ekki alveg eins, því að hann mun hafa greitt gjöld af henni sem bifreið, að vísu gegn mótmælum, í þeirri von, að þau verði honum endurgreidd.

Ég endurtek það, að ég tel það mikilsvert að hafa fengið þessa skýringu af hálfu n. á skilgreiningu um dráttarvél og bifreið, vegna þess að á þeirri skýringu kann að verða byggður úrskurður, er síðar kann að þurfa að kveða upp um þetta efni.