08.04.1957
Efri deild: 84. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í C-deild Alþingistíðinda. (3109)

156. mál, rannsóknarstofa til geislamælinga

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í þessu frv. eru tvö nýmæli. Í fyrsta lagi er ráð fyrir því gert, að stofna skuli nýtt prófessorsembætti við verkfræðideild háskólans, embætti í eðlisfræði. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því, að við háskólann sé sett á stofn rannsóknarstofa til mælinga á geislavirkum efnum, hún skuli lúta verkfræðideild háskólans og prófessorinn í eðlisfræði jafnframt vera forstöðumaður hennar.

Í fyrra hluta verkfræðináms er eðlisfræði ein aðalnámsgreinin. Einn af þeim. þremur prófessorum, sem nú starfa við verkfræðideildina, hefur á hendi um það bil helming hinnar munnlegu kennslu auk annarra kennslugreina. Kennsluna í eðlisfræði að öðru leyti annast tveir stundakennarar. En auk þess sem eðlisfræði er kennd í verkfræðideild, er hún einnig kennd til B.A.-prófs í heimspekideild. Ráð er fyrir því gert, að hinn nýi prófessor í eðlisfræði taki að sér að annast alla þá eðlisfræðikennslu, sem stundakennarar nú annast í verkfræðideildinni, og stundakennsluna í eðlisfræði í heimspekideildinni eða til B.A.-prófs. Á s.l. ári var kostnaður við stundakennslu í eðlisfræði 35 þús. kr., og mundu þær greiðslur falla niður, ef frv. þetta yrði að lögum.

Þá er hitt nýmælið, að starfrækt verði í framtíðinni rannsóknarstofa til mælinga á geislavirkum efnum og að eðlisfræðiprófessorinn verði jafnframt forstöðumaður hennar.

Svo sem hv. deildarmenn vafalaust muna, var tekin á fjárlög þessa árs nokkur fjárveiting, 100 þús. kr., til mælinga á geislavirkum efnum. Fjárhæð þessi er að vísu minni en hún hefði þurft að vera, en er þó betri en engin. Hefur tilætlunin verið sú að hefja að stofnsetja með þessu fé rannsóknarstofu til geislamælinga. Menntmrn. og háskólanum þótti skynsamlegast og haganlegast, að þessi rannsóknarstofa yrði á vegum háskólans, yrði í tengslum við verkfræðideildina. Á því er enginn vafi, að sá þáttur hinna almennu kjarnfræða, sem fyrst í stað mun hafa langmesta þýðingu fyrir Ísland, er einmitt notkun geislavirkra efna. Notkun þeirra fer sívaxandi í læknisfræði, í landbúnaði, í iðnaði og við margs konar rannsóknir. Erlendis hafa nú langflest stærri sjúkrahús sérstakar deildir, sem hafa yfir að ráða tækjum til þess að fara með og mæla geislavirk efni, sem notuð eru við sjúkdómagreiningar og til geislalækninga. Landbúnaðarrannsóknir með geislavirkum efnum hafa og valdið geysimiklum framförum, svo sem áburðarrannsóknir. Í iðnaði eru og margs konar not fyrir geislavirk efni, sem sömuleiðis eru þýðingarmikil í lífefnafræði. Ef við Íslendingar eigum að geta gert okkur vonir um að fylgjast með á þessum sviðum, má ekki dragast, að hér verði komið á fót rannsóknarstofu, sem hafi skilyrði til mælinga á geislavirkum efnum. Þessa þörf hefur Alþ. viðurkennt með 100. þús. kr. fjárveitingu sinni nú í janúar til slíkra geislamælinga.

Spurningin er þá aðeins, hvernig sú rannsóknarstofa yrði haganlegast skipulögð. Hér í þessu frv. er ráð fyrir því gert, að hún verði tengd háskólanum. Vona ég, að um það verði ekki ágreiningur, að sú skipun sé skynsamlegust og líklegust til þess að tryggja örasta framþróun á þessu sviði. Gera má ráð fyrir, að greiða mætti allt að 30 þús. kr. af fjárveitingunni, sem nú er í fjárlögum, fyrir forstöðu þessarar stofnunar.

Þá er þess og að geta, að háskólanum hefur verið ánafnað allmiklu fé, um 46 þús. dollurum, í arfleiðsluskrá Aðalsteins heitins Kristjánssonar í Winnipeg til kennslu og rannsókna í náttúruvísindum við Háskóla Íslands. Ég bað háskólarektor á sínum tíma að afla um það upplýsinga hjá erfingjum eða þeim, sem fara með málefni arfleiðsluskrárinnar, hvort ekki mætti verja vaxtatekjum af dánargjöfinni til þess að greiða hluta af kostnaði við prófessorsembætti í eðlisfræði, þó að þannig væri tekið til orða í erfðaskránni, að því skyldi verja til kennslu og rannsókna í náttúruvísindum almennt. Við því hefur komið jákvætt svar, þannig að skilyrði eru til þess að hagnýta nokkurn hluta af vaxtatekjum dánargjafarinnar til þess að greiða laun þessa prófessors, ef frv. þetta nær fram að ganga, og er samkomulag um það við háskólann að nota allt að 25 þús. kr. af vaxtatekjum af dánargjöfinni til þess að standa undir kostnaði við þetta embætti. Með þessu móti mundi þetta nýja prófessorsembætti ekki hafa í för með sér neinn kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. 35 þús. kr. eru þegar greiddar fyrir stundakennslu í eðlisfræði. um 30 þús. kr. gætu gengið til embættisins fyrir forstöðu geislamælingastöðvarinnar, og 25 þús. kr. gætu gengið til embættisins af vaxtatekjum dánargjafar Aðalsteins Kristjánssonar, þannig að ríkissjóður hefði engin viðbótargjöld af stofnun þessa embættis umfram það, sem nú er og beinlínis leiðir af ráðstöfunum, sem þegar hafa verið gerðar. Nái frv. fram að ganga, yrði án efa mun betur séð en nú á sér stað fyrir þeirri kennslu, sem þegar fer fram í háskólanum í eðlisfræði og er nauðsynlegt að þar fari fram, þar eð á það kæmist fastari skipan, með því að hún kæmist í hendur manns, sem gegndi kennslunni sem lið í föstu embætti, auk þess sem fyrir því er séð, að starfræksla rannsóknarstofu til geislamælinga komist á fastan grundvöll með þeim hætti, sem því málefni er án efa fyrir beztu, þ.e.a.s., að starfsemin sé á vegum háskólans og framkvæmdarstörfin á vegum prófessors í eðlisfræði við verkfræðideildina.

Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.